„Engin saga er of lítil eða stór“

„Í þessu verkefni langar mig að kalla eftir því jákvæða …
„Í þessu verkefni langar mig að kalla eftir því jákvæða svo við getum litið til baka á ljúfar minningar,“ segir Ingveldur Gröndal, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði. Ljósmynd/Aðsend

Ingveldur Gröndal, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði, skrásetur nú jákvæðar hliðar kórónuveirufaraldursins. „Engin saga er of lítil eða stór,“ segir Ingveldur sem vonar að samfélagið geti tekið það sem það lærði af faraldrinum með sér inn í komandi tíma án hans.

Hún óskar eftir sögum af jákvæðum afleiðingum faraldursins frá fjölbreyttum hópi fólks en sögurnar verða hluti af BA lokaverkefninu hennar, Þökk sé Covid.

„Fordæmalausir tímar bjóða upp á ný tækifæri og nýjar nálganir. Það var svo margt sem var hægt að gera þökk sé Covid þegar allt samfélagið fór í pásu, eitthvað sem við hefðum mögulega aldrei gert annars,“ segir Ingveldur.

Hún tekur fram að hún átti sig á því að faraldurinn hafi haft fjölþætt neikvæð áhrif.

„Honum fylgdi sorg og erfiðleikar. Í þessu verkefni langar mig að kalla eftir því jákvæða svo við getum litið til baka á ljúfar minningar.“

Þurfti að hugsa út fyrir boxið

Ingveldur lýsir sjálfri sér sem mjög virkri manneskju. Hún kannast sjálf við að hafa upplifað jákvæðar breytingar eftir að samfélagið fór í meiri hægagang.

„Ég þurfti að hugsa svolítið út fyrir boxið. Ég fór sjálf miklu að stunda meiri útivist,  ég lærði að hekla, fór að baka miklu meira en venjulega, prófaði að elda öðruvísi mat. Mér fannst ég fá  betri svefn varð fyrir minna áreiti og maður fór að hugsa hlutina svolítið öðruvísi og kunna betur að meta þessa litlu hluti. Það var svo margt sem við tileinkuðum okkur sem einstaklingar, þjóð og samfélag sem við viljum halda í,“ segir Ingveldur.

Nú þegar hafa nokkrar sögur borist Ingveldi. Hún segir að sumar þeirra hafi komið henni mikið á óvart. Heilt yfir séu sögurnar þó á þá leið að fólk hafi orðið heilbrigðara.

„Margir fóru að hugsa öðruvísi og hugarfarið varð heilbrigðara, stunduðu meiri útivist og meiri sköpun heldur en vanalega. Mikið æðruleysi skín í gegn um sögurnar,“ segir Ingveldur.

Margir hafa gripið til þess að stunda meiri útivist í …
Margir hafa gripið til þess að stunda meiri útivist í faraldrinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og áður segir stundar hún nám í tómstunda- og félagsmálafræði. Ingveldur segir um að ræða fjölbreytt nám og fræðisviðið vítt. „Við erum í raun bara að læra hver okkar ástríða er, vinna með fólki og hjálpa því að betrumbæta sig í frítímanum. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvað fólk fór að gera þegar það fékk meiri frítíma.“

Ingveldur segir að sögurnar megi vega hvernig sem er, hún taki á móti, stuttum og löngum frásögnum, myndum, myndskeiðum, ljóðum, smásögum, í raun því sem hentar hverri sögu fyrir sig. Sögur má senda í tölvupósti á takkcovid@gmail.com.

mbl.is