Segir óttann stjórna

María Hjaltadóttir ásamt kærasta sínum, hinum sænska Christofer Bocker, handritshöfundi …
María Hjaltadóttir ásamt kærasta sínum, hinum sænska Christofer Bocker, handritshöfundi og leikritaskáldi sem vinnur að gerð listrænnar heimildarmyndar um landamæri Noregs og Svíþjóðar sem nú eru lokuð í fyrsta sinn síðan Noregur var undir stjórn hernámsliðs nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Ljósmynd/Aðsend

„Landamæri Noregs og Svíþjóðar eru þau lengstu í Evrópu og aðskilja fjölskyldur, vini, kærustupör og fólk sem eðli málsins samkvæmt þarf að ferðast á milli landanna til að umgangast hvert annað,“ segir María Hjaltadóttir, rúmlega þrítugur grunnskólakennari í Hamar í Noregi, í samtali við mbl.is um harðorða grein sem birtist eftir hana á sunnudaginn á lesendasíðunni Meninger, eða Skoðanir, í vefútgáfu norska dagblaðsins VG.

Í greininni, sem ber yfirskriftina Kjærligheten kjenner ingen grenser, eða Ástin þekkir engin landamæri, gagnrýnir María norsk stjórnvöld fyrir síbreytilegar sóttvarnareglur sem fæstir nái orðið að fylgjast með á meðan öll manneskjuleg gildi eigi undir högg að sækja í frumskógi smittölfræði og nýrra reglna.

Þungamiðjan í áfellisdómi hennar er þó sú mismunun sem ógift pör sæti nú miðað við gift fólk í nýjustu sóttvarnareglum sem snúa að ferðum yfir norsk-sænsku landamærin, en handan þeirra á María sænskan kærasta, handritshöfundinn og leikritaskáldið Christofer Bocker sem búsettur er í sænska léninu, eða sýslunni, Värmland, örskammt frá norsku landamærunum.

Sér ekki muninn

„Ég er með barn hér og Christofer er með tvö, aðstæðurnar eru þannig að hann á auðveldara með að koma hingað að heimsækja mig, en honum er hins vegar ekki hleypt inn í landið vegna þess að við erum ekki gift, við erum bara kærustupar, en maður sér ekki alveg hver munurinn er þar í sóttvarnalegu tilliti,“ segir María og tekur skýrt fram að auðvitað sé hún fylgjandi sóttvarnareglum í faraldrinum, bara ekki hvað þennan mannamun varðar.

Samkvæmt reglum norskra stjórnvalda sem tóku gildi á miðnætti aðfaranótt föstudags, eftir að hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar stakk sér niður í Skandinavíu, nýtur aðeins nánasta fjölskylda undanþágu frá landamæralokuninni, það er fólk sem er gift eða skráð sambúðarfólk auk foreldra og stjúpforeldra barna.

„Nú hafa landamærin verið lokuð meira og minna frá því í mars fyrir utan stutt tímabil í sumar og svo bætast þessar reglur við sem gera hjúskap að skilyrði sem var eiginlega dropinn sem fyllti mælinn og þá fannst mér ég bara verða að skrifa eitthvað,“ segir María sem einnig er félagi Facebook-hópsins Oss med familie eller kjæreste i utlandet under Covid-19, eða Við sem eigum fjölskyldu eða kærustu/kærasta erlendis í Covid-19, sem er 7.300 manna samfélag þegar þetta er skrifað.

María telur óttann hafa verið ráðandi afl í Noregi síðan …
María telur óttann hafa verið ráðandi afl í Noregi síðan Covid-skugginn lagðist yfir land og þjóð fyrir tæpu ári, öll umræða um manneskjuna, líðan hennar og sálarheill falli í skuggann af smittölfræði og reglum sem breytist svo ört að fæstir viti frá degi til dags hvað megi og ekki megi. Ljósmynd/Aðsend

„Við sem eigum kærasta eða kærustu handan landamæranna og vitum að við erum ósýnileg nögum neglurnar og spyrjum okkur hverju yfirvöld finni upp á næst. Hvenær taka nýjar reglur gildi? Hve lengi gilda þær? Hve mikið verra getur þetta orðið?“ eru inngangsorð greinar Maríu sem svo heldur áfram og segir norsk yfirvöld geta gert það sem þeim þóknist fyrirvaralaust og án þess að sauðsvartur pupullinn fái rönd við reist. „Enginn veit neitt – og alltaf getur það versnað.“

Reglur og tölfræði alltumlykjandi

Versta segir hún þó óvissuna og þær öru breytingar sem norsk stjórnvöld geri á sóttvarnareglum og hefur þar nokkuð til síns máls eins og nýlegt dæmi sýnir um lokun vínbúða í Ósló og nágrenni frá og með laugardeginum 23. janúar að fyrirmælum heilbrigðisráðherra, en ekki leið nema sólarhringur þar til hann féll frá því banni fyrir bænastað bæjarstjóra nágrannasveitarfélaganna þar sem langar biðraðir mynduðust við áfengisútsölur og áfengissala á landsvísu jókst um 77% miðað við helgina áður.

„Markmiðið með þessum Facebook-hópi er að berjast fyrir réttindum fólks sem á ættingja eða aðra ástvini í öðrum löndum, sem fá ekki að koma hingað, auk þess bara að styðja hvert annað á erfiðum tímum,“ segir María, „fjölmiðlar eru alltaf fullir af nýjustu reglunum og nýjustu tölfræðinni, hve margir smituðust síðasta sólarhringinn og hve margir eru látnir á meðan mjög lítið er fjallað um fólkið sjálft og hvaða áhrif þetta ástand hefur á fjölskyldur, pör, börn og ekki síst ástvini sem búa ekki í sama landi af einhverjum ástæðum,“ heldur hún áfram.

Horft á haf út í Gautaborg í Svíþjóð fyrir kórónufaraldur. …
Horft á haf út í Gautaborg í Svíþjóð fyrir kórónufaraldur. Nú eru hin rúmlega 1.600 kílómetra löngu landamæri nágrannaríkjanna lokuð og verslunarferðir Norðmanna yfir til ódýra nágrannalandsins hafa legið niðri síðan í fyrrasumar. Ljósmynd/Aðsend

Í hennar tilfelli sé það reyndar ekki bara kærastinn sænski sem hún geti ekki hitt því faðir hennar býr einnig í Svíþjóð, en María er dóttir Hjalta Rögnvaldssonar, leikara og þýðanda, og Önnu Rögnvaldsdóttur, fiðluleikara og -kennara, sem þó býr í Noregi, í hinum sögufræga bæ Eidsvoll, þar sem Norðmenn settu sér sína fyrstu stjórnarskrá árið 1814.

„Hinir“ eru hættulegir

„Mér finnst þetta líka vera svolítið „við og þau“ hérna í Noregi,“ segir María, „sérðu bara hvernig þetta er á Íslandi þar sem landinu hefur aldrei verið lokað heldur gripið til sóttvarnaráðstafana út frá þeirri þekkingu sem fyrir liggur á veirunni, þar tala sóttvarnayfirvöld um að halda veirunni úti, en hérna finnst mér þetta snúast meira um að halda ákveðnum hópum af fólki úti sem ekki byggist alltaf á þekkingu, til dæmis hafa útlendingar sem hingað koma vegna vinnu fengið undanþágur frá sóttkví. Þessi munur finnst mér afgerandi, hérna í Noregi eru það „við“ og „hinir“ og það eru þessir hinir sem eru hættulegir,“ segir grunnskólakennarinn alvarlegur í bragði.

Hvernig finnst Maríu, sem hefur búið í Noregi alla sína tíð, Norðmenn hafa tekist á við þann vágest sem kórónuveiran er, það tæpa ár sem hún hefur geisað í Noregi?

„Mér finnst óttinn hafa ráðið svolítið ríkjum hér og alla umræðu hafa skort á öðrum sviðum en bara því sem lýtur að því hve duglegur almenningur er að fylgja öllum reglum út í æsar,“ segir hún ómyrk í máli. „Ég hefði viljað heyra og sjá mun meiri og opnari umræðu um áhrifin á þjóðfélagið sjálft og á fólkið, okkur manneskjurnar.

Þetta hefur reyndar örlítið verið að breytast núna upp á síðkastið, núna finnst mér aðeins meiri umræða í gangi og fólk er farið að spyrja gagnrýninna spurninga þegar enn einar reglurnar eru settar,“ segir María og bætir því við að tölfræði yfir nýsmit, dauðsföll og sjúkrahúsinnlagnir segi ósköp lítið um hina raunverulegu líðan fólksins í landinu.

Útgöngubann skelfileg tilhugsun

Um mánaðamótin lauk umsagnarfresti um frumvarp til laga um útgöngubann í samráðsgátt norskra stjórnvalda og mátti greina mikla andstöðu í umsögnum, meðal annars úr óvæntri átt, frá áfengiseinkasölu ríkisins, Vinmonopolet, sem leggst alfarið gegn slíkum ráðstöfunum, meðal annars þar sem þær væru vatn á myllu áfengissmyglara og hvers kyns sprúttsala. Hvernig hugnast Maríu lög um útgöngubann sem staðið gæti í 21 sólarhring í senn?

„Mér finnst það bara skelfilegt og satt að segja óttast ég að þessu úrræði kunni að verða beitt,“ svarar hún. „Meira vit þætti mér í því að gera þannig ráðstafanir að almenningur yrði fremur í stakk búinn til þess að lifa með þessari veiru í einhvern tíma. Hér er alltaf einblínt á mjög ströng úrræði í stuttan tíma frekar en að gera langtímaáætlanir sem miðast við að veiran verði hér um stund og hægt sé að lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi þrátt fyrir það.“

María segir það hafa verið köllun sína að gerast kennari …
María segir það hafa verið köllun sína að gerast kennari en hún kennir 8. – 10. bekk í grunnskóla í Hamar þar sem hún gengur daglega meðfram hinu rómaða Mjøsa-vatni, einni af mörgum náttúruperlum smábæjarins norður af Ósló. Ljósmynd/Aðsend

Hún telur einsýnt að margt af því sem heimsbyggðin hafi þurft að temja sér síðasta árið verði hluti af daglegu lífi áfram, jafnvel um alla framtíð. „Munum við ekki áfram spritta á okkur hendurnar áður en við förum inn í matvörubúðir og jafnvel halda áfram með plastskilrúmin milli afgreiðslufólks á kassa og viðskiptavina og fleira af því sem nú er orðið hluti af okkar nýja raunveruleika?“ spyr María Hjaltadóttir að endingu.

Grein Maríu í VG

Facebook-hópurinn „Oss med familie eller kjæreste i utlandet under Covid-19“, hægt að lesa kynningarefni án þess að sækja um aðild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert