Framlög án kröfu um greiningar

Skóli fyrir alla? | 16. september 2019

Framlög án kröfu um greiningar

Menntamálaráðuneytið hyggst hefja tilraunaverkefni með fjórum sveitarfélögum þar sem unnið verður markvisst að því að fjárframlög fari í auknum mæli til íhlutunar- og forvarnarstarfs, án kröfu um greiningar. Að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eru ráðuneytin í mjög góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið. Mikilvægt sé að vinna þvert á ráðuneyti og sinna börnum áður en það er orðið of seint. 

Framlög án kröfu um greiningar

Skóli fyrir alla? | 16. september 2019

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Menntamálaráðuneytið hyggst hefja tilraunaverkefni með fjórum sveitarfélögum þar sem unnið verður markvisst að því að fjárframlög fari í auknum mæli til íhlutunar- og forvarnarstarfs, án kröfu um greiningar. Að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eru ráðuneytin í mjög góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið. Mikilvægt sé að vinna þvert á ráðuneyti og sinna börnum áður en það er orðið of seint. 

Menntamálaráðuneytið hyggst hefja tilraunaverkefni með fjórum sveitarfélögum þar sem unnið verður markvisst að því að fjárframlög fari í auknum mæli til íhlutunar- og forvarnarstarfs, án kröfu um greiningar. Að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eru ráðuneytin í mjög góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið. Mikilvægt sé að vinna þvert á ráðuneyti og sinna börnum áður en það er orðið of seint. 

„Við verðum að treysta kennurum betur til þess að ákveða hvaða börn þurfa á auknum stuðningi að halda án þess að þess sé krafist að greining liggi að baki stuðningnum.“ Enda eiga nemendur rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra. Eitt af því er að hvetja sveitarfélögin til að koma með ný viðmið þegar kemur að fjárúthlutun til menntamála. Það er allt annað að hjálpa barni með lestrarörðugleika eða lesblindu þegar það er 7 ára eða þegar það er komið á unglingsár og komið í hættu á að falla á milli kerfa.

Aðstoða grunnskólastigið enn frekar

„Ég tel að setja eigi lestrarkennslu inn í leik á leikskólastiginu en leikskólarnir eru það skólastig sem við getum verið einna stoltust af í alþjóðlegum samanburði. Mín skoðun er að við eigum að nýta okkur það og eins að aðstoða grunnskólastigið enn frekar. Til þess þurfum við að gera okkur grein fyrir því í hvað allir þessir fjármunir eru að fara. Því háar fjárhæðir renna til menntamála á Íslandi og við erum í þriðja sæti meðal OECD-ríkjanna þegar kemur að fjármögnun grunnskólanna á eftir Lúxemborg og Noregi. Ríkjum með hæstu þjóðartekjur á íbúa.

Mitt markmið er að vinna með sveitarfélögunum að þessu og eins að bæta stöðu kennara. Við eigum að hlusta á kennara sem segja að álagið sé allt of mikið á þá í starfi. Það er skylda stjórnvalda að skoða álagsþættina. Þessi fjöldi nemenda sem er með greiningar, en hér á landi eru tæplega 17% nemenda með greiningar á meðan meðaltalið í ríkjum OECD er 4,5%, hlýtur að vera álagsþáttur í starfi kennara. Getum við aðstoðað börnin fyrr þannig að áhyggjur og álag á kennara minnki?“ spyr Lilja. 

Hún segir að ef menntakerfið á Íslandi eigi að vera framúrskarandi verði að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi að mikilvægasta starfið er kennsla. Í öðru lagi að stjórnmálamenn forgangsræði bæði fjármunum og orðræðu. Orðræða um hvað varðar menntun skiptir máli og í þriðja lagi að gleyma því aldrei að allir geti lært. Ef okkur tekst að tengja þetta allt saman hef ég mikla trú á því að okkur takist þetta ætlunarverk okkar - að vera í fremstu röð,“ segir Lilja.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Starfsumhverfi kennara verði framúrskarandi

„Við þurfum að vera tilbúin að fjárfesta í menntakerfinu og gæta þess að mikilvægasta starfsfólkinu okkar, kennurunum, sé umbunað og þeir starfi við góðar aðstæður. Við keppum að því að starfsumhverfi kennara á öllum skólastigum verði framúrskarandi,“ segir  mennta- og menningarmálaráðherra.

Hún segir að þetta eigi að vera samvinnuverkefni alls samfélagsins og þar sé enginn undanskilinn. „Álagið hefur aukist í breyttu samfélagi og við verðum að vera þátttakendur í því að móta framtíð barna og ungmenna. Ekki varpa ábyrgðinni alfarið á skólann heldur á þetta að vera verkefni okkar allra. Þannig náum við bestum árangri,“ segir Lilja sem hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að kennarastarfið sé mikilvægasta starfið í íslensku samfélagi.

Þetta hefur skilað árangri því umræðan um kennslu og kennara hefur breyst mikið á síðustu mánuðum. Umsóknum um kennaranám fjölgar verulega á milli ára, þar á meðal umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands um 45%. Karlkyns umsækjendum fjölgaði í þeim hópi en um helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þá fjölgaði einnig umsóknum um nám leiðsagnakennara. Lokaárið í kennaranámi er orðið starfsnám og kennaranemar hafa möguleika á styrkjum upp á 800 þúsund krónur þegar þeir hafa skilað meistaraverkefni sínu.

Lilja segir að þetta sýni að ef viljinn er fyrir hendi og samstaða næst, eins og var í þessu tilviki með átakinu Komdu að kenna, sé allt hægt. 

Sjá þarf til þess að bráðger börn finni sig í …
Sjá þarf til þess að bráðger börn finni sig í skólakerfinu. Það hafi ekki verið gert nægjanlega og tryggja þurfi að þau fái áskoranir við sitt hæfi. mbl.isi/Hari

Að sögn Lilju hafði hún meðal annars í huga finnsku aðferðina þegar hún tók við starfi menntamálaráðherra en megininntak hennar er að umbætur á skólakerfum snúist um að skapa ungu fólki ákjósanlegar aðstæður til að verða áhugasamir námsmenn, ánægðir einstaklingar og skilningsríkir, hugmyndaríkir borgarar. 

Fagráð í stærðfræði

„Lykillinn að því að skólakerfið sé framúrskarandi er að fólk geri sér grein fyrir þessari miklu auðlind,  kennurunum. Þetta byggist allt á þeim. Við þurfum að taka afstöðu til allskonar erfiðra siðferðislegra spurninga á næstu misserum. Til þess verðum við að vera með samfélag sem er vel upplýst og getur rýnt sér til gagns. Niðurstöður PISA-könnunarinnar árið 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Annað sem kemur fram í PISA er mikil fækkun afburðanemenda og að nemendum með litla getu hefur fjölgað. Haustið 2015 var sett af stað þjóðarátak um læsi og núna ætlum við að skipa fagráð í stærðfræði. Við verðum að taka stærðfræðina sömu tökum og við erum að taka lesturinn,“ segir Lilja sem er mjög hlynnt lesfimiprófunum sem lögð eru fyrir þrisvar yfir veturinn í grunnskólum landsins.

Sumir foreldrar kvarta undan of ítarlegum og illskiljanlegum upplýsingum þar …
Sumir foreldrar kvarta undan of ítarlegum og illskiljanlegum upplýsingum þar sem mismundandi litir eru notaðir til að segja til um færni. mbl.is/Hari

„Ég vil að við förum í svipaðar aðgerðir í stærðfræði þannig að þrisvar yfir veturinn geti foreldrar og börn fylgst með í stærðfræði. Stærðfræðilæsi hefur hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið í PISA árið 2003. Af hverju er þetta svona? Þetta er alvarlegt og ekki boðlegt. Ég hef verulegar áhyggjur af stöðu Íslands í samanburði við önnur ríki, ekki endilega hvaða stig við erum að fá heldur hver staða okkar er í samanburðinum,“ segir Lilja.

Andreas Schleicher, yf­ir­maður mennta­mála hjá Efna­hags- og fram­fara­stofn­uninni (OECD), tel­ur að bilið á milli þess sem ís­lenskt sam­fé­lag þarfn­ist frá mennta­kerf­inu og þess sem mennta­kerfið skil­ar til sam­fé­lags­ins sé ekki að minnka, held­ur að breikka. Hann er þó bjart­sýnn á ýms­ar þær aðgerðir sem gripið hef­ur verið til í mennta­mál­um hér á landi, en legg­ur áherslu á að langtíma­mark­mið þurfi ávallt að ráða för þegar hugað sé að mennta­mál­um. Schleicher kom hingað til lands í sumar og að sögn Lilju er hann reiðubúinn til að aðstoða íslensk stjórnvöld við að koma á breytingum á menntastefnu landsins en til stendur að leggja fram nýja menntastefnu, sem á að gilda til ársins 2030, á vorþingi. 

Tryggja þarf áskoranir fyrir bráðger börn

Eitt af því sem Schleicher benti á í viðtali við blaðamann mbl.is í sumar er að ekki sé fylgst nægjanlega vel með framúrsk­ar­andi nem­end­um og að nem­end­ur fái tæki­færi til þess að þróa hæfi­leika sína. Í síðustu PISA-könn­un­um hef­ur hlut­fall ís­lenskra nem­enda sem standa sig af­bragðsvel farið lækk­andi og var ein­ung­is 3,8% árið 2015.

Lilja tekur undir þetta og segir að það verði að sjá til þess að bráðger börn finni sig í skólakerfinu. Það hafi ekki verið gert nægjanlega og tryggja þurfi að þau fái áskoranir við sitt hæfi. „Ég get tekið Réttarholtsskóla sem dæmi en þar meta unglingarnir sjálfir hvar þeir eru staddir og þetta kerfi hefur gengið mjög vel. Ef þau vilja fara hraðar og um leið dýpra ofan í námsefnið hafa þau kost á því. Réttarholtsskóli skorar mjög hátt í alþjóðlegum samanburði en þar, líkt og víðar í stærri safnskólum á unglingastigi, er lögð áhersla á fagkennslu.

Í þessum skólum er bæði stutt vel við börn sem þurfa mikinn stuðning og eins afburðanemendur með því að fara bæði hraðar í námsefnið og dýpra. Þetta tel ég að sé mun betri leið en að flýta börnum í námi sem hefur verið sú leið sem bráðgerum börnum hefur stundum verið boðið upp á. Við eigum að geta sinnt þeim á þeirra aldursstigi þar sem þau fá að velja sjálf og ef þau eru ekki að ráða við námsefnið geta þau breytt um hraða á yfirferð. Þannig læra þau líka að axla ábyrgð á eigin námi,“ segir Lilja. 

Hvers vegna ekki leyfa þeim sem tala pólsku að fá …
Hvers vegna ekki leyfa þeim sem tala pólsku að fá hana metna inn í stað dönsku? mbl.is/Hari

Skólarnir sitja uppi með vandamálið

Skólafólk sem og foreldrar kvarta sumir undan breytingunni sem varð á aðalnámskránni fyrir nokkrum árum. Hún sé flókin og ekki hafi verið staðið nægjanlega vel að innleiðingu hennar. Eftirfylgni af hálfu hins opinbera hafi skort og skólarnir setið uppi með vandamálið án stuðnings frá þeim sem settu fram námskrána. Það hafi jafnvel farið svo mikil orka í það hjá kennurum og skólastjórnendum að vinna í verkefnum tengdum henni að það hafi bitnað á kennslunni. Mest er kvartað undan hæfniviðmiðum sem séu einfaldlega ömurleg, ekki síst í náttúru- og samfélagsgreinum. 

Eitt af því sem bæði kemur fram í úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir og í samtölum blaðamanns við skólafólk og foreldra er að oft er óljóst hvers er  krafist af kennurum varðandi námsmat og fyrir foreldra að fá upplýsingar á mannamáli um stöðu barna sinna í námi. Sumir foreldrar kvarta undan of ítarlegum og illskiljanlegum upplýsingum þar sem mismunandi litir eru notaðir til að segja til um færni. Aðrir kvarta um að fá litlar sem engar upplýsingar um stöðu barna sinna og að stundum skorti jafnvel á samræmi milli viðmiða milli kennara innan sama skóla. Á sama tíma kvarta kennarar yfir því að hæfni- og matsviðmiðin í aðalnámskránni séu oft of flókin og of víðtæk. Það sé ekki vinnandi vegur að skrá þetta allt skilmerkilega fyrir hvern og einn nemanda á sama tíma og þeir eigi að sinna sínu helsta verkefni - að kenna.

Að sögn Lilju er verið að skoða þessi mál og greinilegt að vinna þurfi betur í framkvæmdinni. Gerð var könnun á innleiðingu á aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 og 2013 með það að markmiði að skoða hvernig skólum hefur gengið að innleiða námskrána og verða niðurstöður nýttir til að fara í úrbætur, m.a. hvaða varðar bætta innleiðingu og skýrari framsetningu aðalnámskrár í námsmati. Að því verður unnið í samstarfi ráðuneytisins og sveitarstjórnarstigsins. Eitt af því sem Schleichers segi er að miðstýringin sé of lítil í íslensku menntakerfi og mikið frjálsræði. Það sé eitt af því sem verði að skoða við gerð nýrrar menntastefnu. 

Allir þurfa að vera samstiga

Lilja segir nauðsynlegt að endurgjöf skólakerfisins verði gerð skýrari og margir hafi kvartað yfir breytingunni úr tölustöfum í bókstafi og að allir, hvort sem það eru skólar eða heimili, séu samstiga þar. „Ég er hlynnt samræmdum könnunarprófum en þau þurfa ekkert endilega að vera byggð upp eins og þau eru í dag. Ég tel að þau stuðli að jöfnuði í kerfinu og gefi góða mynd af því hvar börnin standa í námi og eins í samanburði við önnur börn. Samanburðurinn getur verið erfiður og ég skil mætavel að það séu ekki allir sáttir við hann en ég held að hann sé eitt þeirra tækja sem hægt er að nota til að sjá hvar skórinn kreppir og brugðist við með snemmtækri íhlutun í stað þess að við missa allt of stóran hóp út úr framhaldsskólunum,“ segir Lilja. 

Tæknin getur nýst vel í kennslu.
Tæknin getur nýst vel í kennslu. mbl.is/Hari

Þegar horft er á tölur um brottfall úr skólum á Íslandi sést að staða barna með annað móðurmál en íslensku er verri en annarra íslenskra barna. Lilja segir að hlúa þurfi sérstaklega vel að þessum hópi barna. „Við erum að kortleggja stöðu þeirra á landsvísu og ég vil að þessi börn hafi sömu tækifæri til að stunda nám við framhaldsskóla og þetta verður að breytast ef við ætlum að vera land sem er í fremstu röð. Ríkjum eins og Kanada og Sviss hefur tekist vel til og við eigum að læra af því sem skilað hefur árangri erlendis.  

Öll börn sem búa á Íslandi eiga sama rétt, alltaf

Foreldrar þessara barna koma hingað og leggja sitt af mörkum til hagkerfisins og okkur ber sem samfélagi að veita þessum börnum framúrskarandi þjónustu. Öll börn sem búa á Íslandi eru íslensk og eiga öll að eiga sama rétt, alltaf.

Við eigum að leggja áherslu á að þau fái góða íslenskukennslu og fái tækifæri til að nota íslensku innan veggja skólans. Ein af forsendum þess að Ísland verði í fremstu röð er að fólk vilji koma hingað og búa. Eitt af því er að leyfa börnum sem tala pólsku að fá hana metna inn í stað dönsku líkt og við gerum fyrir börn sem tala sænsku eða norsku. Þessi börn eru að koma með frábæra þekkingu inn í íslenskt samfélag. Þekkingu sem við eigum að meta og bera virðingu fyrir án þess að ég sé að gera lítið úr dönsku,“ segir Lilja. 

Hún segir að eitt af því sem hægt sé að gera til þess að styðja börn með annað tungumál sé að koma upp svipuðum farteymum og Reykjavíkurborg er komin með varðandi stuðning við börn með hegðunarvanda. Að kennarar, sem eru sérmenntaðir í að sinna börnum með annað tungumál, auk talmeinafræðinga fari á milli skóla og styðji við nemendur sem þess þurfa. 

Nær öll börn á grunnskólaaldri ganga í almenna grunnskóla en um 2-3% nemenda eru í sérskólum. Sveitarfélög greiða allan rekstrarkostnað almennra grunnskóla og þau greiða sjálfstætt reknum grunnskólum framlag sem nemur að minnsta kosti 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar. 

„Í grunnskóla eiga allir nemendur rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Tækifærin eiga að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Þess er því gætt að tækifærin ráðist ekki af því hvort nemandi er af íslensku bergi brotinn eða af erlendum uppruna. Þau eru óháð því hvort um drengi eða stúlkur er að ræða, hvar nemandi býr, hverrar stéttar hann er, hvaða trúarbrögð hann aðhyllist, hver kynhneigð hans er, hvernig heilsufari hans er háttað eða hvort hann býr við fötlun eða hverjar aðstæður hans eru,“ segir í aðalnámskrá grunnskóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. mbl.is//Hari

Foreldrarnir á hliðarlínunni

Lilja segir að í hennar draumaskólakerfi fái allir menntun við hæfi. Allir skipti máli og allir geti lært. „Ég er hinsvegar á því ef við veitum börnum betri þjónustu í sérskólum þá eigi foreldrar og börn að hafa val um það. Ég tel að valfrelsi og að foreldrar sýni skólagöngu barna sinna áhuga sé ein skýrasta vísbendingin um að barninu muni ganga vel í lífinu. Við megum aldrei vanmeta foreldra og þeirra þátttöku í lífi og verkefnum barna sinna. Ég myndi vilja sjá þetta viðhorf koma skýrar fram í menntakerfinu líkt og við sjáum í íþróttunum. Þar sjáum við foreldra á hliðarlínunni allar helgar. Þetta þekkja foreldrar og ég segi fyrir mig að ég væri til í að gera það sama varðandi lestur og stærðfræði. En þá þurfum við að tileinka okkur það hugarfar og muna að gagnrýnin hugsun hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú vegna þess mikla áreitis sem við búum við. Við getum líka nýtt tæknina betur í þágu þessa, skólarnir geta lagt sitt af mörkum til þess að halda utan um  þessi tækna og tryggja að upplýsingar sem henni tengjast skili sér á uppbyggilegan hátt til barna,“ segir Lilja. 

Að sögn Lilju eru Norðmenn framarlega í að nýta sér tæknina við kennslu, til að mynda í stærðfræði. Hún segist binda vonir við að þetta komi til með að breytast hér og um leið geti þetta bætt stöðu íslenskra drengja en miklu fleiri strákar en stelpur eru með formlegar greiningar á Íslandi. Þeir standa mun verr að vígi í lestri og lesskilningi en stelpur á grunnskólaaldri. Eitt af því sem er til skoðunar innan menntamálaráðuneytisins er hvort hægt sé að nýta gervigreind varðandi færni í íslensku. „Tæknin er frábær svo lengi sem það erum við sem stjórnum henni en ekki öfugt,“ segir hún og bætir við að miklu skipti einnig að bækur séu í boði fyrir börn. Brýnast er þó ekki hvað sé lesið eða hvar, heldur að það sé gert og það helst á hverjum degi.

mbl.is