Fjölskyldan undir læknishöndum í Reykjavík

Al­var­legt bíl­slys varð á Djúp­vegi í Skötuf­irði um tíu­leytið í …
Al­var­legt bíl­slys varð á Djúp­vegi í Skötuf­irði um tíu­leytið í morg­un. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum segir að fjölskyldan sem var um borð í bifreið sem hafnaði í sjónum við Djúpveg í vestanverðum Skötufirði í dag sé nú komin undir læknishendur í Reykjavík. Einn úr fjölskyldunni mun vera í betra ástandi en hinir tveir. 

Fjölskyldan, pólskt par og barn þeirra, var flutt með þyrlu til Reykjavíkur fyrr í dag. Um tuttugu viðbragðsaðilar eru komnir í sóttkví eftir að hafa meðhöndlað fólkið á vettvangi, en fjölskyldan kom til landsins í nótt og var á leið heim í sóttkví fyrir síðari sýnatöku. Fjölskyldan er búsett á Flateyri. 

„Þetta fólk sem var í bílnum, ökumaður og tveir farþegar, var flutt með þyrlu til Reykjavíkur. Tveir eru enn undir læknishöndum en sá þriðji er í betri aðstæðum,“ segir Hlynur. 

Ekki liggur fyrir hver tildrög slyssins voru. 

„Það er bara til rannsóknar. Bíllinn hefur farið út af veginum og út í sjó. Við fáum tilkynningu klukkan 10:16 frá vegfarendum sem komu þarna að og þeir byrjuðu strax björgunaraðgerðir. Fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang um klukkustund eftir að tilkynning barst,“ segir Hlynur. 

Lögregla telur að fjölskyldan hafi ekki verið lengi í sjónum áður en henni var bjargað. 

„Það er ekki vitað nákvæmlega hvenær bíllinn fór út af, en við teljum að það hafi verið nokkur umferð í Djúpinu svo við teljum ekki að þau hafi verið lengi í vatninu,“ segir Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert