Brynjar svarar Kára

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur svarað ummælum Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, frá í gær, en í Kastljósi líkti Kári Brynjari við Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Brynjar skrifar færslu á facebooksíðu sína í dag þar sem hann segir að Kári sé „sérfræðingur í öllu, öðrum fremri“. Bætir hann við að þjóðin hafi öll fengið „ókeypis fræðslu um sóttvarnir og ekki síður lögfræði“, en Brynjar sjálfur er lögfræðingur. Heldur Brynjar svo áfram með þekkta vísun til sérfræðiþekkingar á suðvesturhorninu þegar hann nefnir Kára. „Hann er sérfræðingur að sunnan og býr sennilega alveg syðst á landinu.“

Í Kastljósinu í gær var Kári að ræða sóttvarnaaðgerðir og nefndi einnig ferðalag Brynjars um páskana til Spánar. „Ég heyrði því fleygt að Brynj­ar Trump Ní­els­son hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekk­ert er­indi til út­landa, og var á þann hátt að reka fing­ur fram­an í sótt­varna­yf­ir­völd,“ sagði Kári.

Brynjar segir ekki með öllu rétt að ferðin hafi verið óþörf. „Rétt er að taka það fram að þessi utanferð mín var fjarri því að vera óþörf. Deila má um hvort hún hafi verið bráðnauðsynleg. Þannig stendur á að elsti bróðir minn býr á Spáni ásamt konu sinni, sem fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpu ári. Hugsunin var sú að við bræður hans kæmum ásamt eiginkonum til að létta undir með honum í smá tíma. Einnig að gefa honum kost á að eiga stund með bróður okkar, sem glímir við alzheimer, áður en hugurinn hverfur alveg,“ segir Brynjar.

Brynjar virðist ekki heldur gefa mikið fyrir Trump-samlíkinguna. Segist hann alltaf hafa haft gaman af hrokafullum mönnum, en Trump hafi tapað kosningum vegna þess að hrokinn hafi farið út í óstjórnlegt frekjukast. Við það missi hrokinn marks og allur sjarmi hverfi.

Kári Stefánsson í Kastljósinu í gær.
Kári Stefánsson í Kastljósinu í gær. Skjáskot/Rúv

Brynjar segir ummæli Kára tilkomin vegna gagnrýni hans á aðgerðir stjórnvalda í tengslum við sóttvarnahótel. „Þessi heift og reiði í minn garð sem skynja mátti hjá Kára í umræddum Kastljóssþætti er augljóslega vegna gagnrýni minnar á aðgerðir yfirvalda í tengslum við frelsissviptingar á sóttvarnahóteli, sem voru alltof víðtækar og auk þess augljóslega ólögmætar. Geri mér grein fyrir því að sjónarmið Kára hafa víðtækan hljómgrunn í samfélaginu og ætla má að stjórnmálamenn sem tali gegn þeim séu annaðhvort fullkomnir fávitar eða að kveðja stjórnmálin.“

Að lokum segist Brynjar ekki vera á móti sóttvarnaaðgerðum, en að ekki megi ganga lengra gegn réttindum fólks en nauðsynlegt er og lög heimila. Segist hann jafnframt ekki gera neinar athugasemdir við að vera í sóttkví heima hjá sér eftir ferðina. „Einu áhyggjur mínar í augnablikinu eru af því hvernig eiginkonunni muni reiða af eftir að hafa setið föst með mér í fimm daga,“ segir Brynjar.

mbl.is