Metlækkun leiguverðs

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Leiguverð lækkaði á höfuðborgarsvæðinu um 1,5% milli janúar og febrúar samkvæmt þeim leigusamningum sem þinglýst var í hvorum mánuði fyrir sig. Þetta verður að teljast nokkuð mikil lækkun eða sú mesta sem hefur mælst milli mánaða síðan í maí 2020 segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans í dag en þar er vísað í tölur frá Þjóðskrá. 

„Verðlækkanir hafa verið nokkuð áberandi upp á síðkastið, en frá upphafi árs 2020 hefur leiguverð ýmist lækkað eða hækkað mjög hóflega milli mánaða. Horft til 12 mánaða þróunar sést að leiguverð hefur nú lækkað um 3,2%, sem er mesta lækkun sem hefur sést á slíku tímabili frá upphafi mælinga. Þetta gerist á sama tíma og kaupverð fjölbýlis hefur hækkað. 

Það er líklegt að þær lækkanir sem við höfum séð á leigumarkaði nú um nokkurt skeið eigi sér fleiri en eina skýringu. Vextir á íbúðalánum hafa lækkað, sem hefur auðveldað mörgum kaup og ef til vill minnkað eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Á sama tíma hefur framboð af leiguhúsnæði aukist, bæði vegna fækkunar ferðamanna og þar með Airbnb-íbúða, en einnig vegna þess að áhersla hefur verið mikil hjá stjórnvöldum á að auka framboð leiguíbúða til tekjulægri leigjenda.

Það er líklegt að talsverður fjöldi íbúða fari aftur í útleigu til ferðamanna þegar faraldrinum linnir og ferðalög geta hafist af krafti að nýju. Einnig er viðbúið að fólksflutningar verði meiri hingað til lands þegar uppgangur verður meiri í atvinnulífinu og því líklegt að spenna aukist að nýju á leigumarkaði þegar fram líða stundir,“ segir enn fremur í Hagsjánni en hana má lesa í heild hér.

mbl.is