Metár í veltu á fasteignamarkaði

mbl.is/Hari

Þinglýstir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði fyrir allt árið 2020 voru um 14% fleiri en árið 2019 og aðeins árið 2007 slær þeim fjölda við. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landsbyggðinni var hins vegar um metár að ræða.

Þinglýstir kaupsamningar árið 2020 voru 12.072 talsins á meðan þeir voru 12.650 árið 2007. Hins vegar ef litið er á veltuna á fasteignamarkaði var veltan meiri á árinu 2020 en árið 2007 og því um metár í veltu að ræða. Velta á íbúðamarkaði, þ.e. heildarupphæðir söluverðs í öllum stökum íbúðaviðskiptum, nam ríflega 600 ma.kr. á síðasta ári sem er nærri 19% meira en árið 2019 á föstu verðlagi og 6% meira en árið 2007. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

Fjöldi kaupsamninga virðist hafa náð hámarki í september í fyrra og verið á niðurleið síðan þá og hefur fjöldinn í desember ekki verið minni síðan í júní en þó er fjöldinn mikill miðað við árstíma. Þá bendir skammtímavísir hagdeildar til þess að janúar hafi verið umsvifameiri en desember og því gæti verið um árstíðabundna sveiflu að ræða. Það virðist enn þá vera töluverður þrýstingur á fasteignamarkaði þar sem framboðið er takmarkað, sölutími styttist um fimm daga milli mánaða og hefur aldrei verið lægri og verð heldur áfram að hækka.

Tiltölulega algengt að íbúðir seljist á yfirverði

„Undanfarna mánuði hefur ein helsta fréttin á markaðnum verið sú að fjöldi íbúða til sölu hefur dregist verulega saman í hverri viku síðan í maí. Nú hefur fjöldinn hins vegar lítið breyst á milli mánaða. Fyrri hluta janúar hafði framboðið byrjað að aukast að nýju, en síðari hluta mánaðarins fór aftur að draga úr framboði og er það nú á svipuðum stað og fyrir mánuði. Það á jafnt við um höfuðborgarsvæðið, nágrannasveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og önnur svæði á landsbyggðinni. Þá er þróunin síðastliðinn mánuð einnig áþekk, hvort sem horft er til sérbýlis eða fjölbýlis eða nýrra eða eldri íbúða.

Að sama skapi stóð hlutfall íbúða á höfuðborgarsvæðinu, sem seldust á ásettu verði eða yfir ásettu verði, nánast í stað á milli mánaða í desember. Hlutfallið hafði hækkað nokkuð skarpt mánuðina þar á undan. Enn er þó tiltölulega algengt að íbúðir seljist á hærra verði en sett var á þær og var hlutfallið aðeins hærra um mitt ár 2017,“ segir í skýrslu HMS.

Meðalsölutími aldrei mælst styttri

Meðalsölutími íbúða hefur aldrei mælst styttri á höfuðborgarsvæðinu en í desember, eða um 41 dagur að jafnaði samanborið við 46 daga í nóvember. Árið 2017, þegar fasteignaverð hækkaði hratt og margar íbúðir seldust yfir ásettu verði, fór meðalsölutíminn lægst í 52 daga.

Á landsbyggðinni tók að jafnaði 79 daga að selja íbúð sem er aðeins meira en í nóvember, en þó með því stysta sem hefur mælst. Munurinn á sölutíma eftir því hvort um íbúð í fjölbýli eða sérbýli er að ræða hefur oft verið meiri. Það tók um 44 daga að selja íbúðir í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en um 40 daga að selja íbúðir í fjölbýli. Þá tók að jafnaði um 48 daga að selja nýjar íbúðir og er það einnig það lægsta sem hefur mælst í þeim flokki.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands voru 30,3% af öllum kaupsamningum á árinu 2020 vegna fyrstu kaupa og hefur hlutfallið ekki mælst hærra eins langt og tölur ná, eða frá þriðja ársfjórðungi 2008. Þess má geta að ef tveir aðilar kaupa saman er nóg að annar aðilinn hafi aldrei átt íbúð áður til þess að viðskiptin teljist til fyrstu kaupa.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert