Styrkur eldgossins hefur aukist

Horft yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum.
Horft yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Styrkur eldgossins í Geldingadölum hefur aukist jafnt og þétt undanfarna daga og þá sérstaklega í nótt. Þetta sýnir óróagraf á mæli austan við Fagradalsfjall og ber mælingunum vel saman við aðrar athuganir, til dæmis myndir frá gervitunglum.

Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu.

Áætlað er að kvikuflæðið nemi 5 til 6 rúmmetrum á sekúndu og er flæðið talið hafa lítið breyst frá því eldgosið hófst.

Geti staðið lengur en í fyrstu var ætlað

Í tilkynningunni segir að ekkert liggi fyrir um hversu lengi eldgosið muni vara, en miðað við stöðugt kvikuflæði og aðrar vísbendingar geti það staðið lengur en í fyrstu var ætlað út frá smæð eldgossins einni og sér.

Bylgjubrotsmælingar á Reykjanesskaga hafa fyrr sýnt að jarðskorpan er að jafnaði um 15 kílómetra þykk. Neðan við jarðskorpuna tekur möttullinn við.

Stóðu vafalítið árum saman

„Með jarðeðlisfræðilegum mælingum má greina merki kviku eða kvikuhólfa í jarðskorpunni, en á Reykjanesskaga finnast engin merki um slíkt, hvorki kviku né kvikuhólf. Því má búast við að kvika sem upp kemur í eldgosum á Reykjanesskaga komi beint neðan úr möttli,“ segir í tilkynningunni.

Dæmi er til um eldgos á Reykjanesskaga sem vafalítið stóðu árum saman og framleiddu mikið hraun, s.s. Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Heiðin há sem eru stærstu dyngjurnar, og ætla má að þá hafi sömuleiðis myndast bein tenging frá kviku í möttli til yfirborðs miðað við efnagreiningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert