Þreyta og slæm færð skapi brýna nauðsyn

Sig­ur­geir Sig­munds­son yf­ir­lög­regluþjónn flugstöðvardeildar.
Sig­ur­geir Sig­munds­son yf­ir­lög­regluþjónn flugstöðvardeildar. Ljósmynd/Almannavarnir

Sig­ur­geir Sig­munds­son, yf­ir­lög­regluþjónn flugstöðvardeildar, segir að í bæklingi sem allir ferðamenn fá við komuna til landsins sé alveg skýrt að að þeir hafi heimild til að gista í eina nótt nálægt flugstöðinni áður en haldið er á sóttkvíarstað ef brýna nauðsyn beri til. Hann telur að þreyta og léleg færð falli undir brýna nauðsyn.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í morgun hefur Jóhann Sigurjónsson læknir á Ísafirði gagnrýnt framkvæmd sóttvarnareglna á flugvellinum. Hann sagðist hafa farið þrisvar sinnum um flugvöllinn síðan núverandi reglur um tvöfalda skimun með 5-6 daga sóttkví á milli tóku gildi. Í öll skiptin hafi hann fengið sömu skilaboðin frá landamæravörslunni, að keyra beint til Ísafjarðar, ekki hvílast áður en af stað er haldið.

Umræðan dragi valkostinn vonandi fram í dagsljósið

Þrátt fyrir að Sigurgeir kannist ekki við það að landamæraverðir mælist til þess að fólk fari beint á sóttkvíarstað þó hann sé langa vegalengd frá flugstöðinni fagnar hann umræðu um málið. Með henni verði vonandi skýrara að fólk megi gista nærri flugstöðinni í eina nótt.

„Við komum því á framfæri sem sóttvarnalæknir leggur til. Við afhendum öllum ferðamönnum sem koma til landsins bækling á átta tungumálum og þetta er alveg skýrt í þeim bæklingi. Þar segir að ef brýna nauðsyn beri til megi gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví,“ segir Sigurgeir.

Orðrétt eru upplýsingarnar í bæklingnum eftirfarandi:

„Um leið og farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví. Þegar sýnatöku á landamærastöðinni er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Nota má flugrútu frá flugvelli. Í flugrútu og leigubíl skal nota grímu. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.“

Ætlar að hafa listann tilbúinn

Sigurgeir bendir á að listi yfir gististaði sem bjóða gistingu fyrir fólk í sóttkví sé aðgengilegur á Covid.is. Sá listi hangi einnig í flugstöðinni.

„Það er gott að fá þessa umræðu upp til þess að þetta komist á hreint. Ef við getum gert eitthvað betur á Keflavíkurflugvelli til þess að koma þessu á framfæri þá gerum við það að sjálfsögðu. Ég er að hugsa um að prenta [listann yfir hótelin sem bjóða sóttkvíar-gistingu] út núna svo það sé hægt að afhenda hann ef fólk ber það upp við okkur. Við vitum ekkert hvert fólk er að fara eða hversu langt nema það beri það upp við okkur. Þá ætlum við að hafa þennan lista, eða tengilinn á hann tilbúinn,“ segir Sigurgeir.

Er brýn nauðsyn bara ef vegir eru lokaðir eða líka ef fólk er þreytt og treystir sér ekki í ferðalag á sóttkvíarstað?

„Það liggur engin skilgreining á bak við það. Ef fólk er að koma úr löngu ferðalagi og á langt ferðalag fyrir höndum þá kalla ég það brýna nauðsyn. Það er alls ekki gott að fara illa þreyttur eða ósofinn í langa ökuferð,“ segir Sigurgeir.

Skipti ekki máli að geta skráð fleiri sóttkvíarstaði

Ef rétt reynist að landamæraverðir mælist til þess að fólk fari beint á sóttkvíarstað þrátt fyrir að það sé illa upp lagt fyrir heimferðina eða færðin slæm segir Sigurgeir að það verði lagfært. Hann hafi þó ekki heyrt af slíku.

„Fyrst og fremst afhendum við fólki þennan bækling og biðjum það um að lesa hann. Við flettum jafnvel upp á þær síður þar sem tungumál viðkomandi er. Bæklingurinn er á átta tungumálum. Á hverjum einasta degi er fullt af farþegum sem við getum ekki átt samtal við vegna tungumálaörðugleika en sjáum á vegabréfum hvaðan þeir eru og þá beinum við þeim á þær síður í bæklingnum.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í morgun að fólki væri í sjálfvald sett hvað það gerði eftir að það hefði fengið fyrrnefndan bækling í hendurnar. „Við getum ekki alveg stjórnað því,“ sagði Þórólfur.

Spurður hvort það hefði komið til skoðunar að leyfa fólki að skrá fleiri en einn sóttkvíarstað, og hafa þá hvorn sóttkvíarstað bundinn við ákveðna daga, sagði Þórólfur að það myndi í raun engu máli skipta. Mikilvægast væri að fólk mætti gista í eina nótt nálægt flugstöðinni áður en heim væri haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert