Úrskurður gildir og Lilja því áfram brotleg

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra gerðist að mati kærunefndar jafnréttismála brotleg …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra gerðist að mati kærunefndar jafnréttismála brotleg við jafnréttislög, er hún réð Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Lilju Daggar Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði ógiltur. 

Sá úrskurður laut að því að ráðherra hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar, fyrrverandi bæjarritara Kópavogsbæjar, í stöðu ráðuneytisstjóra, í stað þess að ráða Hafdísi Helgu Ólafsdóttur í starfið.

Úrskurðurinn stendur því og íslenska ríkið skal greiða Hafdísi málskostnað upp á 4,5 milljónir. Enn er svigrúm til áfrýjunar og ráðherra gæti því skotið málinu til æðra dómstigs. Úr því úrskurður kærunefndar stendur, getur Hafdís nú ákveðið að sækja bætur á grundvelli hans.

RÚV greindi fyrst frá en lögmaður Hafdísar staðfesti dóminn í samtali við mbl.is.

Vanmetin af hæfisnefnd

Embætti ráðuneyt­is­stjóra í ráðuneytinu var aug­lýst í júní árið 2019 og sóttu þrett­án um stöðuna. Fjór­ir voru metn­ir hæf­ast­ir af hæfis­nefnd, tvær kon­ur og tveir karl­ar. Haf­dís Helga Ólafs­dótt­ir kærði skip­un­ina og komst kær­u­nefnd­in að þeirri niður­stöðu að mennta­málaráðherra hefði van­metið hæfi henn­ar.

Í úr­sk­urði kærunefndarinnar seg­ir að ann­mark­ar hafi verið á málsmeðferð og ákv­arðana­töku ráðuneyt­is­ins við mat og val á um­sækj­end­um um stöðuna. Þannig hafi mennt­un, reynsla af op­in­berri stjórn­sýslu, leiðtoga­hæfi­leik­ar og hæfni Haf­dís­ar verið van­met­in.

Að auki hafi skort veru­lega á efn­is­leg­an rök­stuðning mennta­málaráðherra fyr­ir ráðning­unni og ljóst verið að Páll hafi ekki staðið Haf­dísi fram­ar við ráðning­una. 

mbl.is