64 tilkynningar um jarðskjálftatjón

Björgunarsveitarfólk á skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls.
Björgunarsveitarfólk á skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) hafa borist 64 tilkynningar vegna meintra jarðskjálftatjóna undanfarið. Af þeim eru 19 frá Reykjavík, 15 úr Hafnarfirði, tíu frá Grindavík, átta úr Reykjanesbæ, fjögur úr Vogum og jafn mörg úr Garðabæ, tvö úr Kópavogi og frá Akranesi og Árborg hefur borist ein tilkynning frá hvorum stað.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ, segir að ekki sé víst að rekja megi öll þessi tjón til jarðskjálftanna. Þá sé ekki talið að mörg þeirra séu meiri en nemur eigin áhættu en hún er 400.000 krónur í húseignum. Hún segir að tilkynningar um tjón vegna jarðskjálfta hafi borist á nær hverjum degi undanfarið.

„Fólk er yfirleitt að tilkynna um minni háttar sprungur í húsum og lítils háttar tjón á innbúum. Það hefur ekki verið neitt teljandi stórt tjón,“ segir Hulda í Morgunblaðinu í dag. Hún sagði að alltaf kæmu tilkynningar þegar jarðskjálftar yrðu, það segði ekki til um hvar jarðskjálftar yllu raunverulega tjóni. Fólk tengi oft eðlilegar sprungur í húsum við jarðskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert