Allt í einu komnir í framvarðasveit

Skóli fyrir alla? | 28. febrúar 2021

Allt í einu komnir í framvarðasveit

Upplifun kennara af skólastarfi á Covid-tímum er mismunandi en þeir eru sammála um að fjarnám hafi reynst þeim erfiðast sem standa höllum fæti í skólakerfinu sökum
fötlunar, heimilisaðstæðna og uppruna. Kennarar voru allt í einu komnir í framvarðasveit í íslensku samfélagi þegar farsóttin skall á af fullum þunga. 

Allt í einu komnir í framvarðasveit

Skóli fyrir alla? | 28. febrúar 2021

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir segir mikilvægt að hlusta oftar á hvað …
Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir segir mikilvægt að hlusta oftar á hvað kennarar hafa að segja um skólastarfið þar sem það eru örugglega fáir ef einhverjir sem hafa jafn mikla þekkingu og þeir á því starfi sem þar fer fram. mbl.is/Arnþór Birkisson

Upplifun kennara af skólastarfi á Covid-tímum er mismunandi en þeir eru sammála um að fjarnám hafi reynst þeim erfiðast sem standa höllum fæti í skólakerfinu sökum
fötlunar, heimilisaðstæðna og uppruna. Kennarar voru allt í einu komnir í framvarðasveit í íslensku samfélagi þegar farsóttin skall á af fullum þunga. 

Upplifun kennara af skólastarfi á Covid-tímum er mismunandi en þeir eru sammála um að fjarnám hafi reynst þeim erfiðast sem standa höllum fæti í skólakerfinu sökum
fötlunar, heimilisaðstæðna og uppruna. Kennarar voru allt í einu komnir í framvarðasveit í íslensku samfélagi þegar farsóttin skall á af fullum þunga. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Eiríksínu Eyju Ásgrímsdóttur, bókmenntafræðings og sjálfstætt starfandi rannsakanda, sem hún vinnur að ásamt Kristínu Björnsdóttur, prófessor í fötlunarfræðum og sérkennslu við menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að það hafi verið nemendur sem tilheyrðu þessum jaðarhópum sem mættu síður í skólann vegna þess að þeir voru í verndarsóttkví, bjuggu við þær aðstæður að fá ekki þann stuðning sem þeir þurftu frá fjölskyldum sínum eða höfðu ekki aðgengi að upplýsingum um breytingar á skólahaldi.

Neikvæð áhrif á jaðarsetta hópa

Hlutverk kennara er gríðarlega mikilvægt og um leið nauðsynlegt að …
Hlutverk kennara er gríðarlega mikilvægt og um leið nauðsynlegt að þeirra rödd fái að heyrast þegar rætt er um skólamál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Niðurstöður rannsóknarinnar renna þannig stoðum undir staðhæfingar alþjóðlegra stofnana um að Covid-19 geti haft neikvæð áhrif á möguleika jaðarsettra hópa til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Niðurstöður rannsóknarinnar benda eindregið til þess að afla þurfi frekari upplýsinga frá öðrum aðilum innan skólakerfisins, svo sem nemendum, skólastjórnendum og öðru starfsfólki um störf þeirra og líðan á tímum Covid-19-faraldursins. Mikilvægt er að halda utan um og varðveita þá þekkingu og færni sem skapaðist í þessum aðstæðum innan skólakerfisins en um leið stuðla enn betur að því að tryggja inngildandi skólastarf og jafna möguleika til náms,“ segir í lokaorðum greinar sem þær skrifuðu í Netlu, veftímarit um uppeldi og menntun.

Hafragrautur til bjargar

Eiríksína Eyja segir að eitt af því sem kennararnir töluðu um var hve mikinn mun þeir fundu á nemendum sínum þegar íþrótta- og tómstundastarf lá niðri. Þar sem börnin voru undir minna álagi en annars er. Annað sem var áberandi var ólík staða barna. 

Kennarar lýstu hvernig hafragrautur sem er í boði í sumum skólum bjargaði mörgum börnum og að stundum væri hádegismaturinn eina fasta máltíðin sem þau fengju yfir daginn. Nokkrir kennarar sögðust jafnvel ná í nesti fyrir börnin á kennarastofu eða gefa þeim eigið nesti. Einn kennari sagði: „Og þú kannski veist að síðasta máltíðin var í skólanum í gær.“ Annar kennari benti einnig á þennan aðstöðumun: „Hádegismaturinn ætti að vera frír því hann er stundum eini maturinn sem börn eru að fá, svo þetta jafnrétti og aðstöðumunur, mér finnst ekki nógu mikið gert í því.“

Rannsókn Eiríksínu Eyju og Kristínar er til þriggja ára og í upphafi beindist hún að upplifun kennara af skóla án aðgreiningar. Fljótlega eftir að Eiríksína Eyja byrjaði að taka viðtölin greindist fyrsta Covid-19-smitið á Íslandi og aðstæður kennara breyttust gríðarlega og umræða um faraldurinn varð plássfrek í viðtölunum. 

Þátttakendur rannsóknarinnar voru 14 grunnskólakennarar sem allir störfuðu á miðstigi eða höfðu reynslu af kennslu á miðstigi. Viðtöl voru tekin á tímabilinu febrúar–september 2020. Um eigindlega rannsókn er að ræða sem hefur það markmið að afla upplýsinga um hvernig grunnskólakennarar upplifa og skilja hlutverk sitt í skólakerfi fyrir alla. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þeir kennarar sem tóku þátt í rannsókninni hafi bæði upplifað jákvæð og neikvæð áhrif Covid-19-faraldursins á störf sín og líðan.

Upplifðu frelsi á neyðarstigi

Undanfarið hefur verið töluvert fjallað um vanda stráka í skólakerfinu …
Undanfarið hefur verið töluvert fjallað um vanda stráka í skólakerfinu og segir Eiríksína Eyja að það sé ekki rétt nálgun – að tala um vanda drengja – heldur sé betra að líta á þetta sem vanda okkar allra. mbl.is/Hari

Þeir lýstu mikilli stýringu og eftirliti með skólastarfi sem þeir töldu breytast við neyðarstig almannavarna á þann veg að þeir upplifðu aukið frelsi. Þeir töldu sig njóta meira trausts til að stýra betur með hvaða hætti þeir skipulögðu kennslu og nám. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum afhjúpuðu aðstöðumun milli skóla og heimila hvað tölvutækni varðar.

Um leið og kennarar sáu jákvæðar hliðar á skertu skólastarfi verður ekki horft fram hjá því að ákveðin forréttindahyggja ríkti við neyðarstigið sem hefur hvað mest áhrif á þá nemendur sem standa höllum fæti í skólakerfinu. Á sama tíma jókst samstaða á milli heimila og skóla í faraldrinum og foreldrar áttuðu sig betur á álagi sem kennarar búa við í starfi. Um leið og dró úr takmörkunum snemma í vor fóru kennarar úr því að vera allt í einu í framvarðasveit í að vera núna aftarlega í röðinni þegar kemur að bólusetningum segir Eiríksína Eyja. 

Þrátt fyrir að skólastarf hafi að miklu leyti haldið áfram á grunnskólastiginu í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins hér á landi lá allt tómstunda- og íþróttastarf að mestu leyti niðri. Í greininni sem þær Eiríksína Eyja og Kristín skrifuðu í Netlu segir: „Krakkar eru bara undir svo miklu álagi í dag, það er endalaust eitthvert prógramm“ og vísar kennarinn hér til íþróttaæfinga sem taka við strax að skóla loknum.

„Þetta var dásamlegur tími“

Annar kennari tók í sama streng þegar hann lýsti hvernig hann náði að virkja nemendur sína betur við neyðarstig almannavarna: „Þetta var dásamlegur tími. Þetta var það. Þessi bekkur [sem hann kenndi] er afskaplega námslega slakur og ósjálfstæður og svona hinn dæmigerði bekkur þar sem allir rétta upp hönd og spyrja hvað á að gera. Ekkert frumkvæði og lítil sem engin sköpunargleði. Þau döfnuðu alveg ofboðslega vel á þessum tíma [Covid-19]. Þau fengu tvo til þrjá kennara inn í einu, við vorum með tvær stofur og aldrei fleiri en tíu nemendur inni í einu. Við byrjuðum hvern einasta dag á að lesa í 15 mínútur. Við notuðum Classroom screen [rafrænt kennsluumhverfi] og svo kom vinnulota í öllum fögum og fram að nesti upp úr níu var bara vinnulota og þau réðu hvað þau gerðu.“

Kennararnir voru allir sammála um að uppbrot nemendahópsins við neyðarstig vegna Covid-19 á vorönn 2020 hefði sýnt fram á kosti þess bæði fyrir nemendur og kennara að vinna saman í smærri hópum. Einn kennari sem kenndi eingöngu fyrir hádegi og hafði umsjón með ellefu nemendum sagði: „Ég fékk meiri innsýn í hvern einstakling og ég náði meiri fókus og það var mjög áhugavert.“

Annar kennari sem starfaði í stærri skóla lýsti hvernig bekknum var skipt í tvennt þar sem hvor hópur mætti í tvo tíma í senn og hann kenndi þá sama efnið tvisvar. Hann sagði: „Við vorum með íslensku og stærðfræði og við náðum ótrúlega að halda okkur við efnið […] já ég fann það sjálf að mér fannst svo gott hvað ég gat sinnt hverjum og einum og sýnt öllum athygli. Og mér fannst svo gaman því það voru fleiri en einn nemandi sem höfðu orð á því hvað þetta væri gott.“

Kennararnir sögðu að þessar breytingar á skólastarfinu hefðu verið stressandi til að byrja með en flestir þeirra upplifðu minni hópa og styttri skóladag sem góða tilbreytingu. Einn lýsti því svo: „Svo fannst manni þetta ótrúlega gott tímabil að vissu leyti því við kynntumst öll betur og það voru ákveðin rólegheit í gangi þó það væri stress. Það gekk allt vel í þessum litlu einingum en maður saknaði samt að vera með hinum. Öðruvísi áreiti og sumir bara vildu alltaf vera svona en þetta var alls ekki slæmt.“

Hægt að umbylta skólakerfinu

Allt í einu fóru fjölskyldur út að ganga og spjalla …
Allt í einu fóru fjölskyldur út að ganga og spjalla saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríksína Eyja segir að margt hafi haft hér áhrif. Ekki bara minna álag á börnum heldur einnig á foreldra þar sem þeirra íþrótta- og tómstundastarf féll einnig niður sem og skemmtanir og ferðalög. Allt í einu fóru fjölskyldur út að ganga og spjalla saman. „Covid sýnir okkur líka að það er hægt að umbylta skólakerfinu. Að vera með minni hópa og meira frelsi fyrir kennara. Minni áhersla og umræða um mælingar eins og samræmd könnunarpróf og PISA-rannsóknir. Á sama tíma minnkar samkeppnin og aukin áhersla lögð á teymiskennslu. Eitthvað sem hentar mjög vel,“ segir hún. 

Kennari lýsti hvernig hann upplifði þakklæti frá foreldrum vegna þess að börnin fengju að koma í skólann og þar væri verið að leggja sig fram við að sinna námi þeirra: Þau [foreldrar] voru bara mjög fegin að það skyldi vera eitthvað og börnin væru í einhverju og eitthvað í gangi og að þau héldu einhverri rútínu. Og þau voru dugleg að láta krakkana vinna heima og mér fannst meiri samheldni í gangi heldur en er venjulega. Þau voru mjög dugleg að láta þau gera eitthvað.

Í Covid-19-faraldrinum voru það ekki aðeins tómstundir barnanna sem féllu niður heldur var allt félags- og íþróttastarf lagt af og sundlaugum og líkamsræktarstöðvum lokað, samkomubann við lýði og færri tækifæri til dægrastyttingar utan heimilis.

Einn kennari sagði: „Það vantar meiri tíma [fyrir börnin], við fundum það í Covid að það var meiri ró yfir öllu, meiri nánd og foreldrar voru heima og höfðu loksins tíma fyrir börnin sín.“ Annar kennari tók í sama streng og sagði: „Svo fannst mér fyndið því við vorum með krakka sem fannst þetta [skert skólastarf og samkomubann] alveg frábært […] Mamma og pabbi voru líka svo mikið heima og þau voru að fara í göngutúra.“

Foreldrasamskipti flókin og erfið

Nokkrir af kennurunum upplifðu foreldrasamstarfið flókið og erfitt fyrir tíma Covid-19 og höfðu þrír viðmælendur beðist undan því að taka að sér bekkjarumsjón til að komast hjá samskiptum við foreldra, fundarsetu og utanumhald.

Einn kennari lýsti því svo: „Foreldrasamskipti eru eitt það erfiðasta við starfið. Það getur tekið tíma og á taugarnar að fá einhverja tölvupósta og símtöl frá ósáttum foreldrum.“ Annar kennari lýsti hvernig sumir foreldrar væru með miklar kröfur til skólans og vildu helst fá að stjórna sjálfir skólastarfinu og skipulaginu: „Sumir foreldrar einhvern veginn vilja stjórnast of mikið inni í skólanum og það fer alveg heilmikill tími í það og að svara síma og tölvupóstum og alls konar […] [Þeir vilja stjórna] til dæmis bekkjarskiptingu, hópaskiptingum, rengja ákvarðanir, en mér finnst pínu hjá sumum kennurum að foreldrar eru bara að ryðjast. Það eru ekki góð samskipti þú veist, ekki kurteis og koma oft á tíðum fram með miklu offorsi „barnið mitt á að“ já þau hafa svo mikinn rétt og reglurnar ná ekki yfir börnin þeirra.“ 

Einnig nefndu kennarar að oft væru foreldrar tregir til samstarfs við skólann, bæði hvað varðaði nám barnanna og einnig þegar upp komu vandamál í tengslum við börn þeirra. Kennari sagði: „Já, því miður þá finnst mér foreldrar vera áhugalausari nú en áður.“

Annar kennari tók í sama streng og útskýrði þessa breytingu: Ég sé mikinn mun á foreldrum frá því áður og ég held að við kennarar höfum tekið svo ábyrgðina af foreldrum, mér finnst í den að ábyrgðin hafi verið meiri hjá foreldrum. Svo frá svona 2000 til 2005 þá byrjaði þetta að breytast. Áður pældu foreldrarnir mikið í barninu sínu en núna þarf ég svo rosalega mikið að segja þeim hvað þeir eiga að gera og hvers barnið þarfnast og segja að það sé ekki allt í lagi og það gangi ekki nógu vel. Þrátt fyrir allt þetta upplýsingastreymi inni á Mentor og svo gerir fólk ekkert í þessu, það virðist bara fljóta í burtu og foreldrar taka það ekki til sín.

Kennararnir sáu breytingu á samskiptum við foreldra í Covid-19 faraldrinum og það oftast til batnaðar. Þeir töluðu um að samvinna hefði batnað og samstaða milli foreldra og kennara aukist og orðið sýnilegri.

Covid-19-faraldurinn hafði í för með sér miklar breytingar á skipulagi skólastarfsins og virðist einnig hafa haft áhrif á upplifun kennara af starfinu. Kennararnir lýstu aukinni nánd, samvinnu og meiri samstarfsvilja sín á milli og á milli heimila og skóla. Í Covid-19 fundu þeir sig í nýju hlutverki innan skólakerfisins og samfélagsins.

Flestir fundir eða allir fundir með bæði foreldrum og sérfræðingum féllu niður í Covid-19. Einn kennari orðaði það svo: „Það er svo mikið verið að kroppa í okkar tíma sem ætti að fara í að undirbúa námsefnið, en þeir fara í allt annað, fundi með foreldrum og eitt af því sem ég er svo ánægð með í Covid er að þessir fundir með foreldrum hættu, maður fékk aðeins frí frá því.“

„Vá, ég tek ofan fyrir kennurum“

Kennari lýsti hvernig hann upplifði þakklæti frá foreldrum vegna þess …
Kennari lýsti hvernig hann upplifði þakklæti frá foreldrum vegna þess að börnin fengju að koma í skólann og þar væri verið að leggja sig fram við að sinna námi þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fækkun funda, samkomubann og fjarlægðartakmarkanir innan skólabygginga minnkuðu kröfu um viðveru kennara eftir að kennslu lauk.

Flestir kennararnir töluðu um að þessi viðvera nýttist oft illa til undirbúnings: Ég get alveg sagt það að suma daga er ég ekki tilbúin að eyða dögunum uppi í skóla eftir að kennslu lýkur að fara yfir verkefni. Stundum langar mann að kúpla sig út og vinna heima því stundum er maður þurrausinn eftir vinnudaginn og að ætla að skipuleggja eitthvað massíft það er bara ekki hægt […] Covid hjálpaði, nú megum við vinna heima.

Kennararnir höfðu allir lent í að vinir, vandamenn og almenningur efaðist um vinnuframlag þeirra. Það birtist í þeirri almennu trú eða almannarómi þess efnis að kennarar væru alltaf í fríi eða nemendalausir vegna starfsdaga. Flestir kennararnir upplifðu jákvæðari viðhorf til kennarastéttarinnar í Covid-19, bæði frá foreldrum og almenningi og segir Eiríksína Eyja að þetta sé jákvæð breyting þar sem hún hafi á ferðalögum og langdvölum erlendis fundið fyrir því hversu mikil virðing er borin fyrir kennarastarfinu ólíkt því sem henni finnst vera hérlendis.

„Í Covid-ástandinu sem var í vor, það var alveg ótrúlega magnað hvað það voru ótrúlega margir sem lentu í að fólk sagði bara „Vá, ég tek ofan fyrir kennurum“ því fólk þurfti að hjálpa börnunum sínum að læra og hefur bara ekki þolinmæði í þetta,“ er meðal þess sem kom fram í viðtölum Eiríksínu Eyju við kennarana og fjallað er um í Netlu.

„Mér fannst rosa gaman að heyra eins og Lilja Alfreðs [menntamálaráðherra] er búin að gera í hverri einustu viku, hún talar rosalega vel um kennara og allt í einu vorum við komin í framvarðasveit og við skiptum rosalegu máli og maður bara alveg „já, er það?“. Maður hefur núna ekki alveg fundið það sko í gegnum tíðina og fannst vænt um að fá að heyra það,“ segir einn viðmælenda í rannsókninni. 

Aðrir höfðu áhyggjur af því að þessi skilningur foreldra og samstaða um nám barnanna dvínaði fljótt og fannst mikilvægt að markvisst yrði unnið í að viðhalda þessum viðhorfum. 

Eiríksína Eyja segir að þetta endurspegli bæði viðhorf og virðingarleysi samfélagsins, eða þess sem hún kallar almannaróm, gagnvart kennurum og um leið valdaleysi kennara. Oft sé meira horft á árangur í opinberri umræðu, árangur sem er metinn með samræmdum mælingum á sama tíma og farið sé fram á sveigjanleika þar sem nemendum er mætt á einstaklingsgrundvelli. Ef árangurinn í þessum mælingum, svo sem PISA, er ekki í takt við væntingar eða ákveðnum hópi nemenda líður ekki vel í skólanum er skuldinni fljótt skellt á kennarana og skólakerfið. Hún segir að ef farið væri í sameiginlegt átak um að breyta þessari orðræðu þá myndi draga úr þeim vanda í skólakerfinu sem stöðugt er haldið á lofti.

Ekki vandi stráka heldur samfélagsins alls

Kennararnir í rannsókninni sýndu baráttuhug, sveigjanleika og þolgæði til að …
Kennararnir í rannsókninni sýndu baráttuhug, sveigjanleika og þolgæði til að bregðast við breyttum aðstæðum. mbl.is/Hari

Undanfarið hefur verið töluvert fjallað um vanda stráka í skólakerfinu og segir Eiríksína Eyja að það sé ekki rétt nálgun – að tala um vanda drengja – heldur sé betra að líta á þetta sem vanda okkar allra. „Það er vandi okkar sem foreldra og samfélagsins alls. Þetta er auðvitað vandi skólanna því þeir geta ekki mætt öllum nemendum sínum, hvort sem það eru strákar eða stelpur í öllum sínum margbreytileika. Af hverju það er þarf að skoða með faglegum nálgunum. Það sem vantar algjörlega inn í þessa umræðu að undanförnu er að raddir kennara fái að heyrast. Það hefur verið talað við fólk úr fjölmörgum fagstéttum svo sem hagfræðinga og fyrrverandi fótboltamenn og ýmsir sleggjudómar látnir falla. En ekki er talað við kennara sem er ætlað að leysa vanda drengja og um leið stúlkna. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum en kennarar finna töluvert fyrir því að ábyrgðin hefur að einhverju leyti færst frá heimilum yfir til skólanna,“ segir Eiríksína Eyja.

Jafnframt er lítil virðing borin fyrir tíma kennara og foreldrum finnst eðlilegt að hafa samband við kennara á hvaða tíma sem er og ætlast jafnvel til þess að kennarinn svari strax hvort sem það er seint að kvöldi eða um helgi segir hún. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Covid-19-faraldurinn hafi afhjúpað mikinn aðstöðumun hvað varðar tölvutækni og aðgengi að fjarkennslu. Dæmi voru um það meðal kennaranna að þeir störfuðu í skólum sem ekki höfðu innleitt spjaldtölvur fyrir heimsfaraldurinn og í einhverjum skólum var tölvukostur af skornum skammti.

Í skólum sem ekki höfðu innleitt spjaldtölvur í skólastarfið þótti kennurum erfiðara að halda uppi fjarnámi og má í raun segja að í slíkum tilfellum hafi eingöngu verið hefðbundin heimavinna ásamt takmarkaðri tímasókn. Skólarnir voru einnig misvel settir hvað varðar nettengingu en í nokkrum tilfellum kvörtuðu kennararnir undan því að þurfa að kenna við hægar og óáreiðanlegar nettengingar.

Aðstöðumunurinn beindist þó ekki eingöngu að skólunum sjálfum heldur einnig að heimilisaðstæðum kennara og nemenda. Þar sem samkomubann ríkti þá var skólahald skilyrðum háð. Þá fór öll undirbúningsvinna fram á heimilum og þeir sem sinntu fjarkennslu þurftu að gera það heima.

Einn kennarinn sagði: „Við vorum ekki með tölvu heima, hún hrundi rétt fyrir Covid og ég fékk lánaða Chromebook í skólanum og svo þurftum við að kaupa tölvu. Minn maður vann heima með sína tölvu og þá þurfti maður að skipta þessu á milli svo allir gætu unnið og það er þá aðstöðumunur í Covid. Við þurftum að lána tölvur úr skólanum þar sem ekki voru til heima hjá sumum nemendum.“

Af þessu má sjá að heimilisaðstæður kennaranna höfðu líka áhrif á möguleika þeirra til að sinna fjarkennslu. Ef maki var heima að vinna, börn á heimilinu sem voru í fjarnámi og heimilisfólk þurfti að deila tölvu þá gat það verið hindrun. Kennararnir sögðu einnig að það hefði alls ekki verið hægt að gera ráð fyrir að allir nemendur hefðu aðgang að tölvum heima og ef skólinn hafði ekki útvegað öllum nemendum spjaldtölvu þá gátu sum börn ekki tekið þátt í fjarnáminu.

„Þau voru rosa tætt þegar þau komu til baka“

Grunnskólanemar fengu fljótlega að mæta í skólann ólíkt framhaldsskólanemum.
Grunnskólanemar fengu fljótlega að mæta í skólann ólíkt framhaldsskólanemum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimsfaraldur af völdum Covid-19 afhjúpaði mikinn og falinn aðstöðumun milli barna á Íslandi. Kennarar eru sú stétt landsins sem hefur mesta möguleika á að sjá og skynja þann aðstöðumun þar sem í þeirra umsjá eru margir einstaklingar með ólíkt bakland og misjafnar aðstæður.

Kennararnir höfðu einnig verulegar áhyggjur af nemendum sem mættu ekki í skólann. Kennsla barna krefst ákveðinnar líkamlegrar nándar og krafan um tveggja metra bil á milli fólks hafði líka áhrif á hvernig kennararnir gátu aðstoðað nemendur.

Einn kennari lýsti því svo: „Þau sátu náttúrulega ekkert við sama borð, þau fengu allt sent heim og maður var í sambandi og sendi tölvupóst […] Þau voru rosa tætt þegar þau komu til baka, sérstaklega þau sem höfðu verið minna en hin […] maður mátti ekki koma nálægt þeim. Var ekki upplífgandi, maður mátti ekki nálgast þau og maður varð samt að hafa þetta fjölbreytt og svo einstaklingskennsla rosalega langt frá. Maður lét þetta ganga, það var ekki annað í boði og við fengum ekki aðra möguleika. Þau sem mættu allan tímann þau komu langbest út úr þessu. Það voru krakkar sem voru reknir á lappir og í rútínu, lærðu svo heima.“

Kennararnir lýstu því líka hvernig upplýsingagjöf til innflytjenda var í einhverjum tilvikum ábótavant. Sumir innflytjendur voru óöruggir varðandi skilgreiningu á neyðarstigi og virtust ekki gera sér grein fyrir hvort öruggt væri að senda börnin í skólann.

„Við tókum sérstaklega eftir því þar sem íslenska er ekki fyrsta tungumál að þá er erfiðara að fá þau inn, þau voru meira í burtu, mikið meiri hræðsla og kannski fengu þau ekki sömu upplýsingar að það endaði með því að deildarstjórar hringdu í þá foreldra og hreinlega sögðu þeim að senda börnin og þá hafði fólkið ekki fengið þær upplýsingar að það væri óhætt að senda þau í skólann, það væru engin smit og allt í lagi ef ekkert væri undirliggjandi. Þá tóku margir við sér,“ segir í grein Eiríksínu Eyju og Kristínar í Netlu.

Mikilvægt hlutverk kennara

Kennararnir í rannsókninni sýndu baráttuhug, sveigjanleika og þolgæði til að bregðast við breyttum aðstæðum. Þeir lýstu einnig samstöðu og samhug sem ríkti milli kennara og foreldra, sem einnig sást almennt í samfélaginu. Greinilegt er að einhverjum kennurum fannst þetta góður og lærdómsríkur tími en þó má ekki horfa fram hjá því að það eru hópar í samfélaginu sem eru viðkvæmir fyrir röskun á skólastarfi segir enn fremur í greininni. 

Eiríksína Eyja segir að þessi mikla ástríða kennara fyrir starfinu hafi komið henni á óvart. Þeir eru jákvæðir og þykir afar vænt um starfið. Um leið eru þeir stoltir af starfi sem þeir vinna oft við erfiðar aðstæður og lítinn skilning. Þeir sýna umhyggju og ástúð á sama tíma og þá skorti meiri endurgjöf.

Hún segir að það sé mikilvægt að kennarar verði áfram taldir til framvarðasveitar og vonast til að svo verði áfram. Að samfélagið dragi þann lærdóm af Covid að bera virðingu fyrir starfi kennara og skólastarfi.

Eiríksína Eyja segir að það sé eitthvað sem yfirvöld, fjölmiðlar og almenningur megi hafa í huga. „Að hlusta oftar á hvað kennarar hafa að segja um skólastarfið þar sem það eru örugglega fáir ef einhverjir sem hafa jafn mikla þekkingu og þeir á því starfi sem þar fer fram. Mjög mikilvægt að líta á þá sem fagmenn og sérfræðinga. Eitt af því sem Lilja [Alfreðsdóttir] er að vekja athygli á er gott starf kennara og vonandi verður sú breyting á að meiri virðing sé borin fyrir kennurum og þeirra starfi. Ég heyri það á kennurum að þeir eru ánægðir með þetta og vonandi lýkur eða minnkar viðvarandi neikvæðni gagnvart kennurum og skólastarfi. Ábyrgðin á því er okkar allra,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is.

mbl.is