„Ekki að horfa á þá sem fórnarlömb“

Skóli fyrir alla? | 17. janúar 2021

„Ekki að horfa á þá sem fórnarlömb“

Hópur nemenda af erlendum uppruna er standa sig mjög vel í framhaldsnámi og félagslega. Með því að styðja við bakið á þeim sem þurfa á stuðningi að halda er hægt að stækka þennan hóp enn frekar og auka líkur á að athafnalífið endurspegli betur þann fjölbreytileika sem er á Íslandi en fyrir ári voru rúmlega 15% landsmanna af erlendum uppruna.

„Ekki að horfa á þá sem fórnarlömb“

Skóli fyrir alla? | 17. janúar 2021

Susan Rafik Hama.
Susan Rafik Hama. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur nemenda af erlendum uppruna er standa sig mjög vel í framhaldsnámi og félagslega. Með því að styðja við bakið á þeim sem þurfa á stuðningi að halda er hægt að stækka þennan hóp enn frekar og auka líkur á að athafnalífið endurspegli betur þann fjölbreytileika sem er á Íslandi en fyrir ári voru rúmlega 15% landsmanna af erlendum uppruna.

Hópur nemenda af erlendum uppruna er standa sig mjög vel í framhaldsnámi og félagslega. Með því að styðja við bakið á þeim sem þurfa á stuðningi að halda er hægt að stækka þennan hóp enn frekar og auka líkur á að athafnalífið endurspegli betur þann fjölbreytileika sem er á Íslandi en fyrir ári voru rúmlega 15% landsmanna af erlendum uppruna.

Susan Rafik Hama rannsakaði velgengni nemenda af erlendum uppruna í framhaldsskólum á Íslandi, reynslu þeirra og væntingar í doktorsritgerð sinni í menntavísindum sem hún varði við deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands í nóvember.

„Það er svo mikilvægt að horfa ekki alltaf á það sem ekki gengur vel heldur þarf einnig huga að því sem vel gengur. Til að mynda að það er hópur barna og ungmenna af erlendum uppruna sem gengur mjög vel í námi og félagslega. Til þess að sá hópur stækki þarf af búa til rými fyrir alla innan skólans og aðstoða þau ef þau þurfa á því að halda,“ segir Susan sem hefur unnið að menntarannsóknum árum saman.

Þann 1. janúar 2020 voru 55.354 innflytjendur á Íslandi eða 15,2% mannfjöldans. Það er fjölgun frá því í árið á undan þegar þeir voru 14,1% landsmanna (50.271). Frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr því að vera 8% mannfjöldans upp í 15,2% segir á vef Hagstofu Íslands.

Hjónin Salah Karim Mahmood og Susan Rafik Hama hafa verið …
Hjónin Salah Karim Mahmood og Susan Rafik Hama hafa verið búsett á Íslandi í um 20 ár. mbl.is/Árni Sæberg

Á sama tíma og samfélagið heldur áfram að þróast og fjölbreytileikinn að aukast hefur margt breyst síðan Susan kom hingað til lands fyrir 20 árum með hjálp Flótta­manna­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna (IOM) og Rauða kross Íslands.

Susan lauk BA-prófi í ensku og bókmenntum frá Salahaddin-háskóla árið 1997,  kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands árið 2008, BA-prófi í íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands árið 2011 og M.Ed prófi í fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá sama skóla árið 2012. Susan hefur starfað sem  verkefnastjóri, túlkur og  kennari við leikskóla, grunn- og framhaldsskóla og háskóla bæði hérlendis og erlendis.

Susan hefur lokið námi og er ekki í föstu starfi um þessar mundir en er að skrifa leiðbeiningar fyrir kennara á öllum skólastigum sem kenna nemendum sem eru múslimar. „Það vantar sárlega slíkar upplýsingar að sögn kennara og þar sem ég ræddi meðal annars við múslima þegar ég vann doktorsverkefnið mitt þá nýti ég hana við gerð  leiðbeininganna auk þeirrar reynslu og þekkingar sem ég hef á þessu sviði,“ segir hún.

Susan er einnig að skrifa grein um foreldra sem komu hingað sem flóttamenn, upplifun þeirra og hvort þeir upplifi að þeir tilheyri samfélaginu. Susan og leiðbeinandi hennar í doktorsverkefninu, Hanna Ragnarsdóttir tóku viðtöl við foreldra, skólastjóra og kennara í skólum barnanna á sínum tíma. 

Nemendurnir sem hún ræddi við í doktorsverkefninu standa vel að vígi, bæði námslega og félagslega. Þau eru áhugsöm og má segja að seigla einkenni þau segir hún. „Þau lögðu ekki árar í bát þrátt fyrir ýmsar hindranir heldur héldu áfram, sýndu seiglu. Það er mikilvægt að það sé haldið utan um þau og þeim veittur stuðningur ef þau þurfa á honum að halda. Svo sem frá kennurum og nærumhverfi þeirra, til að mynda frá foreldrum og vinnu, en þau voru öll í vinnu, annaðhvort í hlutastarfi eða fullri vinnu, þegar ég tók viðtölin,“ segir Susan.

Af 27 viðmælendum voru 17 enn í framhaldsskóla en 10 höfðu lokið framhaldsskóla með góðar einkunnir og höfðu fengið vinnu að námi loknu. Af þessum tíu voru fimm byrjuð í háskólanámi þegar Susan ræddi við þau en nemendurnir stunduðu nám við þrjá framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. 

„Samspil innri og ytri þátta hjálpaði þeim við að ganga vel,“ segir Susan. Þar á meðal kennarar sem studdu þau í náminu. „Helstu skilaboðin með ritgerðinni eru að sýna að ábyrgðin á að taka við nemendum af erlendum uppruna á ekki að hvíla á örfáum skólum eða kennurum heldur er mikilvægt að fleiri skólar taki við þessum nemendum. Það er bæði gott fyrir skólana sem og alla nemendur,“ segir Susan og og bætir við að ef aðeins fáir framhaldsskólar taki við nemendum, sem kannski hafa búið í stuttan tíma á Íslandi, er í raun verið að beina fjölskyldum af erlendum uppruna í ákveðin hverfi og það er ekki gott því blöndun er miklu betri. 

„Það á heldur ekki verða til þess að stöðva krakka sem koma með góðar einkunnir úr grunnskóla í að sækja um framhaldsskóla að viðkomandi skóli treystir sér ekki til þess að styðja við bakið á nemandanum.“

Hún nefnir þrennt sem mikilvægt er að hafa í huga þegar flóttafólk og hælisleitendur eiga hlut að máli. „Í fyrsta lagi tíminn því þegar þú kemur hingað getur þú ekki allt strax á fyrstu stundu. Til að mynda tungumálið. Það tekur tíma og er auðvitað mismunandi hversu langan tíma það tekur fólk að ná íslenskunni. Í öðru lagi öryggi en það er svo mikilvægt og nemendurnir sem ég ræddi við töluðu um þetta sérstaklega,“ segir hún.

Susan nefnir sem dæmi fyrir stúlkur að ganga einar heim að kvöldlagi. Önnur tegund af öryggi sem flóttafjölskyldur nefna er að þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnunum hér. Þau geti farið áhyggjulaus út að leika eftir skóla án fylgdar.

Í þriðja lagi er tengslanet mikilvægt. Að upplifa sem þau tilheyri samfélaginu og séu í góðum tengslum bæði við samlanda og aðra.

Susan segir að það sé mjög gott þegar kennarar styðja við slíka tengslamyndun því menntun á að miðast við ólíka menningu. Foreldrar þessara nemenda skipta miklu máli og reyna yfirleitt alltaf að styðja við börn sín. „Eitt af því sem ungmennin nefndu þegar ég spurði þau þá var það ráðandi svar að þau teldu búa við velgengni. Þau stæðu sig vel bæði í skóla og félagslega. Þau væru að vinna og veittu þannig fjölskyldunni fjárhagslegan stuðning. Sum þeirra voru einnig með þá ábyrgð heiman frá sér – að taka þátt í að framfleyta fjölskyldunni.“ 

Tengslanet er mikilvægt þegar kemur að komu flóttafólks til landsins.
Tengslanet er mikilvægt þegar kemur að komu flóttafólks til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Susan segir að ekki fari alltaf saman væntingar foreldra og barna til námsins og hvaða námsleiðir verða fyrir valinu. Oft sjá foreldrarnir fyrir sér að börn þeirra verði læknar, lögfræðingar eða leggi stund á nám sem er líklegt til að skila þeim góðum stöðum og tekjum í framtíðinni. Þrátt fyrir að ungmennin séu góðir námsmenn og gangi vel í einu og öllu er ekki þar með sagt að þau hafi áhuga á þessum störfum og vilja frekar fara í listnám eða annað nám sem ekki fellur yfirleitt í flokk með hátekjustörfum. En auðvitað voru flestir foreldrar mjög jákvæðir í garð náms barna sinna og vildu þau héldu áfram því námi sem þau höfðu áhuga á, segir Susan.

„Sumir foreldranna eru með litla sem enga menntun og vinna mikið. Ekki gleyma því að foreldrar flytja oft til annarra landa vegna barnanna, til að veita þeim betri framtíð. Þetta á ekki síst við þegar stríð ríkir í heimalandinu,“ segir Susan.

Að sögn Susan kemur stuðningurinn víða að. Til að mynda í  íþróttum en einn viðmælenda hennar lýsti því hvernig knattspyrnuþjálfari hans var alltaf að hvetja þau áfram og hvað það hafi haft góð áhrif.

Samvinna er lykilatriði.
Samvinna er lykilatriði. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vinnan kemur sér ekki bara vel fjárhagslega heldur líka tengslalega. Susan segir að ein af þeim sem hún tók viðtal við hafi lýst því hvernig hún hafi einhvern tíma átt í erfiðleikum með að leysa verkefni í skólanum þar sem hún skildi það ekki þannig að hún fór með það í vinnuna. Þar voru allir boðnir og búnir til að aðstoða hana við að skilja verkefnið.  

„Það er svo mikilvægt að fá stuðning sem þennan þegar foreldrar geta ekki aðstoðað. Þetta gildir um öll ungmenni, þau þurfa stuðning í námi hvort heldur sem þau eru af erlendum uppruna eða ekki. Ef þau þurfa meiri stuðning þá á að veita þeim hann,“ segir Susan og segir mjög mikilvægt á sama tíma að ekki sé slakað á kröfum til nemenda.

„Ekki að horfa á þá sem fórnarlömb því þá fara þeir að líta á sig sem fórnarlamb,“ segir Susan og vísar þar til þess að láta viðkomandi fá léttari verkefni en aðra í hópnum. „Með því að láta þá fá léttari verkefni, í þessu tilviki nemendur af erlendum uppruna, er verið að ýta undir þessa fórnarlambshugsun. Þess í stað á að veita stuðning ef þörf er á honum þannig að þeir geti leyst sambærileg verkefni og aðrir í bekknum. Ef við lítum á tungumálið þá má ekki gleyma því að börn sem hingað koma eru ekki tungumálalaus. Segjum sem svo að hingað komi nemandi sem talar spænsku. Í flestum framhaldsskólum er boðið upp á spænskunám og þá er upplagt að spænskumælandi nemandi aðstoði aðra nemendur við spænskuna og fái aðstoð við íslenskuna í staðinn. Þetta þarf ekki að vera tungumálakunnátta heldur einhver önnur kunnátta sem viðkomandi nemandi kemur með til landsins. Þannig græða allir. Það sem meira er – fólk upplifir sig sem hluta af samfélagi. Að það skipti máli, eigi vini,“ segir Susan.

mbl.is/Hari

Eitt af því sem Susan spurði nemendur út í var einelti en ekkert þeirra upplifði slíkt í framhaldsskólum. Einhverjir höfðu orðið fyrir einelti í grunnskóla en ekki í framhaldsskóla. Þar áttu þau vini bæði af íslenskum og erlendum uppruna sem þau hittu og voru í góðum samskiptum við.

Susan bendir á eitt sem getur hindrað ungmenni af erlendum uppruna við að stunda nám í framhaldsskóla. Að þau eru eldri en 18 ára þegar þau sækja um nám í framhaldsskólum þar sem þau hafa misst einhver ár úr skóla af ýmsum ástæðum. Þá getur málið vandast því framhaldsskólum er gert að taka inn alla nemendur yngri en 18 ára sem þýðir að þeir sem eru eldri eiga ekki öruggt aðgengi.

Höfnun getur þýtt að viðkomandi reynir aldrei aftur að sækja um og lýkur ekki námi. Þess vegna er sveigjanleiki mikilvægur og hér gæti menntamálaráðuneytið gripið inn með því að hvetja framhaldsskóla til þess að horfa fram hjá aldri þessa hóps í einhverjum tilvikum segir Susan. 

Jafnframt að tryggja að starfandi framhaldsskólakennarar fái endurmenntun eða símenntun á þessu sviði, að taka á móti og styðja við nemendur af fjölbreyttum uppruna. Með þessu getur skólinn orðið fjölbreyttari og betri stofnun segir Susan en slík fjölmenningarkennsla er í boði fyrir kennaranema í dag að sögn Susan Rafik Hama doktors í menntavísindum.

mbl.is