„Gengur illa á Yarisnum“ fyrir norðan

„Þegar það er kominn svona metri í göturnar, þá náttúrulega gengur illa á Yarisnum,“ segir Jón Hansen, verkstjóri í snjómokstri á Akureyri. Þar hefur verið unnið á 33 tækjum við snjómokstur í dag. Þó nokkrir lentu í vandræðum á leið til vinnu í morgun og fresta þurfti sorphirðu. Snjó hefur kyngt niður síðustu daga og í ofanálag hefur verið vindasamt og skafrenningur á köflum sem gerir moksturinn krefjandi. 

Í myndskeiðinu má sjá myndir sem Þorgeir Baldursson tók á götum Akureyrarbæjar í morgun þegar verið var að moka göturnar.

Talsverð vinna er fram undan að sögn Jóns en ekki er útlit fyrir frekari snjókomu næstu daga sem ætti að auðvelda starfið á götum Akureyrarbæjar. Um hádegisbil náðist að ryðja veginn upp í Hlíðarfjall sem er opið til kl. 19 í kvöld þar sem færið mun vera gott. Efra svæðið í fjallinu er þó lokað vegna snjóflóðahættu.

mbl.is