Opnaðist gluggi í Covid til að eignast barn

Kórónuveiran Covid-19 | 10. desember 2023

Opnaðist gluggi í Covid til að eignast barn

„Það skapaðist bara einhver stemming í Covid,“ segir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsfræði, varðandi óvænta aukningu fæðingartíðni árið 2021. 

Opnaðist gluggi í Covid til að eignast barn

Kórónuveiran Covid-19 | 10. desember 2023

Sunna Símonardóttir (t.v.) og Ásdís Aðalbjörg Arnalds (t.h.).
Sunna Símonardóttir (t.v.) og Ásdís Aðalbjörg Arnalds (t.h.). Samsett mynd/Hari/Háskóli Íslands

„Það skapaðist bara einhver stemming í Covid,“ segir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsfræði, varðandi óvænta aukningu fæðingartíðni árið 2021. 

„Það skapaðist bara einhver stemming í Covid,“ segir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsfræði, varðandi óvænta aukningu fæðingartíðni árið 2021. 

Ný rannsókn hennar og tveggja kollega leiddi í ljós að aukning í fæðingartíðni tengdist samfélagsbreytingum í Covid og að flestir foreldrar sem eignuðust barn árið 2021 voru vel stæðir, háskólamenntaðir og áttu fyrir börn.

Ásdís kynnti í gær niðurstöður úr rannsókninni sem var unnin með Sunnu Kristínu Símonardóttur og Ara Klæng Jónssyni nýdoktorum í félagsfræði. Blaðamaður mbl.is ræddi við Ásdísi og Sunnu. 

Foreldrarnir tekjuháir, menntaðir og á þriðja barni

Tveir þættir voru til skoðunar sem áhrifavaldar á  fæðingartíðni árið 2021. Annars vegar lenging á fæðingarorlofs sem tók við það árið og hins vegar samfélagsbreytingar tengdar heimsfaraldrinum. 

Segir Ásdís því allt benda til að fæðingartíðni hafi aukist vegna samfélagsbreytinga í kjölfar heimsfaraldursins. Greining rannsóknarinnar byggi á viðtölum við rýnihópa og gögnum frá Hagstofu Íslands.

„Við sjáum í gögnum frá Hagstofu Íslands að þetta eru fyrst og fremst foreldrar með háar heimilistekjur, með háskólapróf og foreldrar sem eru að eignast sitt þriðja barn,“ segir Ásdís og bætir við að ekki hafi allir samfélagshópar endilega fundið fyrir nægu öryggi á slíkum óvissutímum til að fara að huga að barneignum.

Hún segir flesta foreldrana hafa sagst þegar hafa talað um að eignast annað barn og hafi því þótt tilvalið að láta af verða þegar allir voru heima við hvort eð er.

„Það opnast bara þarna einhver gluggi til þess að grípa gæsina,“ segir Ásdís

„Það hægðist á öllu og þau eru laus við þetta stress að skutla börnum í tómstundir og svoleiðis. Þá myndast þessi staða að nú sé upplagður tími til að eignast barn.“ 

Fæðingartíðni á Íslandi hækkaði óvænt árið 2021.
Fæðingartíðni á Íslandi hækkaði óvænt árið 2021. mbl.is/Colourbox

„Áköf mæðrun“ og aukið álag

Spurð hvort það megi rekja til aukinnar vinnu- og álagsmenningar í samfélaginu að fólki hafi vart gefist tími til frekari barneigna fyrr en í heimsfaraldri kveðst Ásdís ekki efa það. 

Þrátt fyrir aukið jafnrétti og þátttöku feðra í uppeldi barna hafi engu að síðar skapast meira umstang og fyrirhöfn í kring um barnauppeldi sem auki vinnu fyrir foreldra, þá sérstaklega mæður. Svokallað ákaft uppeldi eða áköf mæðrun að sögn Sunnu.

Eftir því sem konur hafi skapað sér sess á atvinnumarkaðinum hafi kröfur til barnauppeldis og samveru með börnum hins vegar aukist og margar konur, sem oft beri þungann af uppeldinu samhliða fullri vinnu, upplifi því mikið og ójafnt vinnuálag. 

Ítrekar Sunna þó að það sé jákvætt að atvinnuþátttaka kvenna sé mikil á Íslandi og að ekki megi grafa undan því. Feður upplifi einnig aukna pressu í tengslum við uppeldi barna og samveru og mikilvægt sé að skoða hvernig betur megi styðja við foreldra.

Sunna sem einnig hefur rannsakað viðhorf einstaklinga, sem hafa ákveðið að sniðganga barneignir, til foreldrahlutverksins, segir það einmitt slíka menningu sem fæli marga frá barneignum. 

Foreldrar aldrei eytt meiri tíma með börnunum sínum

„Það voru sérstaklega konur sem upplifa þetta hlutverk sem kvíðavaldandi, að það sé gríðarlega mikil pressa á mæður að standa sig ofboðslega vel í öllu sem viðkemur foreldrahlutverkinu. Að vera með allt á hreinu og forgangsraða alltaf barninu ofar öllu öðru og að þurfa að fórna sjálfum sér fyrir börnin“ segir Sunna. 

Nefnir Sunna einnig umræður um að foreldrar séu ekki að standa sig nógu vel nú til dags fæla barnlausa frá barneignum og efla á foreldraskömm. 

„Það kemur reglulega fram þessi hugmynd að foreldra séu ekki að standa sig nógu vel, við erum ekki að lesa nóg fyrir þau og erum ekki að eyða nægum tíma með þeim,“ segir Sunna og vísar til fjölda alþjóðlegra rannsókna síðustu ár.

„Foreldrar hafa bara aldrei eytt meiri tíma með börnum sínum enn núna.“

Mæður brúi oftar en ekki bilið

Að sögn Ásdísar og Sunnu niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að aukin fæðingartíðni tengist ólíklega umbótum á fæðingarorlofsgjöf. Sama aukning hafi átt sér stað á Norðurlöndunum auk þess sem að fæðingartíðni af hríðfallið á ný árið á eftir. 

Segir hún að þvert á móti hafi viðtöl við rýnishópa leitt í ljós að fólkið sem tók ákvörðun um að eignast barn, tók hana þrátt fyrir óánægju með fæðingarorlofsumgjörð.

„Óánægju með fjölskyldustefnu á Íslandi og foreldrar gagnrýna greiðsluþakið og svo bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ segir Ásdís. 

Tekur Sunna heilshugar undir það og segir það verulega fælandi, sérstaklega fyrir barnlaust fólk og lágtekjuhópa að vita ekki hvað taki við þegar fæðingarorlof tekur enda. Það bitni oftar en ekki á mæðrum og þeirra starfi, þar sem þær brúi oftar en ekki bilið á milli fæðingarorlofsins og dagvistunarpláss, við mikinn tekjumissi.

„Öll önnur Norðurlönd fyrir utan Ísland eru með það fest í lög að börnum sé tryggð dagvistun þegar fæðingarorlof tekur enda.“

mbl.is