Geyma ekki bóluefni fyrir seinni skammtinn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þó hver og einn þurfi tvo skammta af bóluefni til þess að hljóta vernd gegn Covid-19 verður fólk nú bólusett með öllum þeim skömmtum sem berast framvegis og því ekkert geymt fyrir seinni bólusetninguna. Þetta er vegna þess að viðbúið er að bóluefnaskammtar berist jafnt og þétt til landsins á næstunni.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þegar fyrstu 10.000 skammtar bóluefnis við Covid-19 komu hingað til lands voru einungis 5.000 þeirra notaðir og 5.000 geymdir fyrir seinni bólusetningu hópsins sem hlaut fyrstu bólusetninguna. Það hefur nú breyst. Þegar skammtarnir 1.200 komu frá Moderna voru þeir allir notaðir og því ekkert eftir fyrir seinni bólusetningu hópsins. Ætlunin er að hafa þann háttinn á framvegis.

5.000 fá seinni bólusetninguna í vikunni

3.000 skammtar af bóluefni Pfizer komu til landsins í morgun en þeir verða nýttir til þess að bólusetja 3.000 einstaklinga sem eru 70 ára og eldri. Sá aldurshópur verður bólusettur í heild sinni áður en aðrir hópar eru bólusettir, eins og staðan er í dag í það minnsta.

„Bólusetningin mun halda áfram í vikunni þar sem tæplega 5.000 einstaklingar á hjúkrunar- og öldrunarheimilum og framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni munu fá sína seinni bólusetningu,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi dagsins.

„Jafnframt munu einstaklingar í okkar elsta aldurshópum fá sína fyrstu bólusetningu en sá skammtur kom til landsins núna í morgun. Við höfum sett samráðshóp á laggirnar til þess að birta leiðbeiningar um bólusetningu þeirra sem eru með sögu um ofnæmisviðbrögð og vonandi náum við að birta þær leiðbeiningar í dag eða á allra næstu dögum.“

Frá bólusetningu í Englandi nýverið.
Frá bólusetningu í Englandi nýverið. AFP

Klára að bólusetja 70 ára og eldri fyrst

Spurður hvort fólk með undirliggjandi sjúkdóma muni fá bólusetningu bráðlega sagði Þórólfur:

„Við munum klára hópinn yfir 70 áður en við förum í aðra hópa. Það gildir þá líka um þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma nema við fáum eitthvað meira af bóluefni en við teljum að við munum fá.“

Íslensk stjórnvöld hafa gert samninga við fleiri lyfjafyrirtæki en Pfizer og Moderna. Þannig var samningur upp á 230.000 skammta gerður við AstraZeneca. Þórólfur sagði að Lyfjastofnun Evrópu stefndi að því að taka ákvörðun um markaðsleyfi bóluefnis AstraZeneca við Covid-19 í lok mánaðar, líklega 29. janúar.

Þegar 10.000 skammtar af bóluefni bárust hingað til lands var tekin ákvörðun um að bólusetja einungis 5.000 manns með því en ekki 10.000 svo enn væru til 5.000 skammtar til þess að fullklára bólusetninguna að þremur vikum liðnum.

„Það höfum við ekki gert með Moderna bóluefnið, við fengum 1.200 skammta í síðustu viku og bólusettum 1.200 manns. Það gerum við líka núna með bóluefninu frá Pfizer, þessa 3.000 skammta, vegna þess að við búumst við því núna að aðföngin verði jafn dreifð næstu vikur. Við hefðum lent í vandræðum með fyrstu 10.000 skammtana ef við hefðum ekki gert þetta svona svo þetta hefur bara gilt um fyrstu skammtana,“ sagði Þórólfur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert