Má gera ráð fyrir því að jörð skjálfi áfram

Skjálft­inn var af stærðinni 5,7 og átti upp­tök sín 3,3 …
Skjálft­inn var af stærðinni 5,7 og átti upp­tök sín 3,3 kíló­metra suð-suðvest­ur af Keili á Reykja­nesi. Keilir sést hér í bakgrunni höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Hari

Íbúar á suðvesturhorni landsins mega búast við því að jörð skjálfi áfram vegna mikillar skjálftavirkni á svæðinu. Veðurstofan biður fólk um að kynna sér viðbrögð og viðbúnað vegna jarðskjálfta. 

Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Mikill fjöldi skjálfta hefur skekið jörð á suðvesturhorninu, sá stærsti 5,7 að stærð, á síðasta klukkutímanum.

Spurð hvort búast megi við frekari skjálftum segir Sigríður Magnea:

„Það er ekkert óeðlilegt á meðan virknin er enn svona sterk. Það getur tekið tíma fyrir jörðina að losa sig við svona mikla orku. Það má alveg búast við því að þetta taki einhvern tíma.“

Tilkynningar frá öllu suðvesturhorninu

Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um að fólk hafi orðið vart við skjálftann á öllu suðvesturhorni landsins og einnig í Vestmannaeyjum. Engar tilkynningar um skemmdir hafa borist veðurstofunni. 

„Það má alveg búast við áframhaldandi virkni miðað við hvað þetta hefur verið kröftugt síðasta hálftímann,“ segir Sigríður Magnea.

Hún biður fólk um að kynna sér viðbrögð og viðbúnað vegna jarðskjálfta á síðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert