Synjað um aðgang að bóluefnasamningum

Gunnar Bragi þingmaður.
Gunnar Bragi þingmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðisráðuneytið hefur neitað Gunnari Braga Sveinssyni þingmanni um aðgang að samningum sem ríkið hefur gert við lyfjaframleiðendur um kaup á bóluefni við Covid-19. Í bréfi til Gunnars Braga vísar ráðuneytið til upplýsingalaga og segir erindið falla undir takmarkanir á upplýsingarétti.

Segir í bréfinu að hvorki aðildarríki ESB né Noregur hafi afhent sambærilega samninga og að það sé mat ráðuneytisins að slík afhending geti spillt samskiptum við lyfjaframleiðendur.

„Mér finnst náttúrulega alveg dæmalaust að ráðuneytið skuli vitna í upplýsingalög þegar um er að ræða þingmann sem setur á Alþingi Íslendinga, kjörinn fulltrúa, sem á vitanlega rétt á að fá upplýsingar til að geta veitt framkvæmdavaldinu rannsóknaraðhald. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhvers konar tafarleikur eða eitthvað slíkt,“ sagði Gunnar Bragi í samtali við mbl.is og bætir við að hann skilji ekki af hverju það sé verið að halda þessu leyndu. 

„Mikilvægt að Íslendingar séu upplýstir"

Gunnar Bragi hefur hugsað sér að fara með málið lengra. „Ég hef sent yfirstjórn þingsins tölvupóst og beðið um leiðbeiningar um hvernig ég eigi að nálgast þessi gögn fyrst að þetta er svarið frá ráðuneytinu,“ segir Gunnar Bragi og ítrekar að það sé hluti af starfi hans að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu.

„Mér finnst mjög mikilvægt að Íslendingar séu upplýstir um hvernig stjórnvöld sömdu fyrir þeirra hönd,“ sagði Gunnar Bragi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert