Hefur beðið í þrjú ár án þess að vera á listanum

„Ég þarf að komast í þessa aðgerð, ég er tifandi …
„Ég þarf að komast í þessa aðgerð, ég er tifandi tímasprengja,“ skrifar Þórdís sem er hér til vinstri. Samsett mynd

Landspítali týndi í tvígang, eða gerði aldrei, beiðni fyrir konu sem hefur beðið í þrjú ár eftir brjóstnámi og uppbyggingu brjósta. Hún hefur því beðið í þrjú ár án þess að vera nokkurn tímann sett á biðlista.

Konan heitir Þórdís Brynjólfsdóttir. Hún tjáði sig um málið á Facebook í dag og veitti mbl.is leyfi til þess að segja frá hennar reynslu. Vísir greindi fyrst frá.

Þórdís er í áfalli vegna málsins en hún greindist með krabbamein í öðru brjóstinu fyrir níu árum síðan og hefur því annað brjóst hennar þegar verið fjarlægt. Þá kom í ljós að hún væri með BRCA-genið sem eykur líkur á brjóstakrabbameini verulega.

„Ég er tifandi tímasprengja“

„Ég þarf að komast í þessa aðgerð, ég er tifandi tímasprengja, með BRCA stökkbreytingu ennþá með hitt brjóstið. Þessi bið hefur haft mikil áhrif á mig, við höfum frestað brúðkaupinu okkar í tvígang vegna þessa og þetta hefur eyðilagt fyrir okkur frekari barneignir, og öll sálrænu áhrifin sem þetta hefur á mann, að hafa þetta hangandi yfir sér,“ skrifar Þórdís.

Þungun getur komið veikindum af stað hjá konum með BRCA gen og því hefur hún frestað barneignum þar til eftir aðgerðina. Að auki má hún ekki verða barnshafandi á næstu tveimur árum eftir hana.

Þórdís komst fyrst að því í febrúar eða mars í fyrra að engin beiðni hefði verið gerð fyrir hana eða þá að hún hefði týnst. Þá fékk hún afsökunarbeiðni frá nokkrum starfsmönnum spítalans. Einnig fékk hún þau skilaboð að hún færi fremst á listann þegar aðgerðirnar færu aftur af stað eftir kórónuveirufaraldurinn.  

Svekkt, leið og reið

Í dag ákvað hún að leita upplýsinga um stöðu sína á biðlistanum og komst þá að því að aftur hafði beiðnin týnst eða hún aldrei verið gerð.

„Konan sem ég talaði við í dag var dóni, ónærgætin og hrokafull. Hún hló í símann þegar ég sagðist ætla með þetta mál lengra ef ég þyrfti þess út af þessu klúðri. Grátandi í símann þá sagði ég við hana að þetta væri ekki fyndið. Þá sagði hún „nei nei, en hringdu í mig aftur á mánudaginn“,“ skrifar Þórdís.

„Ég hef tæklað þetta allt svo vel hingað til, bara tekið því með æðruleysi að vera með eitt brjóst sem er andleg áskorun fyrir unga konu og ekki alltaf auðvelt. Ég hef sýnt þolinmæði og elskað sjálfa mig eins og ég er. Núna fyrst, eftir 8 ár labbaði ég á vegg í boði Landspítalans og starfsmanns sem er ekki starfi sínu vaxinn, hún má skammast sín. Ég er búin að grenja úr mér augun í dag er svo ótrúlega sár, svekkt og leið og svo svakalega reið,“ segir Þórdís.

Hún bætir því við að hún hafi ekki fengið boðanir í brjóstamyndatöku og segulómun í 3 ár. „Ég hef sjálf þurft að hringja og panta tíma, sem ég á ekki að þurfa að gera. Sem BRCA arfberi á ég að fá þessar boðanir á 6 mánaða fresti og vera í stöðugu eftirliti út lífið. Ég athugaði þetta í gær og hvað haldið þið? Beiðnin mín er ekki virk,“ skrifar Þórdís.

Hún ætlar að senda landlækni bréf vegna málsins.

mbl.is