„Getum ekki aukið þjónustu umfram reglur“

Reglur um snjómokstur hjá Vegagerðinni geta verið flóknar.
Reglur um snjómokstur hjá Vegagerðinni geta verið flóknar. Ljósmynd/Vegagerðin

„Þessi vegkafli tilheyrir þjónustustigi 3 sem er frekar lágur þjónustuflokkur. Það helgast af því að þarna fara ekki nema um 100 bílar á dag,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar spurður um Djúpveg í Ísafjarðardjúpi þar sem banaslys varð í Skötufirði síðastliðinn laugardag. 

G Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
G Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Auk þess sem ólíkt þjónustustig er eftir vegköflum á landinu er sögn G. Péturs einnig ólíkt viðbragð hjá Vegagerðinni eftir því hvort ástand sé metið hált eða flughált. Fram kom í máli bílstjóra sem mbl.is ræddi að það sé upplifun flutingabílstjóra að vegkaflinn á milli Álftafjarðar og Reykjanes sé síður sinnt en aðrir vegkaflar í umdæmi Vegagerðarinnar á Ísafirði. „Varðandi upplifun manna af hálku þá breytast aðstæður rosalega hratt á Íslandi eins og menn þekkja. Sértaklega í tíðarveðri þar sem skiptist á bleyta og snjór,“ segir G. Pétur. 

Milljarðs króna halli á vetrarþjónustu

Hann segir að reynt sé að bregðast við því ef ábendingar berast um flughálku. „En við verðum að fara eftir þjónustustiginu. Við höfum takmarkað fé og nýtum það eftir aðstæðum á öllu landinu. Það varð tæplega milljarðs kr. halli á vetrarþjónustunni í fyrra og við getum ekki aukið þjónustu umfram reglurnar,“ segir G. Pétur. 

Hann bendi á að þó unnið sé á hálku, þá líði oft ekki langur tími þar til aðstæður breytast.

Hér má sjá hvar hálkuvörn er beitt á Djúpvegi. Mismunandi …
Hér má sjá hvar hálkuvörn er beitt á Djúpvegi. Mismunandi viðbúnaður er eftir því hvort aðstæður eru metnar hálar eða flughálar. Engin hálkuvörn er þar sem svörtu línurnar eru. Þar er þó snjómokstur.

Eins og tilgreint er á meðfylgjandi korti eru beygjur og brekkur á Djúpvegi í Ísafjarðardjúpi hálkuvarðar en engin hálkuvörn er á beinum köflum. „Á beinu köflunum er eingöngu mokað en engin hálkuvörn,“ segir G. Pétur. 

Svo virðist sem menn hafi saltað og sandað betur eftir slysið. Er það rétt?   

„Já, ég held að menn hafi farið svolítið út fyrir reglur út af ástandinu,“ segir G. Pétur. 

Uppfærð árétting 12:42 20.01.

G. Pétur segir að menn á vegum Vegagerðarinnar hafi þegar í síðustu viku farið út og sinnt hálkuvörn umfram reglur vegna ástandsins sem skapaðist.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert