Flestir enn án rafmagns en lykilstaðir á varaafli

Otti Sigmarsson, björgunarsveitarmaður í Grindavík og varaformaður Landsbjargar.
Otti Sigmarsson, björgunarsveitarmaður í Grindavík og varaformaður Landsbjargar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitarmenn í Grindavík leggja allt kapp á að tryggja varaafl á hjúkrunarheimilinu í bænum og á stöðum þar sem mikilvægir innviðir eru til staðar. Rafmagn fór af í bænum um klukkan tvö í dag eftir að sló út í spennustöðinni á Svartsengi. Á sjöunda tímanum tókst að koma rafmagni á vestari hluta bæjarins, en meirihluti íbúa er enn án rafmagns.

Otti Rafn Sigmarsson, varaformaður Landsbjargar og Grindvíkingur, segir í samtali við mbl.is að lítil varaaflsstöð hafi strax verið sett upp við hjúkrunarheimilið í Víðihlíð til þess að keyra lyfjaskápa. Þá sé í undirbúningi að setja upp stærri varaaflsstöð svo koma megi rafmagni á að fullu á hjúkrunarheimilinu.

„Það er allt í góðu enn þá. Sem betur fer er þokkalegur lofthiti og engum kalt þó að við séum búin að vera rafmagnslaus í að verða átta tíma,“ segir Otti þegar blaðamaður nær tali af honum upp úr klukkan níu.

Önnur varaaflsstöð er notuð til að keyra fjarskiptastöð Mílu í bænum en hún heldur uppi netsambandi. Þá er sú þriðja notuð til að keyra varaafl inn í grunnskólann Hópskóla, en Otti segir að ef setja þurfi upp fjöldahjálarstöð verði það gert í skólanum. „Þess vegna er mikilvægt að við höldum honum hlýjum og getum lýst hann upp.“

Stærstu áhyggjur viðbragðsaðila snúa að því að hiti fari af húsum til langs tíma. „Það er aðalmálið. Það er eitt að hafa ekki sjónvarp og ljós en annað að vera kalt,“ segir hann. Ekki liggur fyrir hvenær búast má við að rafmagn verði komið aftur á en Otti segir björgunarsveitarmenn vona það besta en búa sig undir það versta.

mbl.is