Bentu á „glæruna“ í Skötufirði dögum fyrir slysið

Vöruflutningabílstjóri með áratuga reynslu segir að Vegagerðin hafa illa sinnt þeim kafla þar sem banaslysið varð í Skötufirði. Ítrekað hafi vöruflutningabílstjórar bent á að vegkafli sem tiltekur Skötufjörð og Álftafjörð og Reykjafjörð sé illa sinnt. Engu líkara sé en þessi vegkafli á Djúpvegi mæti afgangi hjá Vegagerðinni. 

Finna bílstjórar mikinn mun á því hvernig málum er sinnt eftir því hvort um sé að ræða verktaka á vegum Vegagerðarinnar á Hólmavík annars vegar og verktakar sem sinna vegkaflanum frá Ísafirði hins vegar.Skil verði þegar umdæmi Ísafjarðar tekur við á Reykjanesi. Engu líkara sé en verktökum sé snúið við í Hestfirði og vegkafli Djúpvegs sem nær frá Hestfirði að Reykjanesi sé glerháll en mun betra ástand sé frá Seyðisfirði að Ísafirði. Þetta sé „alþekkt“ meðal vöruflutningabílstjóra.

Bílstjórinn sem mbl.is ræddi við vill ekki koma fram undir nafni. Segir hann ástæðuna vera þá að það vilji enginn lenda upp á kant við Vegagerðina. Taka ber fram að mbl.is ræddi einnig við tvo aðra ótengda flutningabílstjóra sem tóku í sama streng og viðmælandinn. 

Djúpvegur.
Djúpvegur.

Sagt að það þyrfti ekki að sinna frekari hálkuvörn 

Á miðvikudagskvöld í síðustu viku hafði bílstjóri samband við Vegagerðina þar sem bent var á „glæruna“ á Djúpavegi frá Reykjafirði að Seyðisfirði í Djúpinu. Hvatti hann Vegagerðina til þess að sinna hálkuvörn en að sögn bílstjórans fékk hann þau skilaboð að þess þyrfti ekki. „Á sama tíma og okkur var sagt að ekkert væri hægt að gera var bíllinn sem fór frá Hólmavík og tók Steingrímsfjarðarheiðina og að Reykjanesi að skila sér til baka klukkan 11 um kvöldið. Þeir fóru ekkert frá þessu fyrr en allt var í lagi,“ segir bílstjórinn.

Að sögn bílstjórans var því að mestu glerhált fram á föstudag. Bílstjórinn var ekki á ferð á laugardag og því gat hann ekki fullyrt um aðstæður þegar slysið varð. Hins vegar hefur komið fram í fréttaflutningi að mjög hált hafi verið á slysstaðnum. 

Telur bílstjórinn að oft sé einungis hluti Djúpavegs hálkuvarinn.
Telur bílstjórinn að oft sé einungis hluti Djúpavegs hálkuvarinn. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Hann segir það sérstaklega áberandi hve vel málum er sinnt frá Hólmavík þar sem verktakar á vegum Vegagerðarinnar sjá m.a.um hálkuvörn á Steingrímsfjarðarheiði að Reykjanesi. „Ísafjarðarmegin virðist sem bílunum sem sinna þessu sé oft snúið við þegar þeir eru búnir að fara Álftafjörð, Seyðisfjörð og Hestfjörð að hluta en láta svo Skötufjörð og Mjóafjörð alveg eiga sig. Oft finnst manni að þeir megi klára svæðið sitt. Það var tilfellið í síðustu viku. Þeir eiga að sinna svæðinu allt að Reykjanesi inn að Látrum,“ segir hann.“

Hann segir að eftir slysið sem varð á laugardag hafi Vegagerðin Ísafjarðarmegin sinnt málum betur og nú sé svæðið allt hálkuvarið.

Keðjurnar spæna upp veginn 

Bílstjórinn segir að það sé alþekkt að vöruflutningastjórar velji að keyra á keðjum þegar þeir fara á Ísafjörð. Ekki sé um annan kost að ræða vegna aðstæðna sem geta skapast í fjörðunum sem liggja að Ísafirði. Margsinnis hafi verið bent á þann kostnað sem fylgir því að spæna upp vegina með þeim hætti og því velt upp hvort það kosti ekki meira en að salta eða sanda vegina. Slíkar vangaveltur hafi verið fyrir daufum eyrum hjá Vegagerðinni.

Flutningabíll á þjóðveginum.
Flutningabíll á þjóðveginum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fyrirmæli um að salta eingöngu beygjur og brekkur 

„Sama á við þegar það er snjókoma. Þá fara verktakarnir Ísafjarðarmegin oft bara Seyðisfjörðinn og láta það duga og fara svo ekkert inn í Djúpið. Svo hlánar og þá eru menn með þykkan svellbunka sem þeir ráða ekkert við. Þetta er eiginlega alveg fáránlegt,“ segir bílstjórinn.

Verktakar á vegum Vegagerðarinnar á Ísafirði fá þau fyrirmæli að þeir eigi eingöngu að salta beygjur og brekkur. „Það er undarlegt í ljósi þess að það er alveg jafn mikil hálka á beinu köflunum. Þetta verður eins og skautasvell,“ segir bílstjórinn. 

Vegkaflinn þar sem slysið varð á laugardag í Skötufirði er á beinum kafla eftir aðlíðandi beygju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka