„Ég hef bara því miður ekki tíma“

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

„Ég hef bara því miður ekki tíma“

„Ég er kennari sem fer heim með nagandi samviskubit nær hvern einasta dag því ég veit að það eru nemendur hjá mér sem þurfa meiri athygli, meiri tíma, erfiðara eða auðveldara námsefni, vantar einhvern til að tala við eða eru með hugmyndir sem þau langar að prófa. En ég hef bara því miður ekki tíma, verkfæri eða stuðning til að uppfylla þessar kröfur. Og ég lofa ykkur því, að ég er ekki ein.“ Þetta skrifar Kristín Ýr Lyngdal, kennari við Fellaskóla, á vef Skólavörðunnar, vefrits um skóla- og menntamál fyrr á árinu.

„Ég hef bara því miður ekki tíma“

Skóli fyrir alla? | 14. september 2019

Anna María Gunn­ars­dótt­ir, vara­formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands
Anna María Gunn­ars­dótt­ir, vara­formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands mbl.is/Hari

„Ég er kennari sem fer heim með nagandi samviskubit nær hvern einasta dag því ég veit að það eru nemendur hjá mér sem þurfa meiri athygli, meiri tíma, erfiðara eða auðveldara námsefni, vantar einhvern til að tala við eða eru með hugmyndir sem þau langar að prófa. En ég hef bara því miður ekki tíma, verkfæri eða stuðning til að uppfylla þessar kröfur. Og ég lofa ykkur því, að ég er ekki ein.“ Þetta skrifar Kristín Ýr Lyngdal, kennari við Fellaskóla, á vef Skólavörðunnar, vefrits um skóla- og menntamál fyrr á árinu.

„Ég er kennari sem fer heim með nagandi samviskubit nær hvern einasta dag því ég veit að það eru nemendur hjá mér sem þurfa meiri athygli, meiri tíma, erfiðara eða auðveldara námsefni, vantar einhvern til að tala við eða eru með hugmyndir sem þau langar að prófa. En ég hef bara því miður ekki tíma, verkfæri eða stuðning til að uppfylla þessar kröfur. Og ég lofa ykkur því, að ég er ekki ein.“ Þetta skrifar Kristín Ýr Lyngdal, kennari við Fellaskóla, á vef Skólavörðunnar, vefrits um skóla- og menntamál fyrr á árinu.

Þetta er upplifun margra kennara sem segjast vera undir miklu álagi í starfi, starfi sem þeir elska en er svo krefjandi á stundum að þeir efast stundum um hvort það sé þess virði. Ekki síst þegar foreldrar gagnrýna skólann fyrir að sinna ekki börnum þeirra nægjanlega. Jafnframt tala foreldrar barna sem hafa verið hluta skólagöngunnar í útlendum skólum um mikið agaleysi og að nemendur hér komist upp með að svara kennurum fullum hálsi og langan tíma taki að ná ró í bekknum í upphafi hvers tíma.

„Menntun fyrir alla er í mínum huga eitthvað sem ætti að vera sjálfsagður hlutur í íslensku skólakerfi. Ég skil menntun fyrir alla á þann hátt að allir sem búa á Íslandi, sama hver bakgrunnurinn er, eigi rétt á menntun við sitt hæfi.

Hvort sem þú ert einhverfur alíslenskur strákur, lesblind pólsk stelpa, bráðgreindur Víetnami eða ofvirkur strákur sem elst upp á sveitabæ hjá ömmu og afa á Vopnafirði. Menntun við hæfi þýðir þá að hvert barn fái námsefni sem hentar því, farið sé yfir námsefnið á þeim hraða sem hentar því, það sé hvatt áfram á þann hátt sem hentar því, það fái þann sveigjanleika, þá umhyggju og þá þolinmæði sem hentar því til þess að það nái árangri,“ segir Kristín Ýr ennfremur í grein sinni. 

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Vantar virðingu fyrir skólastarfinu

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, tekur undir með Kristínu Ýri og segir að það þyrfti að vera meiri stuðningur við almenna kennara. Oft er biðin eftir stuðningi fyrir nemendur sem þurfa á aukinni aðstoð að halda of löng. 

„Menntun er mannréttindi og skólinn á að vera fyrir alla nemendur og allir eiga rétt á góðri menntun, við hæfi hvers og eins, óháð efnahag, aðstæðum og uppruna. Stefna Kennarasambands Íslands er að að tryggja góða menntun og skóla í grennd við heimili, aðstöðu og stuðning, nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla og í tónlistarskólum. Þar að auki skulu stjórnvöld tryggja skólum fjárveitingar til að skipuleggja skólastarf í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla nemendur,“ segir Anna María.

Hún segir að svo virðist sem íslenskt samfélag beri ekki mikla virðingu fyrir skólastarfinu og stundum jafnvel ekki kennararnir sjálfir en samt sem áður líður flestum börnum vel í skólanum. Á sama tíma er rætt um agaleysi í íslenskum skólum og að álagið sé ekki mikið á nemendur.

Foreldrar hika ekki við að taka börn sín úr skóla í lengri eða skemmri tíma til þess að fara í frí til útlanda og síðan er jafnvel talað um að setja í lög bann við notkun á símum í skólum. Slíkt eigi að vera á ábyrgð foreldra og skóla að komast að samkomulagi um slíka hluti án þess að til breytinga á lögum þurfi að koma til,“ segir Anna María.

„Við mættum jafnvel huga að því að endurmeta stöðu nemandans sem námsmanns og vonandi um leið auka virðingu við starf kennara. Við gerum það ekki með einkavæðingu eða markaðsvæðingu menntakerfisins. Samkeppni í velferðarþjónustu veikir jöfnuð í menntun, jafnræði til náms og minnkar opinber áhrif á menntakerfið í gegnum lýðræðislega kjörnar stofnanir,“ segir hún. 

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands.
Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands. mbl.is//Hari

Stefndi í alvarlegan kennaraskort

Anna María segir að stefna Kennarasambands Íslands sé í samræmi við stefnu annarra norrænna kennarasamtaka þar sem bókstaflega er varað við markaðsvæðingu menntakerfisins. En til þess þarf að tryggja kennurum verkfæri til að sinna hlutverki sínu og í skólastefnu KÍ kemur fram að kennarar miðli öðrum af sérfræðiþekkingu sinni bæði innan skólans, til foreldra og samfélagsins. Skapa þurfi aðstæður sem gera kennurum kleift að starfa saman þvert á skóla, skólastig og skólagerðir til að auka samfellu í námi, miðla upplýsingum um nám, kennsluhætti og skólastarf.

„Samstarf og teymisvinna er mikilvægur hluti af kennarastarfinu og nauðsynlegt fyrir þróun skólastarfsins. Tryggja þarf kennurum góðar aðstæður í starfi til að vinna saman að skólaþróun og veita gagnkvæma jafningjaráðgjöf. Kennarar taki virkan þátt í ákvörðunum um nám, kennslu og skólastarf, nýti rannsóknir og nýjungar í námi og kennslu og hafi frumkvæði að þróunar- og nýbreytnistarfi,“ segir ennfremur í skólastefnu KÍ til ársins 2023.

Anna María fagnar þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa farið í að undanförnu til þess að fjölga kennurum og segir að það hefði ekki mátt gerast mikið seinna því ef ekkert hefði verið að gert hefði vantað 2.300 kennara til starfa árið 2030.

„Við þurfum ungt fólk í kennslu og ekki nógu gott ef flestir þeirra sem fara í kennaranám eru um fertugt. Ég er mjög ánægð með viðhorf Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem þreytist ekki að tala um mikilvægi kennara og að það sé ekki nóg að allir vilji að börnin í næsta húsi verði kennarar en að þeirra börn verði hagfræðingar,” segir Anna María.

„Við þurfum ungt fólk í kennslu og ekki nógu gott …
„Við þurfum ungt fólk í kennslu og ekki nógu gott ef flestir þeirra sem fara í kennaranám eru um fertugt," segir varaformaður Kennarasambandsins. mbl.is//Hari

Skólinn á að vera besta jöfnunartækifærið

Spurð út í stöðu barna með annað tungumál á heimili segir Anna María að skólinn eigi að vera besta jöfnunartækifærið fyrir erlenda nemendur og horfa eigi til þess að auka möguleika þeirra og um leið farsæld heildarinnar.

„Í Finnlandi er það sameiginleg stefna samfélagsins að það þurfi á nýjum Finnum að halda og það sé best gert með því að hlúa vel að börnum í skólakerfinu. Ísland er fjölmenningarsamfélag og samskipti eiga að einkennast af gagnkvæmri virðingu. Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að hjálpa nemendum með annað móðurmál en íslensku að skapa sér líf og góða framtíð í samfélaginu.

Tryggja þarf skólum og kennurum sem bestar aðstæður til að vinna að þessu brýna verkefni. Til þess þarf að tryggja skólum sérfræðiráðgjöf og fjármuni vegna kennslu og stuðnings við nemendur með annað móðurmál en íslensku og samstarfs við foreldra. Stjórnvöld sjái til þess að erlendir nemendur hafi aðgang að móðurmálskennslu og tryggi að móðurmálsnám þeirra falli að íslenskum námskrám og skólastarfi,“ segir Anna María og bætir því að nauðsynlegt sé að kennarar fái tækifæri til starfsþróunar. Til að mynda hafi þjóðfélagið breyst hratt, bæði hafi erlendum nemendum fjölgað og tækninýjungar litið dagsins ljós.

Til þess að kennarar geti nýtt tæknina til góðs þurfa þeir að hafa þekkingu til þess. Starfsþróun mætir of oft afgangi í störfum kennara. Það er ekki boðlegt og skapa þarf svigrúm svo kennarar geti aukið við þekkingu sína og færni,“ segir Anna María.

Ísland er fjölmenningarsamfélag og samskipti eiga að einkennast af gagnkvæmri …
Ísland er fjölmenningarsamfélag og samskipti eiga að einkennast af gagnkvæmri virðingu. mbl.is/Hari

Vekjum athygli á því sem vel er gert

Hún segir að kennarar séu upp til hópa duglegir við að nýta sér tækifæri til starfsþróunar og taki þátt í námskeiðum/málstofum um menntamál. Samkvæmt TALIS könnun Menntamálastofnunar sem kynnt var í sumar töldu yfir 82% kennara á unglingastigi að slík starfsþróun nýttist vel í starfi. Meira en helmingur kennara á unglingastigi hefur tekið þátt í ráðstefnum um menntamál og vettvangsferðum í aðra skóla. Þessir þættir eru allir umtalsvert algengari hér á landi en á Norðurlöndunum og yfirleitt algengari en í OECD og TALIS-löndum almennt.

„Þegar umræðunni er sífellt beint að álagi, slæmum launum og lélegri vinnuaðstöðu er hætta á að skólastarf sé talað niður og í því felst viss hætta. Miklu skiptir að vekja athygli á fagmennsku stéttarinnar. Skólafólk vítt og breitt af landinu sameinar sífellt krafta sína í þágu menntunar barna og unglinga. Íslenskir kennarar eru vel menntaðir og mörg afbragðsgóð verkefni eru í gangi. Vekjum því athygli á því sem vel er gert og tölum fyrir menntun barna og unglinga,“ segir Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands.

Fjölmargir hlýddu á fyrirlestur Gunnlaugs Magnússonar í sumar um skóla …
Fjölmargir hlýddu á fyrirlestur Gunnlaugs Magnússonar í sumar um skóla án aðgreiningar. Þar á meðal kennarar af öllum skólastigum. mbl.is/Hari
mbl.is