Tekur tíma að fá tilfinningu í handleggina

„Fyrsti dagurinn sem mér líður nægilega vel til þess að …
„Fyrsti dagurinn sem mér líður nægilega vel til þess að sitja við tölvuna,“ skrifaði Guðmundur Felix við myndina. Ljósmynd/Af Facebook síðu Guðmundar

Guðmundur Felix Grétarsson finnur ekki fyrir handleggjunum sem græddir voru á hann fyrir þremur vikum. Það mun taka hann tíma að fá tilfinningu í handleggina en taugar hans vaxa um einn millimetra á dag inn í hendurnar. Þær ættu því að vera orðnar um tveggja sentímetra langar nú þremur vikum eftir aðgerðina.

Guðmundur Felix greinir frá þessu á instagramsíðu sinni þar sem hann talar við fylgjendur sína í myndskeiði. Hann birti myndskeið á Facebook í dag þar sem hann gat í fyrsta sinn sest í stól eftir aðgerðina. Þá vann hann í tölvu og þakkaði öllum sem sent hafa honum kveðjur.

Sterkari draugaverkir góðs viti

Á fyrsta sólarhringnum eftir aðgerðina fékk Guðmundur Felix misvísandi skilaboð frá höndunum þar sem taugar gjafans sendu einhver merki sem framkölluðu tilfinningar í höndunum. Sú staða er nú breytt enda hverfa taugar gjafans með tímanum.

Það mun taka Guðmund um heilt ár að fá einhverja tilfinningu að olnboga og fá möguleika á að geta hreyft olnbogann. Um tvö ár munu líða áður en hann mun mögulega fá tilfinningar í fingrum.

„Þetta er mjög langur tími og óvissa um þetta vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem aðgerð sem þessi er framkvæmd. Því er ekki vitað hvort taugarnar muni vaxa alveg út í fingur og hvort ég muni geta notað þá,“ segir Guðmundur Felix.

Sjúkraþjálfari hreyfir fingur hans reglulega svo hann stífni ekki upp. Guðmundur Felix finnur stundum fyrir því og fær stundum draugaverki. Hann fékk líka slíka verki þegar hann var án handa. Þeir voru mun sterkari til að byrja með eftir aðgerðina. „Samkvæmt læknunum er það góðs viti,“ segir Guðmundur Felix sem kljáist nú mest við sársauka þar sem hann er saumaður saman.

mbl.is