Lést á Landspítalanum í gærkvöldi

mbl.is/Sverrir

Seint í gærkveldi lést konan, sem var í bifreiðinni sem hafnaði í sjónum, á gjörgæsludeild Landspítalans. Hún hét Kamila Majewska og var á þrítugsaldri. Eiginmaður hennar og ungt barn njóta læknisaðstoðar í Reykjavík og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar um líðan þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

„Áður hefur verið upplýst um alvarlegt umferðarslys sem varð í gærmorgun þegar bifreið fór út af veginum í Skötufirði og hafnaði í sjónum, með þremur manneskjum innanborðs. Fjölskyldan sem í bílnum var, hjón með ungt barn, var flutt til frekari læknismeðferðar í Reykjavík, með þyrlum Landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Kamila og fjölskylda voru búsett á Flateyri og voru að koma frá Póllandi skömmu áður en slysið varð. „Lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar votta fjölskyldu og vinum Kamilu sína dýpstu samúð.

Eins og kom fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni í gær fór stór hluti viðbragðsaðila í úrvinnslusóttkví vegna aðkomu þeirra að lífsbjargandi aðgerðum. Á annan tug þeirra hafa dvalið, síðan í gær, í sóttvarnahúsi sem opnað var í Önundarfirði. Vonir standa til að niðurstaða fáist síðar í dag um hvort hægt sé að aflétta sóttkvínni,“ segir ennfremur í tilkynningu.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert