Tveir skjálftar af stærð 5 eða yfir

Aðstæður á Reykjanesskaga voru kannaðar í dag.
Aðstæður á Reykjanesskaga voru kannaðar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í ljós hefur komið að tveir skjálftar urðu af stærð 5 eða yfir í hrinunni á Reykjanesskaganum í dag.

Stærsti skjálftinn og sá fyrsti stóri í hrinunni varð kl. 10.05 og var af stærðinni 5,7.

Aðeins 25 mínútum síðar, eða kl. 10.30, varð annar skjálfti og mælist stærð hans nú 5, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Klukkan 12.37 varð svo enn annar öflugur skjálfti, af stærðinni 4,8. Var sá þá sagður stærsti eftirskjálftinn til þessa, en er nú annar stærsti.

Að minnsta kosti sextíu skjálftar hafa mælst yfir þremur stigum frá því fyrsti skjálftinn varð.

Þeir hafa fundist víða á Suðvesturhorninu og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð.

mbl.is