Leikreglur breytist í faraldrinum

Víðtækar rannsóknir á heilbrigðissviði hafa verið gerðar á Íslandi síðan …
Víðtækar rannsóknir á heilbrigðissviði hafa verið gerðar á Íslandi síðan faraldurinn hófst. AFP

Vís­indasiðanefnd hélt opið málþing um vís­inda­rann­sókn­ir á heil­brigðis­sviði á tím­um heimsfaraldurs kórónuveirunnar fyrr í dag. Framsöguerindi voru frá Ölmu D. Möller land­lækn­i, Vil­mundi Guðna­syni, for­stöðulækn­i Hjarta­vernd­ar og pró­fess­or við lækna­deild Há­skóla Íslands, Helgu Þóris­dótt­ur, for­stjóra Per­sónu­vernd­ar, Karli And­er­sen, hjarta­lækn­i og pró­fess­or við lækna­deild Há­skóla Íslands, Unn­i A. Valdi­mars­dótt­ur, pró­fess­or við Miðstöð í lýðheilsu­vís­ind­um og Kára Stef­áns­syni, for­stjóra Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar.

Alma fór yfir sögu faraldursins frá því sögur bárust af honum í Wuhan-héraði í Kína og til dagsins í dag og rakti hvernig „ekki ef, heldur þegar, næsti faraldur kemur verðum við enn betur í stakk búin til að fletja kúrfuna“.

Enginn afsláttur af persónuvernd

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, fór yfir að persónuvernd kæmi frá stjórnarskrárvörðum réttindum fólks til friðhelgi einkalífs og meðal markmiða er að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga. Hún velti upp spurningum um hvort máli skipti hvort heimsfaraldur ríki gagnvart leyfisveitingum á vinnslu með persónuupplýsingar. 

Almennt þurfa almannahagsmunir að liggja fyrir vísindarannsóknum þar sem vinna á með persónuupplýsingar. Niðurstaða Helgu er sú að ekki sé neinn afsláttur veittur af kröfum um vernd við vinnslu persónuupplýsinga en mikilvægt og hægt sé að vinna beiðnir hratt.

„Það er Persónuverndar að vera varnagli á stjórnarskrárvörðum réttindum okkar þegar kemur að vísindarannsóknum, ekki síst þegar þær fara fram án aðkomu/þátttöku einstaklingsins sjálfs,“ sagði Helga í niðurlagi sínu. 

Árangur Íslands fjórþættur

Karl Andersen, hjartalæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, fór yfir tölfræði faraldursins á Íslandi miðað við önnur lönd og dró fram gott gengi á Íslandi við að „fletja kúrfuna“ og vakti athygli á því að dánartíðni er lág vegna Covid-19-sjúkdómsins hér á landi.

Karl færði rök fyrir því að árangurinn væri fjórum meginstoðum að þakka: 

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi hafi staðist prófið. Að gjörgæslu- og smitsjúkdómadeild ásamt bráðamóttöku hafi verið vel undirbúin, sérstök Covid-göngudeild hafi skipt sköpum og heilsugæslan hafi staðið sterk.

Vísindasamfélagið hafi skilað sínu. Hann nefndi Miðstöð lýðheilsuvísinda og spálíkanið sem að Thor Aspelund prófessor í líftölfræði hefur farið fyrir, skimun Íslenskrar erfðagreiningar og vinnu Landspítala – háskólasjúkrahúss.  

Almannavarnir og að upplýsingagjöf til þjóðarinnar hafi verið skýr með daglegum upplýsingafundum hins svokallað þríeykis. Þá hafi smitrakning ríkislögreglustjóra leikið mikilvægt hlutverk.

Heilbrigðisyfirvöld hafi leitað til fagfólks, haft vísindamenn til ráðgjafar og farið hafi verið eftir ráðleggingum. Þá hafi vönduð ráðgjöf sóttvarnalæknis og landlæknis reynst vel. Síðast nefndi Karl heilbrigða pólitík á Íslandi sem hafi verið mikilvægur hlekkur.

Rannsókn eða ekki rannsókn?

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hóf erindi sitt á að segja að vísindasiðanefnd og Persónuvernd hafi staðið sig vel almennt þrátt fyrir að hann eigi það til að væla undan samskiptum við þær. 

Hann segir faraldurinn uppfylla allar skilgreiningar force majeure, óþekkts ástands, og þar af leiðandi breytist leikreglur. Hafa þurfi í huga hagsmuni samfélagsins í heild við ráðstafanir og geti þær verið harkalegar. 

Kári segir skimun eftir veirunni ekki hafa verið vísindarannsókn heldur öflun gagna til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar þrátt fyrir að Persónuvernd og vísindasiðanefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að skimunin væri rannsókn.

mbl.is