Ekkert nýtt en alltaf áskorun

Skóli fyrir alla? | 18. september 2019

Ekkert nýtt en alltaf áskorun

Hvergi í íslenska skólakerfinu eru jafn mörg börn sem búa á heimilum þar sem annað tungumál en íslenska er talað og í Fellaskóla eða 80-90% af nemendum skólans. Mörg þeirra eru fædd hér á landi og hafa aldrei búið annars staðar en annaðhvort báðir eða annað foreldrið er af erlendu bergi brotið.

Ekkert nýtt en alltaf áskorun

Skóli fyrir alla? | 18. september 2019

Sig­ur­laug Hrund Svavars­dótt­ir, skóla­stjóri Fella­skóla
Sig­ur­laug Hrund Svavars­dótt­ir, skóla­stjóri Fella­skóla mbl.is/Hari

Hvergi í íslenska skólakerfinu eru jafn mörg börn sem búa á heimilum þar sem annað tungumál en íslenska er talað og í Fellaskóla eða 80-90% af nemendum skólans. Mörg þeirra eru fædd hér á landi og hafa aldrei búið annars staðar en annaðhvort báðir eða annað foreldrið er af erlendu bergi brotið.

Hvergi í íslenska skólakerfinu eru jafn mörg börn sem búa á heimilum þar sem annað tungumál en íslenska er talað og í Fellaskóla eða 80-90% af nemendum skólans. Mörg þeirra eru fædd hér á landi og hafa aldrei búið annars staðar en annaðhvort báðir eða annað foreldrið er af erlendu bergi brotið.

Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla, segir að á hverju ári komi nýir nemendur í skólann sem eru nýkomnir til landsins. Í haust eru þeir 14 talsins. „Þetta er ekkert nýtt fyrir okkur en alltaf áskorun,“ segir hún en rúmlega 330 nemendur eru 1. til 10. bekk í Fellaskóla. 

Síðast þegar Sigurlaug taldi voru töluð 26 tungumál við skólann en það er mjög breytilegt á milli ára. Hún segir að mikil fjölbreytni sé innan hópsins en öll kennsla fari fram á íslensku. „Auðvitað er það áskorun að fá hóp nýrra nemenda í skólann sem talar enga íslensku en starfsfólk skólans er mjög vant því að taka á móti ólíkum hópum. Nemendum með annað tungumál á heimili hefur fjölgað í íslensku skólakerfi og þetta hefur breyst hratt.  Til marks um það var ég fengin til að flytja erindi um sérstöðu Fellaskóla árið 2004 en þá voru 7% nemenda frá heimilum þar sem annað tungumál var talað,“ segir Sigurlaug.

Að hennar sögn eru flestir skólar í Reykjavík orðnir þjálfaðir í að taka á móti börnum af erlendum uppruna. Skólarnir eru eðlilega misvel í stakk búnir til þess og það sama á við um kennara og annað fagfólk sem starfar innan skólanna. „Í Fellaskóla hefur alltaf verið fjölbreyttur nemendahópur allt frá því skólinn var stofnaður árið 1972. Þessi skóli er alltaf í þróun og við verðum alltaf að bregðast við raunveruleikanum eins og hann er. Ég segi stundum að hér sé unnið kraftaverk á hverjum einasta degi og oft á dag því fagfólkið hér er með góða reynslu af starfi með fjölbreyttum hóp barna,“ segir Sigurlaug.

Fyrsti og annar bekkur í Fellaskóla er með lengri skóladag og samþætt skóla- og frístundastarf sem er ólíkt því sem gengur og gerist í flestum öðrum skólum. Verkefnið heitir 1, 2 og Fellaskóli. Þau byrja klukkan 8.20 alla morgna en boðið er upp á hafragraut klukkan átta. Skóla og frístundastarfi lýkur klukkan 15.40 og eftir þann tíma geta foreldrar greitt fyrir frístund barnsins.

Lengri viðvera mikilvægur hluti af lífi barnsins

Íslenskan er algjör lykill að tækifærum. Hún er það tungumál …
Íslenskan er algjör lykill að tækifærum. Hún er það tungumál sem er notað í samfélaginu og bara lítið brot nemenda sem getur nýtt sér framboð á námi í framhaldsskóla á ensku segir skólastjóri Fellaskóla. mbl.is/Hari

Sigurlaug segir að Reykjavíkurborg geri þetta til að styðja við þennan nemandahóp enda borðleggjandi að þegar nemendahópurinn er jafn fjölbreyttur og raun ber vitni í Fellaskóla þarf hann meiri stuðning en aðrir. 

„Barnið er hér á daginn og í mörgum tilvikum stærsta hluta vökutímans og ég tel eðlilegt að önnur kerfi sem koma að stuðningi við barnið geri það hér. Þessi lengda viðvera er mikilvægur hluti af lífi barnanna og gefur tækifæri á að þau séu lengur í íslensku málumhverfi á degi hverjum og meira íslenskunám fari fram en annars væri. Þetta er lykilatriði og algjörlega frábært að mínu mínu mati,“ segir Sigurlaug. 

Spurð út í bekkjarstærðir segir Sigurlaug þær afar mismunandi. Alltaf sé horft á hópinn og samsetningu hans. Hversu mikinn og hvernig stuðning krakkarnir þurfa. „Við reynum að halda námshópunum eins litlum og við getum og höfum haft snemmtæka íhlutun að leiðarljósi í yngstu bekkjunum. Fyrsti bekkurinn hjá okkur nýtur til að mynda mikillar og góðrar þjónustu, bæði talmeinafræðinga, tveggja kennara í litlum nemendahópi, stuðningsfulltrúa og fleira,“ segir Sigurlaug.

Yfirleitt eru tveir umsjónarkennarar í flestum árgöngum í Fellaskóla og segir Sigurlaug að þriðji kennarinn komi inn í stærðfræði- og íslenskutíma en þetta er hluti af stoðþjónustu skólans.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

„Auk þess erum við með sérkennslu, stuðningsfulltrúa, þroskaþjálfa og kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál. Þegar börn eru nýkomin til landsins fá þau eðlilega meiri stuðning við íslenskunámið. Þegar hlutfall þeirra sem þurfa einhvern stuðning við íslenskunámið er orðið þetta hátt þarf að skipuleggja hlutina á annan hátt en með hefðbundinni kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Starfshættir í skólanum þurfa að taka tillit til sérstöðunnar og þróast í samræmi við breytingar í nemendahópnum. Ég held að þetta sé eins í flestum skólum þar sem um blöndun er að ræða en allt sem við gerum við Fellaskóla er miðað út frá nemendahópnum hverju sinni. Þannig að kennarar við Fellaskóla eru mjög flinkir í að hugsa út fyrir rammann og koma til móts við þarfir allra. Við skólann er boðið upp á mikla stoðþjónustu og það er ekki bara út af börnum með annað tungumál. Heldur líka af því að nemendahópurinn okkar er fjölbreyttur,“ segir hún. 

Hér fær hver einstaklingur að vera hann sjálfur

Að sögn Sigurlaugar er mjög gott samstarf við skólaþjónustuna í þjónustumiðstöð Breiðholts. Þar hefur skólinn aðgang að skólasálfræðingi, félagsráðgjafa og kennsluráðgjöfum. „Við vinnum mjög þétt með þeim og fáum hjálp við skimanir, ráðgjöf og margþættan stuðning við þátttöku í verkefnum er lúta að félagsfærni og sjálfsrækt auk þjónustu við foreldra. Ég myndi vilja efla samstarfið enn frekar með áherslu á stuðning á vettvangi nemendanna.

Mín skoðun er sú að við í Fellaskóla séum orðin mjög góð í að horfa á barnið óháð uppruna eða stöðu og koma til móts við þarfir þess. Við höfum mörg og mikil tækifæri og reynt starfsfólk. Við kjósum að þegar nýr nemandi kemur í skólann að horfa bara á barnið og hvað sé best fyrir þetta barn. Ekkert eitt sem gildir fyrir alla. Ég held að okkur hafi tekist að skapa gott samfélag hér við skólann þar sem börn eru á sínum forsendum.

Nemendahópurinn er ótrúlega flinkur í að taka á móti nýjum krökkum og yfirleitt eru börn viðurkennd hér eins og þau eru. Hér fær hver einstaklingur að vera hann sjálfur og ekkert tiltökumál hvort þú ert af erlendum uppruna, með ADHD eða á einhverfurófi, lesblindur eða þarft aðstoð hér og þar, þetta er ekki mikið mál. Krakkarnir í Fellaskóla eru dugleg að styðja hvert annað og það er styrkur í fjölbreytileikanum. Ég er mjög ánægð með nemendur og starfsfólk við Fellaskóla og við leggjum mikla áherslu á að koma vel fram við hveort annað og hugsum alltaf út frá einstaklingnum. Að horfa á það jákvæða og styrkja jákvæð hegðun enda er ég lítið hrifin af hörðum refsingum og tek undir með góðum kennara sem hér starfaði: Grípum þau góð,“ segir Sigurlaug.

Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir er skólastjóri Fellaskóla sem er sennilega einn …
Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir er skólastjóri Fellaskóla sem er sennilega einn fjölbreyttasti skóli landsins. mbl.is/Hari

Þetta er heilmikil áskorun og segir Sigurlaug að skólinn og starfsfólk hans vilji skapa þessum nemendum sömu tækifæri og öðrum nemendum í Reykjavík. „Vissulega höfum við gott bakland en ég held að til framtíðar þurfum við að gera betur. Að hugsa þetta aðeins öðruvísi. Eins og í dag er íslenskukunnátta lykillinn að öllum tækifærum til menntunar á Íslandi. Ég vildi sjá að við værum að styðja  börn alveg niður í leikskóla að ná tökum á íslenskunni.

Íslenskan er algjör lykill að tækifærum. Hún er það tungumál sem er notað í samfélaginu og bara lítið brot nemenda sem getur nýtt sér framboð á námi í framhaldsskóla á ensku. Við verðum að vanda okkur við það sem samfélag og skólakerfið þarf að stíga út úr gamla rammanum með því að breyta starfsháttum og kennsluháttum. Ég held að það sé til góða fyrir öll börn,“ segir Sigurlaug.

Sigurlaug segir að Fellaskóli sé í samstarfi við leikskólana í …
Sigurlaug segir að Fellaskóli sé í samstarfi við leikskólana í hverfinu og talmeinafræðinga um snemmtæka íhlutun og þau sjái miklar framfarir hjá börnum sem er byrjað að fylgja eftir í leikskóla og inn í Fellaskóla. mbl.is/Hari

Eitt af því sem hefur verið áberandi í umræðunni um skólamál eru samræmd próf og PISA-kannanir en að sögn Sigurlaugar er samræmt námsmat líkt og kemur fram í samræmdum prófum afar ósanngjarnt fyrir marga nemendur Fellaskóla enda ekki rétt að bera saman niðurstöður nemenda sem hafa alla tíð búið á Íslandi og eru með allt sitt bakland þar, saman við nemendur sem hafa aðeins búið í stuttan tíma hér á landi.

„En samt eru slík samræmd próf mikilvægur mælikvarði og allir okkar nemendur, sem mögulega geta, taka þátt í samræmdum prófum. Við notum túlka mikið í prófum og í foreldraviðtölum. Margir starfsmenn skólans tala fleiri tungumál en eitt og eins eru krakkarnir afar viljugir að aðstoða.“

Sigurlaug fagnar því að stoðdeild hafi tekið til starfa við Háaleitisskóla en henni er ætlað að þjóna börnum sem eru að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi enda segist hún velta fyrir sér hversu mikið gagn sé að því fyrir þennan hóp barna að fara inn í íslenskumælandi umhverfi og hefðbundið íslenskt skólastarf. Líkt og fram kom í frétt mbl.is nýverið um stofnun deildarinn er umsóknum um 70% hælisleitenda er hafnað og ljóst að sum þeirra eru aðeins í nokkrar vikur á Íslandi.

„Við höfum tekið á móti ótrúlega mörgum hælisleitendum og ég tel betra fyrir þau að fá annars konar þjónustu en þá sem við getum veitt þeim. Við fengum eitt haustið 16 hælisleitendur hingað í skólann og þá velti ég alvarlega fyrir mér hvort þetta væri það besta sem við gætum gert fyrir þessi börn. Þau glíma sum við áfallastreitu, kvíða og eru búin að vera á flækingi á milli landa. Ekki bara slæmt fyrir þau heldur einnig börnin og starfsmennina í skólanum. Þessi börn eru kannski hér í nokkrar vikur og síðan hverfa þau og samnemendur og starfsfólk veit ekki hvað hefur orðið um þau. Það hefur verið þannig og er vont fyrir alla,“ segir Sigurlaug.

Breytt aðalnámskrá kallar á nýja hugsun

Tungumálakunnátta margra nemenda við skóla hér á landi er dýrmæt …
Tungumálakunnátta margra nemenda við skóla hér á landi er dýrmæt auðlind og mikilvægt að hlúa vel að þeim tungumálum sem þeir kunna, segir skólastjóri Fellaskóla. mbl.is/Hari

Líkt og flestir viðmælendur blaðamanns telur Sigurlaug að auka megi snemmtæka íhlutum barna og það áður en þau koma í grunnskóla. „Ég myndi vilja sjá meiri samþættingu námsgreina, meiri samvinnu nemenda almennt í skólakerfinu. Breytingar sem gerðar voru á aðalnámskrá árið 2011 kalla á að við séum að hugsa nám á allt annan hátt en áður. Við þurfum að undirbúa nemendur á allt annan hátt en áður undir framtíðina.

Eins og staðan er í dag við ekki hugmynd um hvað þessir krakkar sem við erum með í dag fara að gera í framtíðinni. Við vitum að það er aukin krafa um að þau kunni að vinna saman, aukin krafa um að kunna að afla sér upplýsinga og vinna úr þeim en þau verða að hafa grunn í tungumálinu ef þau ætla sér að búa og starfa hér á landi.

Við vitum að það verða auknir fólksflutningar, bæði milli landa og landshluta, á næstu árum og þá er tungumálakunnátta mikilvægur þáttur. Tungumálakunnátta margra nemenda við skóla hér á landi er dýrmæt auðlind og mikilvægt að hlúa vel að þeim tungumálum sem þeir kunna. Í framtíðinni vitum við að fólk þarf að geta unnið með öðrum og megináherslan er á það. Að kunna að afla upplýsinga og vinna úr þeim. Félagsfærni hefur til að mynda aldrei verið mikilvægari en í dag. Þú þarft að vera fær á því sviði. Við sem samfélag þurfum að æfa okkur í að vera umburðarlyndari og góð hvert við annað,“ segir skólastjóri Fellaskóla.

Sigurlaug segir að Fellaskóli sé í samstarfi við leikskólana í …
Sigurlaug segir að Fellaskóli sé í samstarfi við leikskólana í hverfinu og talmeinafræðinga um snemmtæka íhlutun og þau sjái miklar framfarir hjá börnum sem er byrjað að fylgja eftir í leikskóla og inn í Fellaskóla. mbl.is/Hari

Gott samstarf í hverfinu

Þetta er í takt við hugmyndir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, en hún hefur skipað starfshóp sem á að vinna að heildarstefnumörkun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Lilja segir ljóst að margir nemendur, sem eiga annað móðurmál en íslensku, eiga erfitt uppdráttar í íslensku skólakerfi og við því verði að bregðast hratt og örugglega. Að finna leiðir til þess að íslenskir skólar geti betur mætt fjölbreyttari nemendahópum en áður. Þar er snemmtæk íhlutun afar mikilvæg, því fyrr sem nemendur fá stuðning og úrræði við hæfi – þeim mun meiri árangri ná þau, segir Lilja. 

Eitt af því sem Fellaskóli gerir er að nýta tæknilausnir við kennslu og notar Google skólaumhverfið meðal annars við kennsluna. „Byrjuðum á þessu til þess að nemendur hefðu betri aðgang að hugtökum á sínu móðurmáli. Ég geri ráð fyrir að við fetum okkur áfram í því að samþætta námsgreinar í auknum mæli. Þetta eru hænuskref og við verðum að gefa starfsfólki skólans tækifæri á að læra nýjar aðferðir með endurmenntun og mín reynsla af starfinu hér í Fellaskóla er sú að það er ekkert vandamál. Það eru allir tilbúnir til að gera allt til þess að gera það besta fyrir börnin. En þetta tekur allt tíma og ytri ramminn oft fastur í forminu,“ segir Sigurlaug. 

Hún segir að Fellaskóli sé í samstarfi við leikskólana í hverfinu og talmeinafræðinga um snemmtæka íhlutun og þau sjái miklar framfarir hjá börnum sem er byrjað að fylgja eftir í leikskóla og inn í Fellaskóla. „Þeim er fylgt stíft eftir og þetta skilar gríðarlega góðum árangri en er mjög kostnaðarsamt en við höfum kosið að taka af fjármagni skólans til stoðþjónustu í verkefnið auk þess sem við höfum fengið einhverja styrki. En við teljum að til framtíðar sé aðalmálið að byrja sem fyrst í stað þess að bíða þangað til allt er í óefni komið og allt of seint á skólagöngunni. Þetta á við um allan stuðning hvort sem það er tungumálið eða annað. Ef maður hugsar um samfélagið og kostnað þess er þetta svo miklu miklu betri lausn til framtíðar ef við getum komið  til móts við þau sem fyrst. Öll ævi barns sem við missum út úr höndunum er í húfi,“ segir Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla.

mbl.is