Jörðin að jafna sig eftir átökin

Jarðvís­inda­menn­irn­ir Sara Bar­sotti og Mel­issa A. Pf­ef­fen frá Veður­stofu Íslands …
Jarðvís­inda­menn­irn­ir Sara Bar­sotti og Mel­issa A. Pf­ef­fen frá Veður­stofu Íslands mældu hita­stig jarðar og brenni­steinsút­blást­ur á hvera­svæðinu Sel­túni við Krýsu­vík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dregið hefur úr virkni jarðskjálftahrinu sem hófst á Reykjanesskaga á miðvikudagsmorgun en enn mælast eftirskjálftar. Það er eðlilegt að eftirskjálftar verði þegar jörðin jafnar sig eftir átök, að sögn hópstjóra náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands.

Hvorki landris né gosórói hefur mælst. Á fimmta þúsund jarðskjálfta hafa mælst í hrinunni. Stærsti skjálftinn í hrinunni varð á miðvikudagsmorgun en hann var 5,7 að stærð.

Fólk á bakvakt ef eitthvað kemur upp á

„Það dregur úr virkninni en við erum samt enn að mæla eftirskjálfta. Það var einn sem mældist í morgun um sex leytið sem var 2,9 að stærð og svo var einn sem var 3,2 að stærð um hálf níu. Þeir voru á svipuðum slóðum og virknin hefur verið. Þannig að þetta er það sem mátti búast við, eftirskjálftar þegar jörðin er að jafna sig eftir svona átök,“ segir Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. 

Spurð hvernig vöktun með skjálftum verður háttað um helgina segir Kristín:

„Við erum alltaf með fólk á vakt. Við erum með auka slagkraft á daginn. Svo er alltaf fólk á bakvakt þannig að ef eitthvað sérstakt kemur upp á getum við kallað inn bakvakt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert