Raðað í  hópa eftir getu

Skóli fyrir alla? | 21. september 2019

Raðað í hópa eftir getu

Safnskólar á unglingastigi eru ekki margir á höfuðborgarsvæðinu en Garðaskóli í Garðabæ er einn þeirra. Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla, segist telja safnskóla hafa ýmsa kosti umfram hverfisskóla á unglingastigi. Einkum vegna þess að þar eru mun fleiri nemendur í hverjum árgangi og því auðveldara að bjóða upp á fagkennslu í hverri námsgrein og fjölbreytt úrval valgreina.

Raðað í hópa eftir getu

Skóli fyrir alla? | 21. september 2019

Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla.
Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla. mbl.is/Hari

Safnskólar á unglingastigi eru ekki margir á höfuðborgarsvæðinu en Garðaskóli í Garðabæ er einn þeirra. Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla, segist telja safnskóla hafa ýmsa kosti umfram hverfisskóla á unglingastigi. Einkum vegna þess að þar eru mun fleiri nemendur í hverjum árgangi og því auðveldara að bjóða upp á fagkennslu í hverri námsgrein og fjölbreytt úrval valgreina.

Safnskólar á unglingastigi eru ekki margir á höfuðborgarsvæðinu en Garðaskóli í Garðabæ er einn þeirra. Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri Garðaskóla, segist telja safnskóla hafa ýmsa kosti umfram hverfisskóla á unglingastigi. Einkum vegna þess að þar eru mun fleiri nemendur í hverjum árgangi og því auðveldara að bjóða upp á fagkennslu í hverri námsgrein og fjölbreytt úrval valgreina.

Í Garðaskóla er nemendum líka raðað í misstóra hópa eftir getu þeirra til að takast á við námsefnið. Auka megi kröfur til nemenda á síðustu árum grunnskólans og þar með undirbúa þau betur undir nám í framhaldsskóla. Ekki síst eftir að framhaldsskólinn var styttur með tilheyrandi tilfærslu á námsefni úr framhaldsskólanum í grunnskóla, og samþjöppun á yfirferð framhaldsskólans í þrjú ár í stað fjögurra.  

„Ég er ánægð með að Garðabær hafi alltaf staðið vörð um Garðaskóla en 53 ár eru liðin frá því að skólinn hóf starfsemi. Mörg sveitarfélög hafa lagt safnskóla niður og mér finnst það ekki góð þróun. Ég held að stór sveitarfélög sem það hafa gert eigi að breyta til baka því með safnskólum er hægt að þjóna og einbeita sér betur að málefnum unglingsins sem þarf á sterkum fagkennurum að halda þar sem hann er kominn lengra inn á viðkomandi fræðisvið en á yngri skólastigum og á að njóta þess með sterkari fagmönnum á afmörkuðum sviðum. Við sjáum það í samræmdum könnunarprófum og eins í PISA-könnunum að stóru safnskólarnir eru að skila mjög sterkum nemendum og árangur þeirra með því besta sem gerist hér á landi,” segir Brynhildur.

Yfir 40% nemenda í Garðaskóla útskrifast með A í grunnskólaeinkunn …
Yfir 40% nemenda í Garðaskóla útskrifast með A í grunnskólaeinkunn í stærðfræði, þ.e. framúrskarandi árangur. mbl.is/Hari

Nemendur Garðaskóla koma úr öllum hverfum bæjarins auk þess sem 5-7% nemenda eru búsett í öðrum sveitarfélögum. Rúmlega 500 nemendur á aldrinum 13-16 ára stunda þar nám í 8.-10. bekk í vetur og eru 150 til 180 nemendur í hverjum árgangi. Eitt af því sem margir hafa lagt áherslu á er að börn þurfi ekki að fara langt að heiman til að sækja skóla og mikilvægt sé að börn séu í sama skóla, helst með sömu bekkjarfélögunum, allan grunnskólann. Foreldrar barna sem hafa stundað nám í grunnskólum erlendis sem blaðamaður hefur rætt við telja aftur á móti að of mikil áhersla sé lögð á það í íslensku skólakerfi. Ekkert sé hugsað út í þá nemendur sem lokast inni í bekk sem þeir eiga ekki samleið með. Ekki síst börn sem verða fyrir einelti eða eiga erfitt með samskipti við umsjónarkennara. Of mikið sé gert úr því að fara á milli hverfa, jafnvel hverfa innan sömu bæjarhluta. Meðal þess sem nauðsynlegt er fyrir börn að læra er að takast á við nýjar aðstæður í lífinu og þroska þau félagslega. Það sé ekki síst gert með því að kynnast nýju fólki.

Að sögn Brynhildar hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir nemendur Garðaskóla að fara á milli hverfa. Þegar nemendur koma inn í skólann í áttunda bekk fylgja þeim yfirleitt upplýsingar úr fyrri skóla þannig að fátt á að koma á óvart.

„Við reynum að láta þessar upplýsingar ekki hafa of mikil áhrif á okkur og brjótum upp alls konar hluti, svo sem hópa. Nemendur í 8. bekk eru í bekkjakerfi sem styður við þá félagslega á meðan þeir eru að laga sig að vinnubrögðum og skólabrag Garðaskóla. Áhersla er lögð á að nemendur fái gott svigrúm sitt fyrsta ár í skólanum til að aðlagast vinnubrögðum og samskiptareglum skólans. Bekkirnir eru blandaðir en reynt er að hafa svipaðan nemendafjölda í öllum deildunum. Stuðningur við nám og hegðun fer að mestu leyti fram inni í bekkjardeildum og í 8. bekk getuskiptum við bara í stærðfræði,” segir Brynhildur. Þar vísar hún til þess að nemendum er skipt upp í námshópa eftir getu í Garðaskóla.

Gert til að nálgast betur þarfir hvers og eins

„Við teljumst ekki skóli án aðgreiningar því við getuskiptum nemendum í kjarnagreinum. Við gerum það til að geta nálgast betur þarfir hvers og eins. Röðun nemenda í ferðir er alltaf unnin í samráði við nemendur sjálfa og foreldra þeirra. Það er val nemenda að fara í hægferðir þar sem þeir fá meiri tíma með kennara og stuðning til að ná hæfniviðmiðum aðalnámskrár,” segir Brynhildur og að hennar sögn er mikill meirihluti nemenda og foreldra ánægður með það. Helst hefur verið óánægja með þetta fyrirkomulag hjá þeim sem eru í mörgum hægferðum. Telja foreldrar þeirra barna að þau fái ekki sömu tækifæri og aðrir. Vísar hún þar til þess að oft eru þetta sömu krakkarnir og einhverjir með mikla hegðunarerfiðleika. Þessir hópar eru yfirleitt mjög litlir, 10 að hámarki, og vont þegar nemendur festast í þessum litla hópi og eiga erfitt með að komast út úr þessu mynstri.

„Til þess að bregðast við þessu erum við að fækka hægferðum. Taka út hægferðir í ákveðnum fögum sem voru áður. Við teljum að það sé auðvelt að fylgja eftir litlum hópi innan miðferðarinnar enda þekkjum við nemendur okkar vel og getum fylgst með hverjum og einum,” segir Brynhildur.

Röðun nemenda í ferðir er alltaf unnin í samráði við …
Röðun nemenda í ferðir er alltaf unnin í samráði við nemendur sjálfa og foreldra þeirra. mbl.is//Hari

Í grein sem Jórunn Tómasdóttir kennari skrifaði á vef Víkurfrétta fyrir nokkru færir hún rök fyrir getuskiptingu í 9. og 10. bekk.  Jórunn segist í greininni blása á þau rök sem hafi verið hjá skólafólki undanfarna áratugi að getuskiptingin sé slæm fyrir sjálfsmynd nemenda.

„Seinfær nemandi veit að hann er seinfær hvar í hópi sem hann stendur og finnur ekki hvað síst til vanmáttar síns í hópi getumeiri nemenda. Í hópi jafningja hefur hann tækifæri til að vera góður, jafnvel bestur.

Getumestu, áhugasömustu og vinnusömustu nemendurnir fengju loks að glíma við verðug, ögrandi verkefni. Þeir þyrftu að leggja sig fram og tileinka sér skipulögð vinnubrögð til að ná árangri. Þeir þyrftu ekki lengur að fara með það sem mannsmorð að þeir hefðu metnað til að standa sig vel í skólanum. Þeir þyrftu ekki lengur að liggja undir ámæli fyrir áhuga og metnað í náminu.

Vinnufælnu, áhugalausu nemendurnir fengju aðhald, athygli og uppörvun til að sýna hvað í þeim býr í reynd og myndu eflast mjög í náminu. Sjálfsmyndin myndi styrkjast og þeim yrði það leikur að læra. Viðhorf þeirra til skólans og námsins myndi örugglega verða jákvæðara. - Þeir nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða fengju alla þá aðstoð sem þeir þyrftu á að halda og myndu örugglega njóta sín betur í skólaumhverfinu,” segir í grein Jórunnar á sínum tíma.

Löng og alvarleg saga getuskiptingar

Brynhildur segist vel skilja að getuskipting sé ekki mjög vinsæl í umræðunni og það skýrist meðal annars af langri og alvarlegri sögu í skólum landsins þar sem afleiðingar getuskiptingar voru stimplun og félagsleg mismunum.

„Ástæðan fyrir því að við hreykjum okkur af getuskiptingu hér í Garðaskóla er sú að hún er ekki fest í bekki. Við teljum það grundvallaratriði. Nemandi getur verið í hægferð í stærðfræði en flugferð í ensku og sannast sagna er það algengt munstur. Við erum með stundatöflur í anda áfangakerfis og breytum þeim ef þess þarf. Þannig verður til einstaklingsmiðað nám fyrir hvern og einn nemanda. Þeir sem þurfa á stuðningi að halda fá hann og þeir sem vilja fara hraðar gera það. Við getum tekið sem dæmi nemanda sem hefur átt erfitt með að læra að lesa og stærðfræði liggur kannski ekki fyrir viðkomandi. Þetta þýðir að honum hefur gengið illa í skóla og átt erfitt uppdráttar fyrstu sjö ár skólagöngunnar og það er svo sannarlega langur tími fyrir barn. Með því að skipta upp eftir getu er hægt að styðja miklu betur við hvern og einn að ná sínum markmiðum. Það er grundvallaratriði í getuskiptingu að nemendur festist ekki félagslega. Að þeir festist ekki í hópi með erfiðum nemendum og að þess sé gætt að öflugir kennarar sinni þeim sem þurfa á mestri aðstoð að halda,” segir Brynhildur.

Að hennar sögn er það einkennandi fyrir sterkustu kennarana og öflugustu að þeir eru að kenna ólíkum hópum. Oft bæði flugferð og hægferð. Það sem einkennir góða kennara er að þeir þekkja sína námsskrá vel og eru vel heima í þeim verkfærum og tækjum sem í boði eru. „Til að mynda ef það kemur nemandi í hraðferð í dönsku í níunda bekk en síðan kemur í ljós að það liggur ekki fyrir honum þá er góður kennari ekki í vandræðum við að finna viðeigandi verkefni fyrir þennan nemanda svo hann sýni framfarir í námi.”

Hópakerfið í 9. og 10. bekk er byggt upp á svipaðan hátt og áfangakerfi fjölbrautaskóla og hver nemandi fær eigin stundaskrá. Í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði er skipt upp í mismunandi námshraða. Farið er í sömu námsþætti en námsgögn geta verið mismunandi eftir ferðum og í hraðferðum er farið yfir talsvert meira námsefni en í hægferðum. Teymi fagkennara raðar nemendum í ferðir í hverri grein. Miðað er við það námsmat sem liggur fyrir hverju sinni og röðunin er endurskoðuð reglulega. Innan hverrar greinar eru sett ákveðin viðmið fyrir röðuninni. Í grófum dráttum má lýsa ferðunum á eftirfarandi hátt:

Hraðferðir miðast við nemendur sem hafa náð mjög góðum tökum á þeirri hæfni sem stefnt er að í árganginum. Hóparnir eru fjölmennir og gerð krafa um sjálfstæð vinnubrögð. Hraðferð/flugferð mjög stórir hópar – allt upp í 33-36 nemendur í hóp. En krafan er sú að ef þú ætlar að fara þessa leið þá verður þú að leggja þig gríðarlega fram í náminu og sýna sjálfstæð vinnubrögð. Snýst um að leiða nemendur áfram.. Nemendur í þessum hópum hafa nóg að gera og eru ánægðir.

Hraðferðir skiptast í:

  • Flugferðir í 9. bekk miðast við duglega og afkastamikla nemendur sem geta farið hraðar yfir og sótt svo nám í svonefndum fjölbrautaáföngum í 10. bekk. Í flugferðum er farið yfir viðfangsefni 9. og 10. bekkjar í 9. bekk.
  • Fjölbrautaáfangar í 10. bekk samsvara áföngum á öðru þrepi framhaldsskóla. Nemendur sem hafa lokið flugferðum í 9. bekk geta tekið fjölbrautaáfanga í ensku, íslensku, og stærðfræði. Nemendur sem ljúka þessum áföngum með tiltekinni lágmarkseinkunn geta fengið nám sitt metið til eininga við Fjölbrautaskólann í Garðabæ (FG) og jafnvel fleiri skóla. Nemendum í ensku, íslensku og stærðfræði stendur til boða að taka lokapróf í áföngunum í FG og fá þá vottun framhaldsskóla fyrir að hafa lokið áfanganum. Vilji nemendur taka framhaldsskólaáfanga í fleiri greinum er sá möguleiki einnig fyrir hendi að stunda fjarnám við framhaldsskóla. 

Miðferðir miðast við nemendur sem hafa náð nokkuð góðum tökum á þeirri hæfni sem unnið er að í árganginum. Hóparnir eru skipaðir 15-23 nemendum. 

Hægferðir miðast við nemendur sem hafa ekki náð góðum tökum á þeirri hæfni sem stefnt er að í árgangi viðkomandi. Farið er hægar yfir og nemendur fá einstaklingsmiðaðri stuðning við nám sitt. Hóparnir eru fámennir og oft kenndir af teymi fag- og sérkennara og þroskaþjálfa. 

Stærðfræðikennslan einstaklingsmiðuð

„Kennurum fannst 40 mínútur of knappur tími og 80 mínútur …
„Kennurum fannst 40 mínútur of knappur tími og 80 mínútur allt of langt,“ segir Brynhildur. mbl.is//Hari

„Þrátt fyrir að getuskipta erum við íslenskur grunnskóli og ber skylda til lögum samkvæmt að einstaklingsmiða. Að passa að allir séu í námi við hæfi. Hvernig það er gert er alltaf áskorun. Ég tel mig vita að okkur í Garðaskóla gengur vel miðað við það samtal sem við eigum við nemendur okkar og foreldra þeirra. Við fréttum hvernig okkar nemendum vegnar eftir að þeir ljúka námi við Garðaskóla og eins hvað nemendur sem við fáum til okkar úr öðrum skólum segja um starfið hér. Við náum að kenna og þjónusta mjög marga nemendur mjög vel og ég tel að við höfum það fram yfir marga skóla á Íslandi. Stærðfræðin er mjög skýrt dæmi enda oft auðvelt að meta hana. Yfir 40% nemenda hjá okkur útskrifast með A í grunnskólaeinkunn í stærðfræði, þ.e. framúrskarandi árangur og umfram það sem gerð er krafa um í lok grunnskóla. Þessum árangri er náð með mjög skipulögðum vinnubrögðum og leiðbeinandi námsmati sem lagt er til grundvallar allri vinnu með nemendum. Ég hef líka grun um að flóknari hæfniviðmið séu tekin inn í vinnu stærðfræðideildarinnar í Garðaskóla heldur en í mörgum öðrum skólum.

Stærðfræðinámsskráin hjá okkur er mjög efnismikil og keyrð áfram á mjög skipulagðan hátt. Hún er einstaklingsmiðuð og með þessu kerfi höfum við séð miklar framfarir hjá krökkum sem hafa verið að basla við stærðfræðina fyrstu sjö árin á skólagöngunni. Basla kannski hjá okkur í áttunda bekk líka en komast á skrið eftir það í skjóli getuskiptingarinnar,” segir Brynhildur.

Enginn einn kennari hefur yfirsýn yfir allt og hvað hentar …
Enginn einn kennari hefur yfirsýn yfir allt og hvað hentar hverjum og einum. mbl.is/Hari

Vandinn er stundum lesblinda sem aldrei var skimað fyrir

Ekki er óalgengt að lesblinda komi í ljós á unglingastigi og þegar blaðamaður spyr hvers vegna það komi ekki í ljós fyrr segir Brynhildur það oft skýrast af því að allt hafi gengið vel þangað til í níunda bekk þegar kröfurnar aukast og námsefnið eykst.

„Stundum kemur í ljós að vandinn er lesblinda sem aldrei hefur verið skimað fyrir. Duglegu börnin, oft stelpur, hafa náð að bjarga sér allt þangað til með því að sitja við og sýna ótrúlega þrautseigju. Gera allt sem þeim er sagt að gera og taka kannski fimm sinnum lengri tíma í það en hin börnin. Það er hægt þegar þú ert yngri en þegar bækurnar eru orðnar vel á annað hundrað blaðsíður er það ekki hægt,“ segir Brynhildur.  

Brynhildur er mjög stolt af verkefni sem tveir starfsmenn Garðaskóla hafa þróað fyrir lesblind börn sem hentar einnig vel fyrir þá sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða. Hjá skólanum er búið að byggja upp gagnabanka og ráðgjöf um rafræn hjálpartæki og áhersla lögð á að kynna fyrir foreldrum og börnum þjónustuna sem er í boði. Þau fá aðstoð af ýmsu tagi en innan Garðaskóla starfar þverfaglegt teymi sem grípur inn ef þörf er á frekari aðstoð. 

Kennsla hefst í Garðaskóla klukkan 8.10 á morgnana og segir Brynhildur að skólanefnd Garðabæjar hafi rætt á fundum sínum hvenær skólastarf ætti að hefjast vegna mikillar umræðu um svefnvenjur barna. Hún segir að sú leið sem einhverjir skólar hafi farið, það er að seinka skóla til 8.30 sé sýndaraðgerð og breyti líklega litlu.

„Það væri munur fyrir unglinginn ef skólinn byrjaði klukkan 10 á morgnana en það hefur ekki komið til alvarlegrar umræðu hér því það hefði áhrif á allt tómstundastarf, íþróttir, tónlist og aðrar frístundir. Við höfum áhyggjur af því að ef skólabyrjun seinki verði að æfingarnar færðar yfir á á morgnana og hver er þá tilgangurinn því um það bil 80% nemenda í Garðaskóla æfa hjá Stjörnunni. Íþróttakennsla skólans fer að miklu leyti fram í sama húsnæði og Stjarnan er með æfingar í og það er mikið púsluspil að koma öllum tímum fyrir.

Staðan er sú að við erum í samfélagi þar sem foreldrar fara í vinnu og okkur hefur fundist skynsamlegra að foreldrar taki þátt í því með okkur að börn fari fyrr að sofa. Þegar við höfum rætt við nemendur um hvenær eigi að hefja skólastarfið á morgnana er helmingur fylgjandi því að byrja seinna en aðrir vilja mæta snemma og klára snemma.“

Kennslustundin er 55 mínútur  í Garðaskóla - ekki 40 mínútur líkt og hefð er fyrir. Brynhildur segir að kennslustundin hafi verið lengd fyrir nokkrum árum og í fyrstu hafi þau gert tilraun með 60 mínútur en ákveðið að taka 5 mínútur af hverjum tíma dagsins og safnað þeim saman í 20 mínútna yndislestur á hverjum degi. Ákvörðunin um að lengja kennslustundirnar hafi verið tekin í sameiningu. „Kennurum fannst 40 mínútur of knappur tími og 80 mínútur allt of langt. Þetta þykir hafa gefið góða raun og kennarar telja tímann nýtast betur. Aftur á móti eru tímar í sérkennslu oft styttri eða 30-40 mínútur,“ segir Brynhildur.

Íslenskir kennarar kalla eftir meiri þjálfun í kennslu fjöltyngdra nemenda og nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn. Hlutfall skóla með fjölbreytta nemendahópa er svipað hér og á hinum löndunum á Norðurlöndum, en hérlendis telja kennarar og skólastjórar meiri þörf á slíkri þjálfun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í TALIS, alþjóðlegri rannsókn þar sem skoðuð eru viðhorf kennara og skólastjórnenda til starfa sinna en hún er framkvæmd reglulega á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). 

Það er oft einkennandi fyrir sterkustu kennarana og öflugustu að …
Það er oft einkennandi fyrir sterkustu kennarana og öflugustu að þeir eru að kenna ólíkum hópum. Oft bæði flugferð og hægferð. mbl.is/Hari

Félagsleg einsleitni vandamál

Afar fáir nemendur Garðaskóla eru með íslensku sem annað tungumál og segir Brynhildur félagslega einsleitni vera vandamál hjá skólanum. „Nemendasamfélagið er mjög einsleitt og við lokumst inni í þröngri lífsreynslu og hugsunarhætti ef fjölbreytnin er lítil sem engin. Við höfum lagt áherslu á að taka vel á nemendum sem eru með annað tungumál en þau eru bara sárafá. Síðan eru hér nemendur sem eiga íslenska foreldra en hafa búið lengi erlendis og hafa litla þjálfun í íslensku. Við erum með íslenskukennara sem er sérhæfður í að kenna börnum með annað tungumál. Staða þeirra getur verið flókin því þrátt fyrir að vera kannski komin lengra í ákveðnum námsgreinum vantar íslenskuna sem er lykill að svo mörgu. Við verðum að gæta vel þessa hóps því vanhæfni þeirra í íslensku getur dregið niður hæfni þeirra og námsmat í öðrum greinum þar sem þau hafa ekki þann orðaforða í íslensku sem þarf til við verkefnavinnu í öðrum námsgreinum,“ segir Brynhildur.

Spurð út í skóla án aðgreiningar og hvernig hugtakið horfir fyrir skólastjóra í safnskóla á unglingastigi segir Brynhildur að við verðum að viðurkenna að enginn einn kennari hefur yfirsýn yfir allt og hvað hentar hverjum og einum.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

„Við verðum að horfa  heiðarlega á skóla án aðgreiningar og fyrir hvern hann er. Til hvers ætlumst við af öllum kennurum? Er raunhæft gera þá kröfu til allra kennara að þeir geti kennt öllum einstaklingum í blönduðum og oft mjög stórum hópum? Það er ekki hægt að ætlast til þess að hver og einn kennari geti leyst allar sérþarfir og hvað þá kennarar sem eru nýútskrifaðir. Það þarf að skoða miklu betur hvort við gerum raunhæfar kröfur til kennara og styðjum við þá til að geta staðið undir þeim.

Það þarf m.a. að horfa til kennaranámsins. Í Garðaskóla eru nokkrir ungir kennarar sem hafa stundum lýst þeirri upplifun sinni að eftir fimm ára háskólanám hafa þeir ekki öðlast færni og reynslu til þess að takast á við einstaklingsmiðað nám. Það er umhugsunarvert að kennaranemar upplifi það að sú kennslufræði sem þeir hafa lært nýtist þeim ekki til að setja hana í samhengi við einstaklingsmiðað nám sem er hryggjarstykki í námskránni,“ segir Brynhildur. Hún er ekki ein á þessari skoðun því fjölmargir kennarar og skólastjórnendur töluðu um þetta í samtölum við blaðamann við vinnslu þessara greina um grunnskólann. 

Til þess að takast á við þetta býðst nemendum á lokaári í meistaranámi til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Í starfsnámi kennaranema starfa þeir við hlið reyndra kennara yfir heilt skólaár. 

Jákvæð þróun á umræðu um skólamál

Brynhildur segir jákvætt hvernig umræðan um skólamál hefur verið að þróast hér á landi. Miklu jákvæðari og uppbyggilegri en áður sem er af hinu góða. Eitt af því sem hefur verið nefnt er starf kennarans, hversu heildrænt það sé og hversu mikið grundvallaratriði það sé að kennarinn hafi víðtæk tengsl við nemendur sína.

Brynhildur segir að eitt af því sem stjórnendur Garðaskóla hafi lagt áherslu á sé að létta álagið á umsjónarkennurum og færa stóran hluta af samskiptum við foreldra á skrifstofu skólans. En þetta hafi valdið því að kennarar misstu að hluta beina sambandið við foreldra. Umsjónarkennarar eru kannski ekki alveg með á nótunum hvaða skýring er á því hvers vegna barn er ekki í skólanum. Því samtalið, sem tók tíma frá öðrum verkefnum (kennslu), er komið annað.

Gallinn við þetta öfluga stuðningsnet okkar er að hlutverk umsjónarkennarans …
Gallinn við þetta öfluga stuðningsnet okkar er að hlutverk umsjónarkennarans minnkar og það hefur sýnt sig að hann dettur út úr samskiptum við þá nemendur sem þurfa mesta sérþjónustu. mbl.is/Hari

Agi og bekkjarstjórnun eru stærra viðfangsefni í íslensku skólakerfi en gerist á hinum löndunum á Norðurlöndum, að því er fram kemur í TALIS-rannsókninni sem kynnt var í sumar. 

Að sögn Brynhildar eru agavandamál í Garðaskóla oftast til komin vegna námslegrar stöðu. „Agavandamál kemur upp ef námið er ekki við hæfi nemandans. Hvað gerum við þá? við stillum því upp að í fyrsta lagi verði kennari að skoða hvernig hann getur mætt þörfum nemandans. Ef hegðun nemanda er þannig að hann sinnir ekki námi sínu, truflar aðra nemendur og kennslustundina þá stígum við inn með skilaboð um að það sé óásættanlegt að ekki sé vinnufriður eða að tími kennarans fari svo mikið í samtal við einn nemanda að aðrir í hópnum fái hvorki leiðsögn né kennslu. Þá erum við með ferli þar sem kennari vísar nemandanum til annarra starfsmanna.

Það getur verið námsráðgjafi, deildarstjóri, skólastjóri. Við réðum félagsráðgjafa til starfa við Garðaskóla í vor til að halda utan um skjól fyrir nemendur sem af margvíslegum ástæðum ná ekki að einbeita sér að námi í hópum með öðrum nemendum. Félagsráðgjafinn vinnur náið með kennurum, bæði inni í kennslustundum og í sérstofu. Félagsráðgjafinn vinnur með nemandanum til að byggja hann upp virkari inn í kennslustundir með kennaranum. Við viljum að kennarar þurfi ekki að upplifa að þeir sitji uppi með stjórnleysi eða vandamál sem þeir geti ekki leyst þar sem þeir þurfa að sinna öllum bekknum.

Í okkar skóla starfar stórt teymi þar sem skólinn er stór og við höfum fjárhagslegt svigrúm til að hliðra til sem minni skólar hafa kannski ekki. Ég hef gætt þess vel í mínu starfi að hér sé haldin nákvæm skrá yfir allt starf innan skólans. Með því er hægt að koma í veg fyrir að mál detti út af borðinu og týnist. Heldur sé tekið skipulega á þeim málum sem koma upp og þeim fylgt eftir. Við ætlum einnig að leggja aukna áherslu á að það sé ábyrgðaraðili í hverju máli. Ábyrgð sem er skipt á milli stjórnenda og námsráðgjafa. Okkur finnst mikilvægt að í starfsmannahópnum séu líka sérfræðingar aðrir en kennarar, þroskaþjálfar og félagsráðgjafi starfa í skólanum. Þessir fagmenn eru afar jákvæð og góð viðbót við starfsfólk skólans. Ekki síst vegna þess að þeir hugsa aðeins öðruvísi en kennarar. Nálgast hlutina frá öðru sjónarhorni sem er oft nóg til að sjá nýja og betri leið að lausn mála.

Gallinn við þetta öfluga stuðningsnet okkar er að hlutverk umsjónarkennarans minnkar og það hefur sýnt sig að hann dettur út úr samskiptum við þá nemendur sem þurfa mesta sérþjónustu. Stundum er það orðið þannig að viðkomandi nemandi er sáralítið inni í tímum heldur er aðallega hjá námsráðgjafa eða deildarstjórum. Þegar svo er fer að vanta námsframvinduvinkilinn. En við erum að reyna að hugsa þetta upp á nýtt enda lykilinn að farsælu skólastarfi að vera opinn fyrir breytingum og að gera betur,“ segir Brynhildur Sigurðardóttir og vísar til orða Andreas Schleicher, yfirmann menntamála hjá OECD, sem segir að gæði náms geti aldrei orðið meiri en gæði kennara og kennslunnar. 

mbl.is