Gastegundir í óvenjulegum hlutföllum

Andri Stefánsson, prófessor hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, ásamt Ríkeyju Kjartansdóttur …
Andri Stefánsson, prófessor hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, ásamt Ríkeyju Kjartansdóttur frá Jarðvísindastofnun HÍ og dr. Melissu Anne Pfeffer hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Andri Stefánsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, segir eldgosið í Geldingadölum óvanalegt og ólíkt þeim eldgosum sem hafa orðið á Íslandi undanfarin þúsund ár. Hlutfall gastegunda í gosinu er þá ólíkt því sem vísindamenn hafa vanist hér á landi.

„Málið er það að þegar það koma þessi dæmigerðu basalteldgos á Íslandi, sem eru langalgengustu eldgosin til dæmis eins og í Holuhrauni, þá er yfirleitt hlutfallið milli koltvíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs, CO2 og SO2nálægt því að vera einn en núna er hlutfallið kannski nálægt því að vera þrír. 

Sem sagt þrisvar sinnum meira koltvíoxíð heldur en brennisteinsdíoxíð,“ segir Andri í samtali við mbl.is og bendir á að þetta sé ansi óvenjulegt gashlutfall fyrir basalt.

Þetta sýnir því óyggjandi að sögn Andra að kvikan, sem er núna að koma upp, verður til á 15 til 20 kílómetra dýpi. Hún verður þannig til í efri hluta möttuls og kemur hratt upp á yfirborðið. Andri bendir á að þetta sé óvenjulegt því kvikan stoppi yfirleitt aðeins í jarðskorpunni.

Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi.
Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæti varað í áratugi

Í ljósi þess hve kvikan kemur af miklu dýpi getur eldgosið hugsanlega varað í langan tíma eða þar til svokallaður kvikugeymir eða kvikupoki klárast og gæti því gosið varað í einhver ár eða áratugi. Ekki er vitað hve stór pokinn er.

„Það hefur svo sem ekki gosið þarna í töluvert langan tíma þannig það er ekkert ólíklegt að það sé svolítið rúmmál en hvað það er nákvæmlega vitum við ekki,“ segir Andri.

Bendir þá Andri á að það gætu verið dagar, vikur eða mánuðir þar til pokinn klárast en það sé alveg eins líklegt að gosið vari í lengri tíma.

Eldgosið er nokkuð stöðugt og það gæti jafnvel leitt til einhvers konar myndunar á lítilli dyngju og hrauntjörn.

Lyktarlaust og hættulegt

Andri segir þó að hlutfall koltvíoxíðs og brennisteinsdíoxíðs þurfi ekki endilega að þýða að gasið sé hættulegra fyrir fólk. Hættuástand vegna gass fer fyrst og fremst eftir heildarmagni af gasi sem kemur upp en ekki eftir þessum hlutföllum. Eldgosið er þá frekar lítið og þar með er heildarmagnið af gasinu á dag frekar lítið.

„En það þýðir ekki það að þetta sé ekki hættulegt og fólk þarf að fara mjög varlega og það sérstaklega varðandi koltvíoxíð og kolmónoxíð,“ segir Andri og bætir við:

„Það er lyktarlaust og það skiptir miklu máli að fólk fari varlega á gosstað og sé ekki að labba endilega niður í lautir, sérstaklega þegar það er lygnt veður.“

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki ósvipað gosinu á Havaí

Andri segir að strax á fyrstu einum til tveimur dögum eftir að gaus hafi komið í ljós að gosið væri óvanalegt.

„Fyrst voru menn efins því þeir höfðu ekki séð svona áður, en vissu svo sem hvað þetta þýddi, en núna erum við alveg viss í okkar sök.“

Andri bendir á að reynsla sé af slíkum gosum og að rennslið í eldgosinu í Kilauea á Havaí sé ekki ósvipað því sem er í gangi hér.

„Þar myndast svona gígur og verður svona lítil hrauntjörn í gígnum og svo rennur hraunið ekki síst aðeins svona í litlum lækjum og neðanjarðar hellum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert