Ekki enn búið að ráða nýjan yfirlækni

Jón Magnús Kristjánsson, fráfarandi yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum og verðandi …
Jón Magnús Kristjánsson, fráfarandi yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum og verðandi framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd. Sigurður Bogi

Ekki er búið að ráða nýjan yfirlækni bráðalækninga á Landspítala en greint var frá því síðdegis að Jón Magnús Kristjánsson hefði sagt upp störfum sem yfirlæknir í nóvember á síðasta ári. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, segir í samtali við mbl.is að búið sé að auglýsa eftir nýjum yfirlækni og að það ferli sé enn í gangi.

„Það er ekki búið að ráða nýjan yfirlækni, nei, en auglýsingin er farin út,“ segir Guðlaug. „Það var gert í kringum áramót,“ bætir hún við.

Að sögn Guðlaugar Rakelar mun Jón Magnús láta af störfum þann 1. mars næstkomandi, þó mögulega fyrr eigi hann einhverja frídaga inni.

Jón Magnús sagði við mbl.is fyrr í kvöld að hann hafi ákveðið að segja upp störfum í nóvember í fyrra, aðallega vegna þess að honum var boðið starf sem framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd. Jón Magnús hefur starfað á LSH í um 25 ár, þar af 5 ár sem yfirlæknir.

mbl.is