Allt lék á reiðiskjálfi hjá björgunarsveitinni

Bifreiðar og annar búnaður hristist mikið á meðan skjálftinn stóð …
Bifreiðar og annar búnaður hristist mikið á meðan skjálftinn stóð yfir. Mynd/Skjáskot

Myndskeið úr öryggismyndavél í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík setur kraft jarðskjálftans sem varð klukkan 14:15 í dag ef til vill í samhengi fyrir einhverja. Þar sést hvernig stórir og þungir jeppar og bátar hristust meðan hann reið yfir.

Skjálftinn var sá næst stærsti síðan jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst 24. febrúar en hann mældist 5,4 að stærð.

Myndskeiðið birtist í færslu björgunarsveitarinnar á Facebook.

„Við viljum ítreka þau skilaboð til Grindvíkinga að ef hættuástand skapast þá verða allir látnir vita með mjög áberandi hætti. Fyrst með skilaboðum, svo með hljóðmerkjum og að lokum verður gengið í hvert einasta hús í Grindavík,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert