„Menntamál eru ekki geimvísindi“

Á fundinum ræddi Schleicher um stöðu íslenska menntakerfisins samanborið við …
Á fundinum ræddi Schleicher um stöðu íslenska menntakerfisins samanborið við aðrar þjóðir, út frá gögnum sem OECD safnar, bæði með samræmdum prófum eins og PISA-könnuninni sem og könnunum á meðal kennara í aðildarríkjum stofnunarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD), telur að bilið á milli þess sem íslenskt samfélag þarfnist frá menntakerfinu og þess sem menntakerfið skilar til samfélagsins sé ekki að minnka, heldur að breikka. Hann er þó bjartsýnn á ýmsar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í menntamálum hér á landi, en leggur áherslu á að langtímamarkmið þurfi ávallt að ráða för þegar hugað sé að menntamálum.

Þetta sagði Schleicher, sem hefur verið í forsvari fyrir menntamál hjá OECD í fjölda ára og er sjálfur faðir PISA-könnunarinnar, í samtali við blaðamann mbl.is eftir fyrirlestur sem hann hélt í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun, en Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands stóðu sameiginlega að fundinum.

Á fundinum ræddi Schleicher um stöðu íslenska menntakerfisins samanborið við aðrar þjóðir, út frá gögnum sem OECD safnar, bæði með samræmdum prófum eins og PISA-könnuninni sem og könnunum á meðal kennara í aðildarríkjum stofnunarinnar. PISA-könnunin er lögð fyrir 15 ára nemendur á þriggja ára fresti og Ísland kom afar illa út úr könnun ársins 2015, en niðurstöður úr könnun ársins 2018 verða birtar í desember næstkomandi.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá tel ég að bilið á milli þess sem að samfélagið þarfnast frá menntakerfinu og þess sem menntakerfið skilar samfélaginu sé ekki að minnka heldur að breikka, sem er mikil áskorun. Á sama tíma þá sé ég að þið eruð að taka mikilvægt frumkvæði í því að gera kennslu meira aðlaðandi. Gæði náms aldrei geta orðið meiri en gæði kennara og kennslunnar,“ segir Schleicher og nefnir að það sé gleðiefni að umsóknum um kennararanám hefði fjölgað í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar til þess að fjölga kennaranemum. Sömuleiðis væri aukin áhersla á iðngreinar af hinu góða, þar sem ekki sé gott að beina öllum inn á bóknámsbrautir.

Of margir falla í gegnum glufurnar

Schleicher segist meðvitaður um að á Íslandi sé brottfall úr námi mikið miðað við margar aðrar þjóðir og segir að hér falli of margir nemendur í gegnum glufur í skólakerfinu, án þess að námserfiðleikum þeirra sé gefinn nægilega mikill gaumur. Hið sama eigi við um góða nemendur, sem fái ekki næg tækifæri til þess að hámarka hæfileika sína.

„Ég er ekki viss um að kerfið sé að fylgjast nógu vel með framúrskarandi nemendum og að nemendur fái tækifæri til þess að þróa hæfileika sína. Ég tel að það sé eitthvað sem að þið þurfið að veita athygli,“ segir Schleicher, en í síðustu PISA-könnunum hefur hlutfall íslenskra nemenda sem standa sig afbragðsvel farið lækkandi og var einungis 3,8% árið 2015.

Schleicher lagði mikla áherslu á það í fyrirlestri sínum að …
Schleicher lagði mikla áherslu á það í fyrirlestri sínum að aðlaga þurfi menntakerfi ríkja að breyttum heimi, þar sem upplýsingalæsi skipti sífellt meira máli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að Íslendingar þurfi að gera betur til þess að sinna báðum þessum hópum og að það felist í breyttum kennsluháttum.

„Ef að þú værir að reka stórmarkað en ekki skóla og þú myndir sjá að af hverjum 100 viðskiptavinum myndu 30 fara út án þess að kaupa nokkuð, á hverjum degi, viku eftir viku, þá myndir þú breyta vöruframboðinu og hugsa um hvað þú gætir gert til þess að gera til þess að bjóða þeim eitthvað áhugavert.“

Hið sama segir hann að eiga um við skólakerfið. „Þú þarft að bjóða upp á eitthvað sem virkjar þau námslega. Á Íslandi er vandamálið tvíþætt, þeir sem eiga erfitt með námið falla í gegnum sprungurnar og hætta í námi og þeir sem eru á hinum endanum hætta líka þar sem þeim þykir þetta bara leiðinlegt.“

Schleicher segir að þegar að svona sé statt séu það ekki nemendurnir sem séu vandamálið, heldur skipulag námsins og umhverfið sem nemendum er veitt. Hann segir að hér á Íslandi og víðar sé búið að gera nám mjög óhlutbundið, afstrakt, og fjarlægt raunverulegu lífi nemenda.

„Það virðist því ekki tengjast framtíð eða lífi nemendanna og þá nenna þau ekki að standa í þessu og hætta,“ segir Schleicher.

Bjóða þurfi kennurum heimsklassastörf

„Ef þú vilt fá besta og skarpasta fólkið til þess að móta samfélagið þitt með kennslu, þá þarftu að bjóða þeim heimsklassastarf,“ segir Schleicher, en í fyrirlestri sínum minntist hann á það að íslenskir kennarar telja fæstir að starf þeirra sé metið að verðleikum af samfélaginu, en innan við 20% íslenskra kennara segja að svo sé, sem er afar lágt í OECD-samanburði.

Andreas Schleicher er yfirmaður menntamála hjá OECD. Hann er hvatamaðurinn …
Andreas Schleicher er yfirmaður menntamála hjá OECD. Hann er hvatamaðurinn að gerð PISA-könnunarinnar, sem hefur verið mikið til umfjöllunar á undanförnum árum vegna slælegrar útkomu íslenskra nemenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar kemur fleiri til en launin, segir Schleicher og nefnir að vinnuskipulag kennara á Íslandi sé mjög „verksmiðjulegt“ og að gera þurfi kennslu meira spennandi fyrir kennarana sjálfa. Þeim þurfi að bjóða áhugavert starf sem felist í minni mæli í því að flytja námsefnið fyrir nemendur og fremur um að kennarar fái fleiri tækifæri til þess að vinna sjálfstætt að þróun námsins í samstarfi við aðra kennara.

Schleicher nefndi að í mörgum ríkjum, til dæmis í Kína, væri mun meiri áhersla á samstarf kennara. Þar væru kennarar einungis að kenna bekkjum 11-16 tíma á viku, en eyddu þeim mun stærri hluta vinnuvikunnar í að þróa verkferla við kennsluna, til dæmis með því að fylgjast með kennslustundum annarra kennara.

„Vinnuskipulag kennara er eitthvað sem ég hef ekki séð breytast á Íslandi. Það þarf að veita því mun meiri athygli, við þurfum meiri fjölbreytni og líka að taka sérstaklega vel eftir þeim sem eru að standa sig gríðarlega vel í kennslu og veita þeim tækifæri til þess að leiðbeina öðrum kennurum og einnig sjá til þess að kennarar fái opinbera athygli fyrir vel unnin störf sín,“ segir Schleicher.

Langtímahugsun skipti öllu máli

Schleicher nefndi í erindi sínu að menntamál væru flókin út frá sjónarhorni stjórnmálanna. Þau væru þess eðlis að þú gætir tapað kosningum á þeim ef staðan væri slæm, en að enginn gæti unnið kosningar út á menntastefnu, þar sem áhrif þeirrar stefnu sem tekin er í menntamálum koma seint fram. Í vestrænum lýðræðisríkjum reynist því oft erfitt að marka langtímastefnu, þar sem menntamálaráðuneytin skipta ört um hendur og ríkisstjórnir þvæla þau fram og til baka.

„Það er ein af ástæðunum fyrir því að ríki eins og Kína eru að skjótast fram með ógnarhraða. Þau segja: „Við erum með langtímamarkmið“ og ganga stöðugt á eftir þeim. Ef að þú verður menntamálaráðherra þar þá ertu hluti af þessu markmiðakerfi. En á Vesturlöndum og annarsstaðar þar sem ríkisstjórnir breytast ört, þá er þessi langtímahugsun ekki jafn sterk. Þú ert kosinn til fjögurra ára, og á fjórum árum getur þú ekkert gert. Þú kannski hendir spjaldtölvum inn í kennslustofurnar, en þú sérð engan árangur á fjórum árum,“ segir Schleicher og nefnir að meðalstarfstími í embætti menntamálaráðherra OECD-ríkjanna séu 18 mánuðir. Síðan er fólk farið í annað.

„Þetta verður svolítið eins og Mikado-leikur, þar sem þú reynir að hrófla við sem minnstu,“ segir Schleicher og bætir því við að með tilliti til þessa dáist hann að embættisverkum Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðhera, en þau tvö áttu fund í gærdag.

„Hún hefur sett langtímamarkmið inn í vinnuna, markmið sem hún mun ekki sjá uppfyllt á meðan að hún er í embætti. Ég sé allt of lítið af slíku gerast,“ segir Schleicher.

Höfum lausnirnar og úrræðin

Schleicher segir að á Íslandi, rétt eins og alstaðar annars staðar, sé hægt að beita þekktum leiðum til þess að bæta námsárangur og færa námið í það horf sem henti 21. öldinni og þeirri upplýsingabyltingu sem við höfum gengið í gegnum frá aldamótum, þar sem sífellt minna máli skipti að geta lært hluti utanbókar og æ veigameira verði að geta tileinkað sér upplýsingalæsi og hugsað eins og vísindamaður.

„Menntamál eru ekki geimvísindi,“ segir hann og bætir við að þau séu auðveld úrlausnar í samanburði við aðrar áskoranir sem mannkynið standi frammi fyrir, eins og til dæmis loftslagsvánna.

Fyrirlestur Schleicher fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun …
Fyrirlestur Schleicher fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun að viðstöddum mörgum áhugamönnum um menntamál. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að þar séu ekki skýrar lausnir og vandamálið er risavaxið. En menntun er viðráðanlegur vandi. Við höfum lausnirnar og úrræðin til þess að öll börn geti verið með afbragðsgóða kennara og fengið úrvalsmenntun,“ segir Schleicher, sem í starfi sínum ferðast mikið til aðildarríkja OECD og kynnir sér aðstæður nemenda og kennara.

Hann nefndi sérstaklega Víetnam sem ríki sem hafi staðið sig gríðarlega vel í PISA-könnunum og standi að skólastarfi með sóma, þrátt fyrir að þar séu ýmsar aðstæður uppi sem geri hlutina erfiðari en fyrir vestræn velmegunarríki á borð við Ísland.

„Þau hafa ekki peningana, það sem þau gera er að einbeita sér að verkefninu því að þau vita að skólakerfið þeirra í dag verður efnahagskerfið þeirra á morgun,“ segir Schleicher.

Schleicher segist meðvitaður um að á Íslandi sé brottfall úr …
Schleicher segist meðvitaður um að á Íslandi sé brottfall úr námi mikið miðað við margar aðrar þjóðir og segir að hér falli of margir nemendur í gegnum glufur í skólakerfinu, án þess að námserfiðleikum þeirra sé gefinn nægilega mikill gaumur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina