Vann 14 milljarða króna í Eurojackpot

Einn heppinn miðaeigandi datt í lukkupottinn í kvöld þegar hann hlaut fyrsta vinning í Eurojackpot og vann rúmlega 14 milljarða króna. Upphæðin verður þó líklega ekki greidd út í krónum þar sem miðinn var keyptur í Þýskalandi.

Sjö miðaeigendur hlutu annan vinning og fá þeir um andvirði 180 milljóna króna í sinn hlut. Miðarnir voru keyptir í Þýskalandi, Danmörku, Tékklandi og Svíþjóð. Þá voru 14 með þriðja vinning og fá þeir tæplega 15 milljónir króna í sinn hlut. Helmingur miðanna var keyptur í Þýskalandi, fimm í Finnlandi og aðrir í Póllandi og Ungverjalandi.

Enginn var með allar Jókertölur réttar í kvöld en sex voru með fjórar réttar tölur í röð. Fá þeir 100 þúsund krónur í sinn hlut.

mbl.is