Hélt sér fast á Miklubrautinni

Kona á fullorðinsaldri lá á framrúðu bílsins, sem var á …
Kona á fullorðinsaldri lá á framrúðu bílsins, sem var á nokkurri ferð á Miklubrautinni. mbl.is

Tveir hafa verið handteknir eftir að lögreglu var um miðnætti í gær gert viðvart um bifreið sem keyrði á nokkurri ferð á Miklubrautinni til vesturs með konu á fullorðinsaldri sem lá á framrúðu og húddi bílsins. Blaðamaður mbl.is varð vitni að atvikinu og staðfestir lögregla þetta í samtali við hann.

Svo virtist sem önnur bifreið hafi veitt bifreiðinni, sem konan lá á, eftirför og náði í örstutta stund að nema staðar fyrir framan bifreiðina en skömmu síðar voru bifreiðarnar báðar á bak og burt.

Betur fór en á horfðist og staðfestir lögreglan í samtali við mbl.is að konan sé heil á húfi en málið er til rannsóknar og því ekki unnt að veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu.

mbl.is