Pósthúsi lokað vegna myglu

Frá höfuðstöðvum Íslandspósts.
Frá höfuðstöðvum Íslandspósts. mbl.is/Hari

Pósthúsinu við Mjódd hefur verið lokað, að minnsta kosti út janúarmánuð, eftir að myglugró komu í ljós við úttekt á húsnæðinu. Niðurstöður úttektarinnar fengust á föstudag og var pósthúsinu lokað í lok þess dags.

Þetta kemur fram í svari Íslandspósts við fyrirspurn mbl.is.

Létu ekki vita af lokun

Þeir sem áttu sendingu á pósthúsinu, og höfðu áður fengið textaskilaboð frá Póstinum þess efnis, voru ekki látnir vita að pósthúsið hefði lokað. Þá voru þeir ekki látnir vita að sendingar til þeirra hefðu verið færðar annað.

Þetta olli því að fólk fór í einhverjum tilfellum tvívegis erindisleysu. 

Þannig veit mbl.is til þess að einstaklingur sem lagði leið sína á pósthúsið á mánudag til að sækja pakka greip í tómt, þar sem húsinu hafði þá verið lokað. Á miða sem límdur hafði verið á hurðina var fólki bent á að nálgast sendingar sínar á pósthúsið á Dalvegi í nágrannasveitarfélaginu Kópavogi.

Ekki hægt að sækja sendingar

Á Dalvegi var þó ekki endilega heldur hægt að nálgast sendingar, eins og ofangreindur einstaklingur komst að eftir að hafa gengið þangað frá Mjóddinni.

Á Dalvegi var honum tjáð að pakkinn væri enn ekki kominn á pósthúsið, öfugt við það sem staðið hafði á miðanum fyrr um daginn.

Því hefur ekki fengist svarað, af hverju Pósturinn ákvað að tilkynna ekki móttakendum sendinga um lokunina.

Í svari Póstsins segir þó að viðskiptavinir hafi fengið skilaboð um leið og sendingar þeirra voru skannaðar inn á pósthúsið við Dalveg. Í umræddu tilfelli bárust þau skilaboð skömmu fyrir hádegi á þriðjudag.

Kvartað undan þjónustu

Fjölmargir hafa á undanförnum misserum kvartað undan þjónustu Íslandspósts og vandamálum sem varða samskipti ríkisfyrirtækisins við þá sem eiga sendingar í fórum þess, eins og lesa má í svarþræði við tístið hér að neðan.

Í svari Íslandspósts við fyrirspurn mbl.is, um hvort að í ljósi þessa standi til að ráðast í einhvers konar yfirhalningu á samskiptum við viðskiptavini, er spurningunni í raun ekki svarað en þó segir þar eftirfarandi:

„Pósturinn sendir alltaf tilkynningar um sendingar í SMS skeyti ef símanúmer liggur fyrir og hvetur viðskiptavini til að skrá símanúmer inn á minn.postur.is og láta símanúmer fylgja þegar vörur eru keyptar í netverslunum. Þegar símanúmer liggur ekki fyrir þá er send tilkynning bréfleiðis þegar sending fer á pósthús, það tekur lengri tíma að fá slíkar tilkynningar enda hefur tíðni dreifingar bréfa minnkað á síðustu árum sökum miklar magnminnkunar.

Að því sögðu þá er mjög stutt í að nýtt app komi í loftið hjá okkur en þeir sem kjósa að nota það munu fá tilkynningar um sendingarnar sínar beint í gegnum appið sem mun stytta boðleiðina enn frekar. Við áætlum að appið komi í loftið á allra næstu vikum og munum að sjálfsögðu kynna það vel fyrir viðskiptavinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert