Óvíst hvort þing verði kallað saman

Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar segir líklegt að nefndin komi …
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar segir líklegt að nefndin komi saman á morgun og ræði lagasetningu til þess að heimila skyldudvöl í sóttvarnahúsum. mbl.is/Hari

„Við göngum út frá því að hafa fund á morgun,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, í ljósi úrskurðar héraðsdóms þar sem ákvörðun stjórnvalda um að skylda fólk í sóttvarnahús var dæmd ólögmæt í öllum málum sem tekin voru fyrir.

Þar sem Alþingi er í páskahléi þyrfti forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon, að kalla saman þing svo að hægt verði að leggja fram frumvarp um breytingar á sóttvarnalögum.

Skiptir sköpum í þeim efnum hvort Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggist leggja fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, í þeim tilgangi að veita úrræðinu lagastoð, en nefndin bíður svara frá ráðherra.

Mun nefndin fara þess á leit að lög verði sett sem heimili skyldudvölina?

„Það eru skiptar skoðanir í nefndinni um hvað fólk vill gera. Einhverjir vilja að sett verði lög til að heimila skyldudvöl í sóttvarnahúsi, aðrir vilja það ekki.“ 

Finnst þér tilefni til að setja slík lög?

„Ég hef talað fyrir því að það ætti að hafa skýrari reglur í lögunum. Fyrir öllum þvingunaraðgerðum stjórnvalda verða að vera heimildir í lögum. En ég treysti Þórólfi til að meta aðgerðir, því nú er ég ekki vísindamaður,“ svarar Helga.

Ekki hefur náðst í heilbrigðisráðherra vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert