Líkir Brynjari Níels við Trump

Kári Stefánsson var gestur Kastljóssins í kvöld.
Kári Stefánsson var gestur Kastljóssins í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýnir Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að ferðast til Spánar án þess að eiga þangað brýnt erindi. Þá líkir hann þingmanninum við Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

„Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níelsson hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til útlanda, og var á þann hátt að reka fingur framan í sóttvarnayfirvöld,“ sagði Kári sem var gestur Kastljóssins á RÚV í kvöld.

Í viðtalinu lýsti Kári óánægju sinni með niðurstöðu héraðsdóms, sem úrskurðaði á dögunum að ekki væri heimild í lögum til að skylda fólk til að dvelja í sóttkvíarhúsum ríkisins. Sagði Kári að helsti lærdómurinn af þeim úrskurði væri sá að dómurum í héraðsdómi gætu orðið á mistök.

Allir heimilismenn í sóttkví

Í stað þess að renna lagastoðum undir þær aðgerðir sem dæmdar voru ólöglegar hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra undirritað nýja reglugerð sem ætlað er að herða reglur um hvernig fólk á að bera sig að í sóttkví. Meðal þess sem segir í reglugerðinni er að fólk megi ekki vera í sóttkví á heimili þar sem annað fólk er ekki í sóttkví. Sé fólk ekki í aöstöðu til að fara í sóttkví utan heimilis verða allir heimilismenn að fara í sóttkví.

Kára Stefánssyni þykja þetta eðlileg viðbrögð við dómi héraðsdóms þótt reglugerðin nái ekki öllum þeim markmiðum sem sú fyrri gerði.

mbl.is

Bloggað um fréttina