Hættustigi lýst yfir

Myndin er tekin úr könnunarflugi Gæslunnar á svæðinu í morgun.
Myndin er tekin úr könnunarflugi Gæslunnar á svæðinu í morgun. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi almannavarna vegna öflugu jarðskjálftahrinunnar sem enn er í gangi á Reykjanesskaga.

Þetta er gert í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórann á Suðurnesjum og Veðurstofu Íslands, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Tekið er fram að hættustigi sé lýst yfir til að samhæfa aðgerðir og verklag ýmissa verklagsaðila og stofnana. Það hafi ekki áhrif á almenning.

„Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.“

Upptökin á um 20 km kafla

Bent er á að upptök skjálftanna í dag séu á um 20 kílómetra kafla, frá Grindavíkurvegi að Kleifarvatni.

Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands numið fleiri en tíu skjálfta yfir 4 að stærð frá því hrinan hófst.

Síðasti stóri skjálftinn mældist 4,8 að stærð kl. 12.37.

mbl.is