Vill klára 15-20 friðlýsingar fyrir kosningar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það sem af er þessu kjörtímabili hafa 14 staðir og svæði verið friðlýstir, en til viðbótar eru 23 friðlýsingar í vinnslu hjá Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytinu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist vonast til að klára 15-20 af þessum friðlýsingum fyrir lok kjörtímabilsins í september.

Á föstudaginn var tilkynnt um að gengið hefði verið frá undirritun á friðlýsingu Geysis og Kerlingarfjalla samkvæmt rammaáætlun, en áður hafði Geys­ir verið friðlýst­ur sem nátt­úru­vætti og Kerl­ingar­fjöll öll friðlýst sem lands­lags­vernd­ar­svæði. Guðmundur segir að verið sé að leggja lokahönd á friðlýsingu Varmárósa og það muni líklegast liggja formlega fyrir á næstu tveimur vikum.

Háhitasvæðið í Kerlingarfjöllum var friðlýst fyrir orkuvinnslu í gær. Fyrir …
Háhitasvæðið í Kerlingarfjöllum var friðlýst fyrir orkuvinnslu í gær. Fyrir nokkrum árum stóð þar yfir brúarvinna til að auðvelda aðgengi gesta. mbl.is/Árni Sæberg

Átak í friðlýsingum frá árinu 2018

„Eitt af því fyrsta sem ég gerði eftir að ég tók við ráðuneytinu var að skipuleggja og setja af stað átak í friðlýsingu,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is, en átakið fór af stað árið 2018. Áður hafði Alþingi samþykkt áætlanir um friðlýsingar árin 2004 og 2009 og þá var verndarflokkur rammaáætlunar samþykktur á þinginu árið 2013. Segir hann að þetta hafi því verið fyrirliggjandi verkefni sem ekki hafi tekist að klára og hann viljað sjá þessi mál áfram.

Samhliða áætlununum og verndarflokkinum segir Guðmundur Ingi að ráðuneytinu hafi borist hugmyndir frá heimafólki og sveitarstjórnum um mögulegar friðlýsingar. Að lokum hafi komið til áskoranir vegna ágangs ferðafólks. Farið hafi verið yfir öll þessi mál í ráðuneytinu og sett upp forgangsáætlun, en með núverandi ríkisstjórnarsamstarfi hafi friðlýsingar verið settar á oddinn, meðal annars í stjórnarsáttmála.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið tilkynnt um 14 friðlýsingar.
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið tilkynnt um 14 friðlýsingar. Kort/mbl.is

„Það er kominn aukinn kraftur í þetta núna“

Samtals eru friðlýst svæði í dag um 120, en sem fyrr segir hafa á síðustu þremur og hálfu ári 14 svæði hlotið friðlýsingu. „Það er kominn aukinn kraftur í þetta núna,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að hann sé stoltur af árangri síðustu ára.

Þegar horft er til þess hvað geti heyrt undir friðlýsingu segir Guðmundur Ingi að það geti verið meðal annars merkilegar jarðminjar, merkileg búsvæði dýra og plantna, landslag og víðerni. „Þarna er verið að taka ákvörðun um að þetta séu svæði sem við viljum vernda og nýta með þeim hætti að nýtingin gangi ekki á gæði náttúrunnar til framtíðar,“ segir hann til að lýsa þessu nánar.

Samtals átta friðlýsingarverkefni eru í vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Samtals átta friðlýsingarverkefni eru í vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Kort/mbl.is

Fjármagn þarf að fylgja fjölgun friðlýstra svæða

Hluti af friðlýsingu er að bæta innviði á svæðunum. Það getur átt við uppbyggingu sem stýrir ferðafólki á viðkvæmum svæðum, en líka landvarsla sem og aukin upplýsingagjöf fyrir gesti þannig að þeir geti fræðst um viðkomandi svæði og hvað það er sem valdi því að það hafi verið friðlýst.

Það er því ljóst að fjölgun friðlýstra svæða þarf að fylgja aukið fjármagn eigi þetta markmið að ganga eftir að sögn Guðmundar Inga. Vísar hann meðal annars til þess að í síðustu viku hafi hann tilkynnt um 2,6 milljarða fjárveitingu í landsáætlun 2021-2023, en þar fá 180 verkefni á um 100 stöðum fjárveitingu til uppbyggingar. Sem dæmi var veitt fé til uppbyggingar göngubrúar og salernisaðstöðu við Dranga á Ströndum, en það svæði er í friðlýsingarferli.

Hjá Umhverfisstofnun eru 15 friðlýsingaverkefni í vinnslu og eru þau …
Hjá Umhverfisstofnun eru 15 friðlýsingaverkefni í vinnslu og eru þau svæði um allt land. Kort/mbl.is

„Það skiptir miklu máli að láta fjármagn og fjölda friðlýsinga fylgjast að,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að með friðlýsingu verði til krafa og skylda á hendur ríkinu að sinna svæðunum sem friðlýst eru.

Geysir, Kerlingarfjöll, Jökulsá á Fjöllum og Látrabjarg

Af þeim 14 friðlýsingum sem hafa átt sér stað á kjörtímabilinu segir Guðmundur Ingi að efst í huga hans séu Geysir, Kerlingarfjöll og Jökulsá á Fjöllum. „Geysir er mjög gott dæmi. Að við séum núna loksins búin að friðlýsa Geysi sem er eitt frægasta háhitasvæði og eitt frægasta goshverasvæði í heimi. Það er sérstakt ánægjuefni að þeirri vinnu sé nú lokið,“ segir hann og bætir við að Kerlingarfjöll sem hann segir náttúruperlu á heimsmælikvarða. „Líka að það sé búið að vernda Jökulsá á Fjöllum gegn orkunýtingu yfir 10 MW, því það að Jökulsá á Fjöllum renni óbeisluð frá upptökum til ósa tel ég vera stórt náttúruverndarmál.“

 „Að ógleymdu Látrabjargi,“ bætir Guðmundur Ingi við og nefnir að þar sé um að ræða ein stærstu fuglabjörg Evrópu og stærstu þekktu álkubyggð í heimi. „Það skiptir rosalega miklu máli að koma þessum svæðum í friðlýsingu og tryggja vernd þeirra til framtíðar,“ segir hann.

Á Látrabjargi má finna mikla líffræðilega fjölbreytni og fjölskrúðugt fuglalíf …
Á Látrabjargi má finna mikla líffræðilega fjölbreytni og fjölskrúðugt fuglalíf en markmið friðlýsingarinnar er einmitt að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hálendisþjóðgarðurinn stærstur, en fjöldi annarra verkefna

Stærsta verkefnið á lista Guðmundar Inga varðandi friðlýsingu í vinnslu er miðhálendisþjóðgarður, en mikið hefur verið rætt og skrifað um þau áform. Guðmundur Ingi segir það stærsta málið. Ef við einblínum hins vegar á önnur verkefni segir hann að þar sé mikilvægast að klára verkefni sem tengjast þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum, Dröngum á Ströndum og Dyrfjöllum og Stórurð á Austurlandi.

„Þarna er tækifæri í héraði að laða að ferðamenn“

Vinna við þjóðgarðinn á sunnanverðum Vestfjörðum hófst á kjörtímabilinu og segir Guðmundur Ingi að sátt sé um málið í héraði og að mestu leyti meðal þeirra sem hafi tjáð sig um þau áform. Gengur það út á að sameina friðlandið í Vatnsfirði og Dynjanda og stækka það svæði mikið. Þannig kæmi til dæmis Hrafnseyri inn í þjóðgarðinn sem og Langibotn í Geirþjófsfirði sem er sögusvið í Gíslasögu auk þess sem Hrafna-Flóki er sagður hafa gefið þar landinu nafnið Ísland. „Þarna er tækifæri í héraði að laða að ferðamenn,“ segir hann.

Varðandi Dyrfjöll og Stórurð segir Guðmundur Ingi að gera megi ráð fyrir að friðlýsingarferlið klárist þar í vor eða sumar og þá sé nú unnið á fullu að því að klára mál Dranga á Ströndum þar sem landeigendur hafi óskað eftir friðlýsingu. „Það væri fyrsta friðlýsingin í friðlýsingarflokki óbyggðra víðerna. Það væri stórt skref.“

Stórurð er í Urðardal í Hjaltastaðaþinghá og þykir stórfenglegt náttúrufyrirbrigði. …
Stórurð er í Urðardal í Hjaltastaðaþinghá og þykir stórfenglegt náttúrufyrirbrigði. Guðmundur Ingi gerir ráð fyrir að friðlýsing svæðisins klárist í vor eða sumar. Ljósmynd/Helgi Magnús Arngrímsson

„Ég held að 15-20 séu alveg raunhæf tala“

Þegar horft er til þess að 14 svæði hafa klárast á síðustu þremur og hálfu ári, en að 23 svæði séu í friðlýsingarferli og aðeins hálft ár eftir að kjörtímabilinu er rétt að spyrja Guðmund Inga hvort hann telji raunhæft að þessi vinna klárist fyrir kosningar í september. „Þetta er ekki allt komið á lokastað þannig að það eigi bara eftir að stimpla pappírana, en flest af þessu er í kynningu núna,“ segir hann og bætir við: „Ég get þó ekki fullyrt að allt af þessu klárist á tímabilinu.“ Spurður nánar út í þann fjölda sem hann telji að muni klárast til viðbótar við það sem þegar er komið segir Guðmundur Ingi: „Ég held að 15-20 séu alveg raunhæf tala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert