Ómíkron hvergi á förum

Kórónuveiran Covid-19 | 24. nóvember 2023

Ómíkron hvergi á förum

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar er hvergi nærri dautt úr öllum æðum segir í umfjöllun bandaríska dagblaðsins New York Times sem segir ómíkron enn – sléttum tveimur árum eftir að afbrigðið greindist fyrst í Botswana og Suður-Afríku í nóvember 2021 – bráðsmitandi auk þess sem það hafi getið af sér fleiri veiruafbrigði sem mörg hver standi bólusetningarlyfin af sér.

Ómíkron hvergi á förum

Kórónuveiran Covid-19 | 24. nóvember 2023

Stökkbreytta ómíkron-veiran, gul á litinn, raðar sér utan á frumur …
Stökkbreytta ómíkron-veiran, gul á litinn, raðar sér utan á frumur og sætir lagi að smjúga inn í þær. Smásjármynd/National Institute of Allergy and Infectious Diseases

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar er hvergi nærri dautt úr öllum æðum segir í umfjöllun bandaríska dagblaðsins New York Times sem segir ómíkron enn – sléttum tveimur árum eftir að afbrigðið greindist fyrst í Botswana og Suður-Afríku í nóvember 2021 – bráðsmitandi auk þess sem það hafi getið af sér fleiri veiruafbrigði sem mörg hver standi bólusetningarlyfin af sér.

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar er hvergi nærri dautt úr öllum æðum segir í umfjöllun bandaríska dagblaðsins New York Times sem segir ómíkron enn – sléttum tveimur árum eftir að afbrigðið greindist fyrst í Botswana og Suður-Afríku í nóvember 2021 – bráðsmitandi auk þess sem það hafi getið af sér fleiri veiruafbrigði sem mörg hver standi bólusetningarlyfin af sér.

Þegar hið gríska nafn bókstafsins ómíkron tók að verða tíður gestur í fjölmiðlum höfðu fimm milljónir manna í heiminum fallið í valinn fyrir kórónuveirunni og rúmlega fjórir milljarðar verið bólusettir gegn þessum vágesti sem fyrst fréttist af um áramótin 2019–'20.

„Þessu mátti nánast líkja við nýjan faraldur,“ segir dr. Adam Lauring, veirufræðingur við Háskólann í Michigan, en hann reynir nú ásamt fjölda starfssystkina að henda reiður á atburðarásinni síðustu tvö árin til þess búa í haginn fyrir framtíðina. Telur hann vel hugsanlegt að ómíkron verði fylgifiskur mannkyns um ókomna tíð með reglulegum stökkbreytingum að sið hinnar árlegu flensu.

Fyrsta veiran sem áttaði sig

Rifjar New York Times upp að stjórnvöld í Bandaríkjunum og fleiri vestrænum ríkjum töldu að þau gætu firrt sig ómíkron með því einfaldlega að loka á ferðir fólks frá Suður-Afríku. Ómíkron hafði þá þegar dreift sér mun víðar en talið var og því fullseint í rassinn gripið.

Dr. Jacob Lemieux, smitsjúkdómasérfræðingur við Sjúkrahúsið í Massachusetts, segir smiteiginleika ómíkron sprottna af tugum stökkbreytinga sem breytt hafi yfirborði veirunnar með þeim afleiðingum að bólusetningarlyf loði illa við hana og dragi þar með ekki úr eiginleikum hennar til að smjúga inn í aðrar frumur.

„Þetta var fyrsta veiran sem áttaði sig á því hvernig hún ætti að sleppa undan ónæmiskerfinu,“ segir Lemieux og veirufræðingurinn Peter Markov við London School of Hygiene and Tropical Medicine tekur undir með honum. „Það [ómíkron-afbrigðið] er eins og rannsóknarstofa fyrir veiruþróun,“ segir hann.

Kínverjar einir náðu að verjast

Faraldursfræðingar sáu fljótlega veigamikinn mun á ómíkron og fyrri afbrigðum. Færri þurftu sjúkrahúsinnlagnar við þótt ómíkron tæki sér bólfestu í þeim. Ein ástæða þess var sá fjöldi sem komið hafði sér upp ónæmi fyrir fyrri afbrigðum. Hluti varna ónæmiskerfisins eru frumur sem eru þeirrar náttúru að bera kennsl á og drepa sýktar frumur og sú varnarlína kemur oftar en ekki í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum ómíkron.

Þetta nýja afbrigði skall svo á Bandaríkjunum og flestum öðrum löndum snemma árs í fyrra, 2022. Kínverjar einir náðu að verjast fimlega með „núll Covid“-stefnu sinni sem ekki var óumdeild og varð að lokum kveikja svo umfangsmikilla mótmæla að Xi Jinping forseti hvarf frá henni í nóvember, fyrir einu ári. Þar með brast stíflan og rúmur milljarður Kínverja sýktist af ómíkron, rúm milljón lést.

Bóluefnaframleiðendur gerðu sitt til að standast ómíkron snúning og mátti þar nefna örvunarsprauturnar nafntoguðu sem stefnt var til höfuðs BA.5-afbrigði ómíkron auk bóluefnis sem sérstaklega var beint gegn XBB.1.5-afbrigðinu en reyndist of seint á ferð.

Eins og stór leikskóli

„Núna erum við á tímabili ringulreiðar [e. period of chaos],“ segir Marc Johnson, enn einn veirufræðingurinn, að þessu sinni við Háskólann í Missouri, og þróunarlíffræðingurinn Michael Lässig við Háskólann í Köln er honum sammála. „Í upphafi vorum við eins og stór leikskóli,“ segir hann og bætir því við að nú hafi flestir jarðarbúar einhvers konar ónæmi gagnvart kórónuveirunni, ýmist vegna fyrri sýkingar, bólusetningar eða hvors tveggja. „Mun flóknara vistkerfi blasir nú við veirunni,“ segir Lässig en lokaorðin á Katrina Lythgoe, líffræðingur við Oxford-háskóla.

Hún óttast að þróun nýrra bóluefna dragist æ lengra aftur úr í kapphlaupinu við veiruna eftir því sem greiðsluvilji ríkisstjórna dvíni og fjárveitingar til erfðaröðunar (e. genetic sequencing) rýrni. „Ef við röðum ekki hlutunum verða þeir okkur ósýnilegir,“ segir líffræðingurinn.

New York Times

mbl.is