Fljúga yfir gosið aftur klukkan 7

Myndir frá því í nótt þegar ljósmyndari mbl.is var í …
Myndir frá því í nótt þegar ljósmyndari mbl.is var í flugi yfir gosinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landhelgisgæslan mun fljótlega eftir klukkan sjö í dag fljúga með vísindafólk frá Veðurstofu Íslands og jarðfræðideild Háskóla Íslands yfir eldana í Geldingadal við Fagradalsfjall. Vonast er til þess að fá þá betri yfirsýn yfir stærð og umfang gossins.

Vísindamenn frá Veðurstofunni munu einnig í birtingu halda af stað aftur á gossvæðið til gasmælinga. Engin mælanleg gasmengun hefur verið í Grindavík, Reykjavík eða Vogum, en ekki eru mælar til staðar í Þorlákshöfn, en vindátt í nótt var á vestan og lá því í átt til Þorlákshafnar.

Bjarki Friis Kaldalón, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að spáin fyrir daginn í dag sé að vindurinn snúi sér í suðlæga átt, en þar með gæti mögulegt gas frá gosinu farið í átt að Vogum eða höfuðborgarsvæðinu.

Spáð er 5-10 m/s til að byrja með í dag og 8-13 m/s eftir hádegi ásamt úrkomu og segir Bjarki að slíkt veður ætti að minnka virkni mögulegrar gasmengunar

Ekki hafa enn borist gervihnattamyndir af gosinu og Bjarki segir að erfitt geti verið að greina gosið vegna skýjahulu. Þá sé áfram gert ráð fyrir skýjuðu veðri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert