Hver hefur gefið þér leyfi til að deyja?

Óskar leggur mikið upp úr hreyfingu og mætir reglulega í …
Óskar leggur mikið upp úr hreyfingu og mætir reglulega í ræktina. Eggert Jóhannesson

Óskar Finnsson matreiðslumeistari greindist með ólæknandi krabbamein í höfði, glioblastoma, fyrir rúmu ári. Hann hefur mætt veikindum sínum af æðruleysi og lofað fjölskyldu sinni að gera allt sem í hans valdi stendur til að lengja tíma sinn með henni en að meðaltali lifir fólk, sem greinist með krabbamein af þessu tagi, ekki nema í hálft annað ár.

Margir kannast við Óskar úr veitingabransanum, þar sem hann hefur verið áberandi undanfarna þrjá áratugi. Hugmyndaríkur og atorkusamur. Líf hans breyttist á hinn bóginn sem hendi væri veifað á Þorláksmessu 2019. Sá dagur hófst raunar eins og hver annar, jólastúss og ræktin í hádeginu. Eftir það hringdi Klara, dóttir Óskars, í hann og spurði hvort hann hefði tök á að koma og hjálpa til við eftirréttina á veitingastaðnum GOTT Reykjavík, þar sem hún var einn af eigendum og rekstrarstjóri. Það var auðsótt.

„Fljótlega eftir að ég mætti á GOTT fór ég að finna til í höfðinu og barmaði mér yfir því að flensa væri að hellast yfir mig svona rétt fyrir jólin. Verkurinn ágerðist hins vegar og ég áttaði mig smám saman á því að þetta væri ekki flensa. Ég entist í þrjá tíma á veitingastaðnum en þá fór konan mín með mig heim. Ég yrði að hvíla mig. Ég var alveg að drepast þegar við komum heim; fór úr úlpunni og lagðist beint í sófann. Þegar hér er komið sögu gat ég varla hreyft mig. Það var eins og ég væri með hníf í höfðinu.“

Óskar Finnsson og María Hjaltadóttir ásamt börnum sínum þremur, Guðfinni, …
Óskar Finnsson og María Hjaltadóttir ásamt börnum sínum þremur, Guðfinni, Klöru og Finni, tengdadótturinni Sigrúnu Eggertsdóttur og barnabörnunum, Maríu Sól og Arabellu Sól Guðfinnsdætrum. Og ekki má gleyma varðhundinum Lion. Eggert Jóhannesson


Hringdi beint í Neyðarlínuna

Maríu Hjaltadóttur, eiginkonu Óskars, varð ekki um sel og hringdi beint í Neyðarlínuna. „Hún þurfti reyndar að byrja á því að sannfæra 112 um að ég væri ekki fullur; hefði ekki drukkið dropa í tæp þrjátíu ár,“ segir Óskar sposkur. „Síðan kom sjúkrabíll og sótti mig og flutti á bráðamóttökuna. Þangað var ég kominn um klukkan ellefu um kvöldið. Ég var skoðaður í bak og fyrir og myndir teknar og ég engdist allan tímann af kvölum; það var eins og höfuðið á mér væri að springa. Það var ekki fyrr en komið var með fullorðinsskammt af morfíni að mér fór að líða betur.“

Rannsókn leiddi í ljós æxli á stærð við meðalsítrónu í höfði Óskars og var hann skorinn upp í byrjun janúar 2020. Aðgerðin heppnaðist vel. Stór hluti meinsins var skorinn burt, eða um það bil 90%. Við tók tíu daga bið eftir niðurstöðum sýna. 17. janúar, á afmælisdegi Klöru, dóttur Óskars, rann svo stund sannleikans upp.

„Þegar við hjónin mættum til Halldórs [Skúlasonar, heila- og taugaskurðlæknis], kom hann sér beint að efninu. Hann hefði því miður ekki góðar fréttir handa okkur. Þetta væri illkynja æxli af verstu gerð, glioblastoma, komið á fjórða stig. Hvernig gat það verið? Ég sem hafði ekki fundið fyrir neinu fyrr en á Þorláksmessu og ekki verið með nein einkenni. María brotnaði eðlilega niður og spurði hvað þetta þýddi. Lifir hann bara í tíu ár, fimm? Halldór svaraði því ekki beint en staðfesti að þetta væri eins slæmt og gæti orðið.“

Óskar í eldhúsinu, þar sem hann kann ákaflega vel við …
Óskar í eldhúsinu, þar sem hann kann ákaflega vel við sig. Eggert Jóhannesson


Flæddi bara fram

– Hver voru þín fyrstu viðbrögð?

„Ég byrjaði á því að fara með æðruleysisbænina mína, sem ég lærði í AA-samtökunum. Síðan kom bara yfir mig ofboðslegt þakklæti. Ég þakkaði fyrst Halldóri fyrir það sem hann hefði gert fyrir mig og hvernig hann hefði höndlað þetta allt saman. Síðan varð mér hugsað til eiginkonu minnar og barnanna þriggja, sem ég er óendanlega stoltur af. Ég hugsaði líka um það hversu lánsamur ég hefði verið í starfi; árin dásamlegu á Argentínu steikhúsi og árin þrettán sem við fjölskyldan bjuggum erlendis. Ég hef borðað góðan mat í öllum heimsálfum, eldað ofan í ráðherra, forseta, kónga og Guð má vita hverja. Ég féll á samræmdu prófunum en um leið og ég kynntist eldhúsinu var ég á grænni grein í lífinu. Frúin starði bara undrandi á mig og hélt að ég hefði æft þessa ræðu. Svo var ekki, þetta flæddi bara fram þarna á staðnum.“

Eftir þennan mikla skell lá leiðin heim, þangað sem búið var að stefna börnunum þremur, Klöru, Finni og Guðfinni Þóri og tengdadótturinni Sigrúnu Eggertsdóttur til að færa þeim fréttirnar. „Við höfðum ekki gert mjög mikið úr þessum veikindum mínum enda bjartsýn á að allt yrði í lagi og það var gríðarlega erfitt að tilkynna börnunum niðurstöðuna úr rannsókninni. Á því augnabliki brotnaði ég niður,“ segir Óskar og gerir hlé á máli sínu meðan tilfinningarnar hellast yfir hann.

„Þetta tók rosalega á og er það langerfiðasta sem ég hef þurft að gera um dagana,“ bætir hann við, þegar hann er búinn að jafna sig á geðshræringunni sem minningin um þessa erfiðu stund kallar óhjákvæmilega fram.

Höggið var að vonum þungt fyrir börnin sem fóru strax að gúgla þessa gerð krabbameins og komust þá að því að fólk lifir að meðaltali í sextán til átján mánuði eftir greiningu. Ekki voru þær upplýsingar til þess fallnar að draga úr áfallinu.

Óskar skömmu eftir aðgerðina.
Óskar skömmu eftir aðgerðina.


Ætla ekki að verða veikur

„Ég sannfærði börnin strax um það að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að lengja þennan tíma eins og ég mögulega gæti. Ég myndi taka út sykur, minnka rauða kjötið, hreyfa mig eins og mikið og ég gæti og svo framvegis. Ég tók á þessari stundu ákvörðun: Ég ætla ekki að verða veikur og mun standa uppi eins lengi og heilsan mögulega leyfir!“

Óskar hefur haldið sig við sömu rútínuna á nýja staðnum. Hann stillir vekjaraklukkuna alltaf á 7.30, fer í World Class, gufuna og heitu pottana og hittir fólk, eins og aðstæður í samfélaginu á tímum heimsfaraldurs leyfa. Þá lætur hann sér ekki detta í hug að kveikja á sjónvarpinu fyrr en eftir kvöldmat.

„Hvað gerir maður gjarnan þegar maður er veikur og vorkennir sér? Skríður upp í sófa undir teppi og kveikir á sjónvarpinu. Ég gat ekki hugsað mér það. Byrjaði í staðinn að mæta í ræktina um leið og það var hægt síðasta vor og gera mínar æfingar. Úthaldið og krafturinn er ekki sá sami, núna eru lóðin sem ég lyfti 5 kíló í stað 20 áður og ég þreytist mjög fljótt. En það er sama, ég ætla ekki að gefast upp og skipta um rútínu. Það er ekkert auðvelt að æfa meðan maður er í geisla- og lyfjameðferð en ég lét mig hafa það. Eftir æfingar er ég miklu einbeittari og á auðveldara með að neita mér um þá hluti sem mig langar í en get ekki leyft mér vegna veikindanna. Fólk hefur líka verið mjög hvetjandi; þannig kom Bjössi í World Class [Björn Leifsson] til mín um leið og hann frétti af veikindunum og sagði að það væri búið að klippa kortið mitt og ég þyrfti ekki að greiða í World Class meðan ég stæði í þessum slag. Eins hafa frábæru æfingafélagarnir mínir sótt mig og keyrt mig heim eftir æfingar.“

Óskar við eina frægustu hurð í heimi. Hann bjó um …
Óskar við eina frægustu hurð í heimi. Hann bjó um þrettán ára skeið í Bretlandi og á Spáni.


Bakland í AA-samtökunum

Fleiri hafa stutt dyggilega við bakið á honum. „Fyrir þrjátíu árum þurfti ég að viðurkenna vanmátt minn gagnvart áfengi og fara í meðferð. Þar kynntist ég hinu gríðarlega öfluga starfi AA-samtakanna og bý að þeim góða félagsskap nú. AA-félagarnir gripu mig strax og hafa verið duglegir að keyra mig á fundi svo ekki sé minnst á öll símtölin. Kjartan vinur minn Andrésson AA-félagi leysti Maríu oft af með keyrsluna í geislameðferðina. AA-samtökin hafa mótað mig mikið sem manneskju og þar á ég bakland út lífið. Fari maður villur vega kippa AA-samtökin í mann. Sömu sögu má segja af félögum mínum í Frímúrarareglunni. Það eru allir boðnir og búnir að létta mér lífið. Í því felst rosalegur styrkur.“

Hann hefur einnig sótt ómetanlegan stuðning til Ljóssins. „Ég fór þangað fyrst í maí og það opnaðist heill heimur fyrir mér. Maður finnur um leið að þetta hús á Langholtsveginum er algjört kraftaverkahús. Það er hrein unun að koma í Ljósið. Ég er á sex vikna karlanámskeiði þar núna og það er svo gott að finna að þetta er ekki sjúkrastofnun. Maður er ekki sjúklingur þarna inni, heldur bara manneskja. Tekið er á mataræðinu, stressinu og öllu mögulegu sem fylgir því að greinast með krabbamein.“

Óskar hefur gripið til alls kyns nýjunga í sínu lífi. Þannig byrjaði hann að hugleiða í mars á síðasta ári. „Ég hélt ekki að hugleiðsla væri neitt fyrir mig en hún hefur hjálpað mér heilmikið. Ég hugleiði í fimmtán mínútur tvisvar á dag, um miðjan daginn og fyrir svefninn, og það er eins og að setja heilann í þvottavél. Hann kemur hreinn og ferskur út á eftir. Það tók mig um tvær vikur að ná tökum á þessu.“

Völundur Snær Völundarson kokkur, Hafliði Ragnarsson bakari, Davíð Oddsson, ritstjóri …
Völundur Snær Völundarson kokkur, Hafliði Ragnarsson bakari, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Óskar. Myndin er tekin fyrir jólin 2019 þegar þremenningarnir voru að dæma í Kökukeppni Morgunblaðsins.


Hleðslutækið Völli Snær

Fari hann út af sporinu segir Óskar fjölskyldu sína, ættinga og vini snögga að rétta kúrsinn. „Einu sinni hafði ég orð á því við Völla [Völund Snæ Völundarson] hvað ég væri ánægður með það að Finnur sonur minn passaði í jakkafötin mín. Svipurinn á Völla varð eitthvað skrýtinn og hann hringdi svo í mig seinna um daginn: „Óskar, þú átt sjálfur eftir að nota fötin þín lengi. Hver hefur gefið þér leyfi til að deyja?““

Óskar brosir þegar hann hugsar um þetta. „Að heyra í manni eins og Völla er eins og að fá fulla hleðslu á símann. Brýning af þessu tagi heldur manni gangandi og gefur manni ótrúlega mikið. Það hjálpar líka mikið að vinna með æðruleysisbænina, ef jákvæðnin víkur um stund. Sumu get ég einfaldlega ekki breytt og einbeiti mér þess vegna að hinu sem mögulega er hægt að breyta.“

Sjálfur hefur hann löngu valið sína nálgun; ætlar að glíma keikur við meinið með jákvæðnina að vopni. „Þetta er svo mikið undir okkur sjálfum komið. Þegar kallið kemur og ég þarf að fara að sinna veislum annars staðar, þá get ég með góðri samvisku sagt: Ég gerði mitt besta!“

Viðtalið við Óskar má lesa í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert