Nokkur peningafölsunarmál til rannsóknar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með nokkur peningafölsunarmál til rannsóknar en undanfarið hefur verið tilkynnt um falsaða peningaseðla, bæði 5.000 og 10.000 króna seðla, auk evruseðla. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.

Þar beinir lögreglan þeim tilmælum til afgreiðslufólks að vera á varðbergi vegna þessa og hvetur jafnframt til þess að þeir sem eru í afgreiðslustörfum kynni sér helstu öryggisþætti íslenskra peningaseðla á heimasíðu Seðlabanka Íslands, en með þær upplýsingar að leiðarljósi á að vera auðvelt að greina á milli falsaðra og ófalsaðra peningaseðla.

Á vef evrópska seðlabankans koma jafnframt fram upplýsingar um hvernig skoða megi evruseðla til að meta hvort þeir séu falsaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka