Framboð af íbúðum aldrei verið minna

Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 20% af íbúðum í fjölbýli yfir …
Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 20% af íbúðum í fjölbýli yfir ásettu verði en 26% af íbúðum í sérbýlum þegar miðað er við þriggja mánaða meðaltal. mbl.is/Árni Sæberg

Mun fleiri íbúðir hafa verið seldar en hafa verið settar á sölu frá því í byrjun síðasta sumars og því hefur dregið nokkuð skarpt úr framboði, þ.e. fjölda íbúða til sölu. Nú í byrjun mars voru um 2.200 íbúðir til sölu þegar tekið hefur verið tillit til tvítalninga en í lok maí 2020 fór framboðið hæst í nær 4.000 íbúðir.

Mesta minnkun framboðs hefur verið á höfuðborgarsvæðinu þar sem það fór úr rúmlega 2.200 í um 940 íbúðir, en það hefur aldrei mælst minna eins langt og gögn hagdeildar ná að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Frá 1. febrúar hefur framboðið á höfuðborgarsvæðinu dregist saman um nær 13%. Einnig hefur dregið verulega úr framboði annars staðar á landinu, þótt samdrátturinn þar sé minni en á höfuðborgarsvæðinu.

„Athygli vekur að framboðið hefur dregist sérstaklega mikið saman á nýjum íbúðum en á höfuðborgarsvæðinu eru nú um 74% færri slíkar íbúðir til sölu en voru í lok maí. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur þeim fækkað um 55%. Öðrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar farið fjölgandi það sem af er ári.“

Alls voru 907 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gefnir út í janúar sem er talsvert minna en í desember síðastliðnum þegar þeir voru 1.154. Sé hins vegar horft á árstíðaleiðréttar tölur fjölgaði kaupsamningum um 4% á milli mánaða, en fjölgunin var mest á höfuðborgarsvæðinu.

„Ef fjöldi útgefinna samninga er skoðaður eftir mánuði hvers árs má sjá að aldrei áður í janúar hefur verið jafn mikið að gera á íbúðamarkaði og á þessu ári. Mesta minnkun framboðs hefur verið á höfuðborgarsvæðinu þar sem það fór úr rúmlega 2.200 í um 940 íbúðir, en það hefur aldrei mælst minna eins langt og gögn hagdeildar ná. Frá 1. febrúar síðastliðnum hefur framboðið á höfuðborgarsvæðinu dregist saman um nær 13%. Einnig hefur dregið verulega úr framboði annars staðar á landinu, þótt samdrátturinn þar sé minni en á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslunni.

Árshækkun á höfuðborgarsvæðinu 8,3%

Íbúðaverð hefur hækkað talsvert undanfarin misseri. Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nam 8,3% í janúar miðað við vísitölu paraðra viðskipta og 7,5% miðað við vísitölu söluverðs.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins nam hækkunin 5,8% m.v. vísitölu söluverðs en annars staðar á landsbyggðinni var hækkunin hóflegri eða um 1,6%. Á höfuðborgarsvæðinu var 12 mánaða hækkunin mun meiri á meðal íbúða í sérbýli eða um 10,6% miðað við 6,6% á íbúðum í fjölbýli. Þessu var hins vegar öfugt farið á landsbyggðinni þar sem hækkunin var mun meiri meðal íbúða í fjölbýli.

Styttri sölutími og seljast á yfirverði

Enn er mikið um að íbúðir seljist yfir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu þótt hlutfallið hafi aðeins lækkað á milli mánaða. Um 16,3% íbúða seldust yfir ásettu verði í janúar en hlutfallið fór hæst í 20% í október síðastliðnum. Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 20% af íbúðum í fjölbýli yfir ásettu verði en 26% af íbúðum í sérbýlum þegar miðað er við þriggja mánaða meðaltal.

Sölutími íbúða heldur áfram að styttast og er í lágmarki bæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann var 45 dagar að jafnaði í janúar, og á landsbyggðinni þar sem hann var að jafnaði 75 dagar. Íbúðir eru því að seljast hraðar um þessar mundir en þær gerðu árið 2017 þegar miklar hækkanir áttu sér stað á fasteignamarkaði. Þetta gefur til kynna að eftirspurn eftir íbúðahúsnæði sé mikil miðað við fjölda íbúða til sölu að því er segir í mánaðarskýrslu HMS.

Helmingur allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í janúar seldist á 51,1 m.kr. eða meira, sem er mjög svipað og í mars fyrir tveimur árum. Fyrir íbúðir í fjölbýli var miðgildi kaupverðs um 48,2 m.kr. en fyrir sérbýli var það 82,5 m.kr. Þess má geta að innan við 10% af íbúðum í fjölbýli seldust á yfir 70 m.kr. og því er að jafnaði talsverður verðmunur á íbúðum í sérbýli og í fjölbýli. Fyrir fimm árum, í janúar 2016, var miðgildi íbúðaverðs fyrir sérbýli um 55,9 m.kr. en 35,5 m.kr. fyrir fjölbýli miðað við verðlag í febrúar 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert