Verð á sérbýli lækkar

Verð á sérbýli er á niðurleið en það hækkar á …
Verð á sérbýli er á niðurleið en það hækkar á fjölbýli. mbl.is

Íbúðaverð náði aftur svipuðum hækkunartakti í febrúar og var undir lok síðasta árs eftir rólegan janúarmánuð. Hækkunin í febrúar var 0,6% miðað við 0,1% í janúar. Þessari hækkun var misskipt þar sem verð á fjölbýli hækkaði um 0,9% en verð á sérbýli lækkaði um 0,7%. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem verð á sérbýli lækkar. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

„Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,6% milli janúar og febrúar. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,9% og verð á sérbýli lækkaði um 0,7%. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 7,3% og er óbreytt frá því í janúar. Árshækkun fjölbýlis var 7,2% í febrúar og jókst úr 6,8% í janúar. Árshækkun sérbýlis var 6,3% í febrúar og lækkaði úr 7,8% í janúar. 

Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,8% milli mánaða í janúar og lækkaði raunverð íbúða því um 0,1%. Allt frá upphafi árs 2018 hafa raunverðshækkanir verið hóflegar, eða að jafnaði 0,2% milli mánaða. Tólf mánaða hækkun raunverðs mælist nú 2,7% og hækkar frá fyrri mánuði. Frá því í mars hefur árshækkun raunverðs mælst undir meðaltalinu frá 2015. Er það til marks um stöðuga þróun þar sem íbúðaverð þróast í samræmi við verðlag annarra vara. 

Allt frá árinu 2017 hefur verið meiri spenna í viðskiptum með sérbýli en fjölbýli sé miðað við hversu stórt hlutfall eigna selst yfir ásettu verði. Þessi munur var einna mestur á árunum 2017 og 2018 þegar tiltölulega mikil ró var yfir markaðnum með fjölbýli. Frá árslokum 2019 hefur sífellt hærra hlutfall sérbýliseigna selst yfir ásettu verði, stökk úr u.þ.b. 10% eigna upp í 27-28%. Sama þróun fór af stað varðandi fjölbýlið, en hún hófst þó ekki fyrr en um mitt ár 2020 og þar var stökkið mun minna,“ segir í Hagsjá Landsbankans.  

21% eigna í fjölbýli seldist yfir ásettu verði

Í janúar 2021 seldust 21% eigna í fjölbýli yfir ásettu verði sé miðað við meðaltal þriggja síðustu mánaða, en 26% eigna í sérbýli. Nú hefur verð á sérbýli lækkað tvo mánuði í röð þannig að þessi staða kann að vera að breytast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka