Óbrynnishólmi gæti myndast í dag

mbl.is/Kristinn Magnússon
Hraun hefur runnið úr þriðja gígnum í alla nótt en gosið byrjaði þar hægt líkt og í þeim tveimur fyrri. Nýr farvegur hefur myndast úr gígnum sem opnaðist á mánudag og stutt í að myndist óbrennishólmi (óbrynnishólmi) milli farveganna tveggja í Meradal. Opnað var fyrir aðgang almennings klukkan sex í morgun.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, hefur staðið vaktina í alla nótt og hann segir að gosið í nýja gígnum hafi byrjað hægt um miðnætti líkt og í tveimur fyrri, það er í Geldingadal og Meradal, en gosið í þeim báðum síðan sótt í sig veðrið.

„Hraun hefur flætt í Geldingadal í alla nótt en við sjáum líka að eftir að rökkvaði tók hraunflæðið úr gígnum sem opnaðist á mánudag að mynda annan farveg vestar en þann sem rann í Meradal í gær og nú í morgunsárið sést að það er mjög stutt í að þessari vestari farvegur nái að mynda óbrynnishólma á milli þessara tveggja farvega. Þannig að það lokast af landsvæði á milli hraunstraumanna,“ segir Einar í samtali við mbl.is í morgun. 

Óbrynnishólmi eða öðru nafni óbrennnishólmi er hólmi sem myndast á milli hraunfarvega og brennur ekki. Einar á von á að þetta geti gerst í dag, það er að slíkur hólmi myndist. 

Magnús Kristinsson sendi mbl.is þessa mynd sem var tekin í …
Magnús Kristinsson sendi mbl.is þessa mynd sem var tekin í nótt og sýnir gosstrókana þrjá séða frá Keflavík. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að í dag sé spáð dálítilli gasmengun og óhollum gildum í byggð á norðanverðum Reykjanesskaga. Fyrst og fremst í Reykjanesbæ en einnig í Vogum, Sandgerði, Garði, Höfnum. 

Eftir hádegi í dag dregur talsvert úr vindi. Gasmengun berst til norðurs og norðausturs frá gosstöðvunum og eru líkur á óhollu lofti í byggð á norðanverðum Reykjanesskaga. Snýst í vaxandi norðaustanátt seint í kvöld og þá gæti mengun borist yfir Grindavík.

RÚV hefur eftir lögreglunni á Suðurnesjum að gossvæðið hafi verið opnað fyrir almenningi líkt og til stóð klukkan sex en þar séu fáir á ferli.

Blaðamanni mbl.is hefur ekki tekist að ná í lögregluna þar í morgun en tilkynning var sett á facebooksíðu lögreglunnar í gær og stendur hún samkvæmt RÚV.

„Lokað verður fyrir alla umferð að gosstöðvunum kl. 18:00 eða fyrr ef nauðsyn krefur.
Viðbragðsaðilar munu hefja rýmingu á gossvæðunum kl. 22:00.
Þeir sem hyggjast fara að gosstöðvunum eru hvattir til að klæða sig eftir veðri.“

Almannavarnir munu funda klukkan níu með viðbragðsaðilum á svæðinu og síðan verður haldinn vísindaráðsfundur klukkan 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert