„Allt í kringum þetta er ást og væntumþykja“

Sigurður G. Steinþórsson gullsmíðameistari og Kristjana Ólafsdóttir verslunarstjóri í Gull …
Sigurður G. Steinþórsson gullsmíðameistari og Kristjana Ólafsdóttir verslunarstjóri í Gull og silfri fagna því í dag að 50 ár séu liðin frá því að verslunin var fyrst opnuð. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag eru 50 ár síðan Sigurður G. Steinþórsson gullsmíðameistari opnaði verslun sína Gull og silfur fyrst á Laugavegi. Frá upphafi hefur hún verið fjölskyldufyrirtæki, en eiginkona hans, faðir, bróðir og börn hafa öll unnið eða vinna enn við smíðar eða í versluninni. Sigurður segir að hann sé síður en svo hættur og ætli sér að halda áfram á meðan heilsan leyfir, enda fái hann sína listrænu útrás í vinnunni. Í gegnum tíðina hefur hann smíðað muni sem hafa endað um allan heim, meðal annars hjá páfanum og forseta Kína. Í tilefni tímamótanna settist mbl.is niður með Sigurði og fór yfir ferilinn, tískustrauma í giftingahringum, áhrif eldgosa á greinina, jóga og laxveiði.

„Það var ekkert pláss fyrir mig lengur“ 

Sigurður byrjaði ungur að vinna hjá föður sínum, Steinþóri Sæmundssyni gullsmíðameistara, sem þá rak gullsmiðju með Jóhannesi Leifssyni gullsmið. Sigurður segir að á þessum tíma hafi hann mikið verið að teikna og mála, en einnig að velta fyrir sér að fara í arkitektanám. Aldrei hafi þó komið til þess enda hafi hann verið kominn með smjörþefinn af gullsmíðinni og ákveðið að fara í nám erlendis í faginu.

Þegar hann kom svo heim var bróðir hans, Magnús Sigurðsson, einnig farinn að vinna hjá föður þeirra. „Það var ekkert pláss fyrir mig lengur,“ segir Sigurður kíminn, en hann opnaði sjálfur verkstæði á Laugavegi 20 eftir að hann kom heim. Með aðstoð föður síns fann Sigurður svo húsnæði á Laugavegi 35 þar sem hann opnaði Gull og silfur þann 3. apríl 1971.

Meistarabréf Sigurðar er frá því í febrúar 1971.
Meistarabréf Sigurðar er frá því í febrúar 1971. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrstu 35 árin í númer 35

Steinþór og Magnús komu svo yfir til hans ári síðar og var Magnús með honum næstu 20 árin, eða þangað til hann flutti til Englands.  Á þessum tíma var Sigurður að kynnast eiginkonu sinni, Kristjönu Ólafsdóttur, sem hefur alla tíð síðan séð um verslunarreksturinn. „Hún fór beint í afgreiðsluna þegar hún fór að þvælast í kringum mig,“ segir hann og bætir við: „Þannig er þetta, það eru allir virkjaðir í kringum mann.“

Fyrstu 35 árin var verslunin og verkstæðið við Laugaveg 35, en fyrir 15 árum fluttu þau í núverandi húsnæði við Laugaveg 52. Á þeim tíma hefur elsta dóttir þeirra Kristjönu, Sólborg Sigurðardóttir gullsmiður, bæst í hópinn og starfar hún einnig hjá fjölskyldufyrirtækinu. Þegar mikið er um að vera eru svo fleiri kallaðir til. „Það eru tvær aðrar dætur sem hafa líka verið með í þessu. Í kringum jólin eru svo jafnvel tengdasynirnir virkjaðir líka,“ segir Sigurður.

Sigurður teiknaði sjálfur upp innréttingarnar sem hann lét svo smíða …
Sigurður teiknaði sjálfur upp innréttingarnar sem hann lét svo smíða fyrir verslunina þegar hún var á Laugavegi 35. Þegar þau fluttu verslunina á Laugavegi 52 fylgdu innréttingarnar með á nýjan stað. mbl.is/Árni Sæberg

Helsti munurinn rafmagn og gas á kútum

Gullsmíði er líklega ekki það fag sem kemur efst upp í hugann þegar rætt er um mikla nýbreytni. Sigurður segir þetta að mörgu leyti rétt, enda sé greinin bæði gömul og íhaldssöm. Bendir hann á að sjálfur gæti hann sest við 200-300 ára gamalt vinnuborð og hafið vinnu með þeim verkfærum sem þá voru í boði. „Núna er komið rafmagn og gas á kútum í stað þess að blása í gegnum ákveðið kerfi til að hita gullið,“ segir Sigurður spurður um helstu breytingarnar. „Annað eins og handverkfæri og þjalir, þetta er allt það sama.“

Sigurður segir að helsta breytingin síðan hann hóf að starfa í faginu sé að margir séu farnir að annaðhvort steypa muni eftir mótum og geta þannig gert marga eins gripi eða flytja inn muni sem voru hannaðir hér en framleiddir erlendis. Hann vilji þó heldur handgera hvern og einn hlut. „Við handsmíðum 99% af öllu sem við seljum og höldum í gömlu hefðirnar,“ segir Sigurður.

Önnur og þriðja kynslóð viðskiptavina

Í upphafi rekstursins segir Sigurður að þau hafi átt minna af vörum í búðinni og þá hafi hann venjulega teiknað upp skartgripina fyrir viðskiptavini sem komu til hans með hugmyndir. „Svo vann ég eftir teikningunni og hringurinn var tilbúinn daginn eftir,“ segir Sigurður.

Kúnnahópurinn hefur að hans sögn verið frá upphafi innlendir einstaklingar og það hafi lítið breyst í ferðamannasprengingunni síðasta ártuginn. Þannig hafi síðustu ár verið yfir 90% til þessa hóps. Giftingarhringir eru alltaf grunnurinn í rekstrinum, en Sigurður segir að þegar ungt fólk komi til hans að leita að giftingar- eða trúlofunarhringum endi þau oft sem viðskiptavinir til framtíðar, meðal annars varðandi mögulegar morgungjafir og afmælis- og tilefnisgjafir síðar meir. Þá komi kynslóð eftir kynslóð til hans og lýsir Sigurður því þegar faðir kom eitt sinn með son sinn sem var að fara að gifta sig í verslunina. „Hann sagði: „Þetta er gullsmiðurinn minn og þú verslar bara við hann,“ og þá var það ákveðið.“ Segir Sigurður ekki óalgengt að önnur og þriðja kynslóð kaupenda komi til sín nú á dögum.

Allt í kringum fagið er ást og væntumþykja 

Sigurður segist aldrei hafa orðið leiður á gullsmíðinni og búðarrekstrinum, enda sé ástin sjaldnast langt undan hjá viðskiptavinum. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt fag því allt í kringum þetta er ást og væntumþykja. Fólk kemur jákvætt inn og vill gleðja einhvern. Það er alltaf eitthvert tilefni,“ segir hann.

Gullsmíði er eins og Sigurður lýsti áður nokkuð íhaldssöm grein. Það stoppar þó ekki alls konar fjölbreytni og bendir Sigurður á að líklega megi gera ráð fyrir bylgju í tengslum við gosið í Geldingadölum. Þannig hafi það meðal annars verið í kringum gosið í Holuhrauni, en þaðan fékk hann nokkra gosmola sem hann notaði í ýmiss konar skartgripi. Segist Sigurður eiga von á einhverjum molum úr Geldingadölum á næstunni og er hann þegar búinn að gera sér í hugarlund hvernig þeir munir verða. „Ég mun hafa þetta náttúrulegt, en þó aðeins formað og smíðað frjálst utan um. Hvert og eitt stykki verður einstakt.“

Gull og silfur hefur verið á Laugaveginum síðustu hálfa öld.
Gull og silfur hefur verið á Laugaveginum síðustu hálfa öld. mbl.is/Árni Sæberg

Dreymir lausnir við verkefnum 

Í spjalli blaðamanns við Sigurð kemur fljótt í ljós að hann hleypur ekki beint að hlutum óhugsuðum, en þannig lýsti hann fyrir blaðamanni hvernig hann dreymir oft á nóttunni hvernig leysa eigi ákveðin verkefni. „Þá vakna ég oft og punkta niður hjá mér hvernig eigi að gera hlutina,“ segir hann og skellir upp úr.

Þegar kemur að frekari tískustraumum í gullsmíðinni segir Sigurður að þegar komi að hringum séu sveiflur á 20-25 ára fresti varðandi hversu breiðir hringar eigi að vera. „Þegar við byrjuðum um 1970 voru hringarnir frekar breiðir og voru það um nokkurn tíma. Svo komu kreppur og gullið hækkaði og hringarnir mjókkuðu,“ segir hann. Síðan hafi hringar verið að breikka aftur upp á síðkastið, þótt Sigurður bæti við að það hafi aðeins stoppað síðan faraldurinn kom upp.

„Fyrstu tvö árin vann maður nánast launalaust og með 80 tíma vinnuviku“

Spurður hvernig reksturinn hafi verið í gegnum tíðina og hvort komið hafi upp sérstaklega erfið tímabil segir Sigurður að mikil vinna hafi verið til að byrja með, en almennt hafi reksturinn gengi vel. „Fyrstu tvö árin vann maður nánast launalaust og með 80 tíma vinnuviku. Núna er ég 74 ára gamall og með svona 50-60 tíma vinnuviku,“ segir hann og glottir smá.

En fer ekkert að koma að því að þau hjón fari að setjist í helgan stein og njóti ævikvöldsins eftir rúmlega hálfa öld í faginu? Sigurður er fljótur að svara þessu og segist ætlar að halda áfram meðan hann geti og heilsan leyfi. „Ég mun halda áfram að smíða jafnvel þótt ég hætti með búðina,“ segir hann, en tekur fram að engin áform séu um að hætta heldur með verslunarreksturinn strax.

Hlutir fyrir eiginkonuna standa upp úr

Munir sem Sigurður hefur smíðað hafa endað víða. Þannig segir hann frá því hvernig Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hafi fengið sig til að smíða hnappa handa Jiang Zemin, forseta Kína, þegar hann kom í heimsókn á sínum tíma. Voru hnapparnir með kínversku letri og segir Sigurður að því miður hafi hann ekki getað lesið skilaboðin, en að þau hafi að sér skilst átt að bjóða Zemin velkominn til landsins. Þá hafi Vigdís Finnbogadóttir fært Jóhannesi Páli páfa II þríkross sem Sigurður smíðaði.

En hvaða munir eru það sem standa mest upp úr eftir þessa hálfu öld?

„Það eru hlutir sem ég hef smíðað fyrir konuna mína,“ segir Sigurður án þess að blikka. „Ég ræktaði meðal annars rósir heilt sumar og teiknaði þær reglulega til að sjá hvernig þær þróuðust. Svo smíðaði ég men á mismunandi stigum eftir því hvernig blómin opnuðust,“ segir hann.

Spurður hvort einhverjir munir hafi komið honum á óvart hlær Sigurður og segir að fæst komi honum á óvart lengur. „Maður er búinn að smíða næstum því allt, nefndu það bara. Steðji, hamar, myndavél, reiðhjól, fjaðrir, mótorhjól og [veiði]flugur.“

Sigurður hefur í gegnum tíðina fengið á borð til sín …
Sigurður hefur í gegnum tíðina fengið á borð til sín hin ýmsu verkefni. Hann segir gripina sem hann smíðaði fyrir Kristjönu eiginkonu sína þó standa upp úr. mbl.is/Árni Sæberg

Mætir ekki lengur á slaginu sjö á bakkann

Síðasta atriðið á þessum lista hér að ofan kemur þeim sem þekkja til Sigurðar ekkert mikið á óvart, en sjálfur hefur hann haft mikla ástríðu fyrir laxveiði frá unga aldri. Það er einmitt á árbakkanum sem hann segist ná að hlaða batteríið best. „Ég fór um allar jarðir hér áður, en núna fer fjölskyldan reglulega að Laxá á Skógarströnd,“ segir Sigurður, en í henni á fjölskyldan með mörgum öðrum. Segir Sigurður að upphaflega hafi faðir hans og fyrrnefndur Jóhannes átt í henni frá því fyrir um 60 árum og hann hafi svo keypt sig þar inn með tíð og tíma.

„Það er æðislegt að vera þarna í frið og ró og njóta náttúrunnar. Hlusta á lóuna og spóann,“ segir Sigurður og viðurkennir að hann sé löngu kominn yfir mesta veiðistressið og upplifunin í náttúrunni hafi löngu tekið við. „Ég er ekki mættur út á slaginu sjö lengur,“ segir hann hlæjandi.

Í jóga uppi á heiði

Náttúruvitundin er þó ekki ný af nálinni hjá Sigurði og segist hann reyna að stunda jóga, meðal annars þegar hann sé úti í náttúrunni. „Ég var oft uppi á heiði við silungavatn eitt þar sem ég sat á einhverri þúfu í jógastellingu og andaði inn og út. Það er svo ótrúlega gott þegar maður nær að tæma sig gjörsamlega,“ lýsir hann þessari upplifun, en Sigurður byrjaði jógaiðkun sína þegar hann var um 16-17 ára gamall. „Nei nei, ég las Þórberg og hann var í jóga langt á undan mér og var að kenna allskonar trikk í því,“ segir hann spurður hvort þetta hafi verið einhverskonar frumkvöðlastarf sem hann hafi borið með sér heim úr náminu. Hvernig sem það bar að virðist Sigurður þó hafa haft með sér ástríðuna á bæði jóga og laxveiði í gegnum ævina og virðist hún ekkert síðri en ástríðan fyrir sköpuninni sem hann setur fram í skartgripum.

mbl.is