Ökuferðin tilkynnt til barnaverndar

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Reykjanesbraut síðdegis í gær en ökumaðurinn er grunaður um ítrekaðan akstur bifreiðar án réttinda, það er hann er sviptur ökuréttindum. Þrír farþegar voru í bifreiðinni og var einn þeirra þriggja ára barn ökumanns. Var málið tilkynnt til barnaverndar. Annar ökumaður var síðan stöðvaður í Árbænum fyrir akstur án ökuréttinda en hann hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir sama brot.

Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um umferðaróhapp á Kjalarnesi um tíu í gærkvöldi þar sem tjónvaldur ók af vettvangi en hann var stöðvaður skömmu síðar á Þingvallavegi. Ökumaðurinn og kona sem var með honum í bifreiðinni voru handtekin grunuð um brot á skyldum vegfarenda við umferðaróhapp, akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, akstur bifreiðar svipt ökuréttindum auk fleiri brota. Parið var vistað fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Þegar taka átti blóðsýni fyrir rannsókn máls úr manninum beit hann í fingur lögreglumanns.

Síðdegis í gær var bifreið ekið á ljósastaur á Seltjarnarnesi og sagði vitni að ökumaðurinn, kona á sjötugsaldri, hefði gengið burt af vettvangi. Afskipti höfð af konunni skömmu síðar þar sem hún var handtekin grunuð um ölvun við akstur. Hún er vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  

Kona sem datt á andlitið í strætóskýli um áttaleytið í gærkvöldi var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans en hún var illa áttuð þegar rætt var við hana, en að hennar sögn hafði hún nýlega notað alls konar lyf. Hún er grunuð um vörslu fíkniefna. 

Á sjötta tímanum í gær var maður handtekinn í Austurbænum (hverfi 105) grunaður um þjófnað úr nokkrum verslunum. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

 Lögreglan hafði afskipti af ökumanni vörubifreiðar í Árbænum síðdegis í gær en vörubifreiðin átti að fara í endurskoðun í nóvember 2019 og hafði því ekki verið sinnt. Skráningarnúmer fjarlægð af bifreiðinni. Í gærkvöldi fjarlægði lögreglan einnig skráningarnúmer af bifreið þar sem hún var ótryggð. Ökumaðurinn ætlaði að fara strax í að laga þetta að því er segir í dagbók lögreglunnar. 

mbl.is